BANDARÍSKUR almenningur er löngu búinn að fá nóg af öllu fárinu í kringum samband Bills Clintons og Monicu Lewinsky og virðist ekkert fremur vilja en að stjórnvöld einbeiti sér að raunverulegum störfum sínum og ljúki málinu.

Blendnar tilfinningar

almennings Viðhorf Bandaríkjamanna til vandræða Clintons hafa verið blendin en skoðanakannanir gefa nú til kynna að meirihluti þjóðarinnar vilji fyrirgefa forsetanum. Rakel Þorbergsdóttir skrifar frá Boston en þangað kom Clinton í stutta heimsókn á dögunum. BANDARÍSKUR almenningur er löngu búinn að fá nóg af öllu fárinu í kringum samband Bills Clintons og Monicu Lewinsky og virðist ekkert fremur vilja en að stjórnvöld einbeiti sér að raunverulegum störfum sínum og ljúki málinu. Þrátt fyrir að Massachusetts sé þekkt fyrir að vera ríki demókrata hafa nokkrir frammámenn þess í flokknum lýst yfir óánægju sinni vegna hneykslismála forsetans og í nýafstaðinni heimsókn Clintons til Boston sýndu sumir andstöðu sína með því að vera fjarverandi og neita að standa við hlið hans. Að þeirra mati hefur forsetinn tapað þeim siðferðilega trúverðugleika sem embættinu er nauðsynlegur og á að sýna manndóm sinn með því að láta af embætti. Sú umræða hefur verið áberandi hér í landi að þær nákvæmu og persónulegu upplýsingar, sem hafa verið gerðar opinberar í Lewinsky málinu og fjölmiðlar hafa miðlað almenningi, hafi farið út fyrir öll velsæmismörk. Ítarlegar lýsingar á kynlífi forsetans hafa verið prentaðar, þeim útvarpað og sjónvarpað og dreift á netinu. Óttast margir að ekki verði aftur snúið og það frelsi sem fjölmiðlar hafa leyft sér í opinskárri umfjöllun á málinu verði ekki aftur tekið. Innihald skýrslu Kenneths Starrs hefur undanfarið verið endalaus uppspretta klámbrandara, pólitískrar- og siðferðilegrar umræðu í sjónvarpi og útvarpi þar sem svæsnustu bitar skýrslunnar eru tuggðir aftur og aftur. Þrátt fyrir að almenningur gleypi við þeim upplýsingum sem veittar eru í málinu má heyra að hneykslun fólks og skömm tengist miklu fremur opinberuninni á kynlífi forsetans heldur en sjálfu athæfinu. Stanslausar skoðanakannanir, umræðuþættir, "ný" sjónarhorn og umræða á götunni sýna að allir hafa skoðun á Lewinsky málinu. Í skoðanakönnun sem The New York Times birti í gær er fylgi forsetans nú mjög á uppleið og virðist sem opinber birting myndbands af yfirheyrslu Kenneths Starrs yfir honum á mánudag hafi, þótt ótrúlegt megi virðast, bætt stöðu forsetans.

Virðast Bandaríkjamenn sammála um að dómsmálanefnd Bandaríkjaþings sé hlutdræg og að hún hafi gengið of langt er hún ákvað að birta myndbandið opinberlega, segja 78% aðspurðra að aldrei hefði átt gera það opinbert enda snerti umræðuefni þess einkalíf forsetans sem engan varði um. Sögðust 65% telja að repúblikanar, sem hafa meirihluti á þinginu, séu með óheiðarlegum hætti að reyna að veikja stöðu Clintons og Demókrataflokksins.

Í heildina litið hefur fylgi Clintons aukist verulega, fleiri treysta honum nú en í síðustu viku sem leiðtoga þjóðarinnar, Bandaríkjamenn kunna betur við hann og telja síður að hann hafi gerst sekur um meinsæri í vitnisburði sínum. Fylgi við hann í starfi er nú 67% og vilja einungis 46% Bandaríkjamanna að þingið samþykki vítur á forsetann en 57% vildu það fyrir viku. Einungis 11% vilja að þingið höfði mál á hendur honum til embættismissis. 31% vilja reyndar að hann segi af sér en 29% vilja aðeins að hann biðjist afsökunar og 26% vilja að málið verði látið niður falla.

Arðvænleg heimsókn Clintons Daglöðin hér í Boston hafa verið í hópi þeirra blaða sem hafa hvatt foretann til afsagnar og hefur The Boston Herald hvað eftir annað vakið athygli á því hversu slæmt þetta hneyksli er fyrir Bandaríkin og forsetaembættið. The Boston Globe hefur verið á sömu nótum en er íhaldssamara dagblað og fer varlegar í fréttaflutningi sínum og reynir að forðast þá æsifréttamennsku sem hefur annars einkennt málið. Clinton kom í stutta heimsókn til Boston í síðustu viku og endurspegluðu móttökurnar blendnar tilfinningar borgarbúa gagnvart forsetanum sem heilsuðu upp á hann með mótmælaspjöldum jafnt sem stuðningsyfirlýsingum í miðborginni. Tilefni heimsóknar forsetans var fjáröflun Demókrataflokksins og safnaðist rúmlega ein milljón dollara sem þykir dágóð upphæð á einum degi jafnvel fyrir Boston sem er eitt helsta vígi flokksins. Forsetinn sótti kvöldverðarboð á Park Plaza hótelinu þar sem um sex hundruð stuðningsmenn flokksins mættu og opnuðu pyngjur sínar. Höfuð Kennedy-ættarinnar, Edward M. Kennedy, fór þar fremstur í flokki og í ræðu sem hann hélt af tilefninu lét hann þau orð falla að Boston hefði verið Clinton-svæði árið 1992, Clinton-svæði árið 1996 og væri enn Clinton- svæði, við mikinn fögnuð viðstaddra.

Margir af helstu frammámönnum Boston voru viðstaddir og þar á meðal var ríkissaksóknarinn og nýkjörinn frambjóðandi demókrataflokksins í komandi fylkisstjórakosningum, Scott Harshbarger. Í ræðu sem forsetinn hélt í kvöldverðarboðinu lagði hann áherslu á stefnuskrá flokksins og stjórnmál og sleppti öllum afsökunar- og iðrunarorðum vegna Lewinsky-málsins.