SUNNUDAGUR 27. september er alþjóðlegur baráttudagur heyrnarlausra. Á þessum degi nota heyrnarlausrir um allan heim tækifærið til að vekja athygli á samfélagi heyrnarlausra og hagsmunamálum sínum. Félag heyrnarlausra var stofnað árið 1960 og er heildarsamtök heyrnarlausra á Íslandi.
Mannréttindi heyrnarlausra Opinber viðurkenning á táknmáli er forsenda þess, segir Hafdís Gísladóttir , að heyrnarlausir geti tekið þátt í íslensku samfélagi.

SUNNUDAGUR 27. september er alþjóðlegur baráttudagur heyrnarlausra. Á þessum degi nota heyrnarlausrir um allan heim tækifærið til að vekja athygli á samfélagi heyrnarlausra og hagsmunamálum sínum. Félag heyrnarlausra var stofnað árið 1960 og er heildarsamtök heyrnarlausra á Íslandi. Markmið félagsins er að bæta stöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra í samfélaginu, stuðla að réttindum þeirra til jafns við aðra og rjúfa félagslega einangrun þeirra með öflugu félagslífi, fræðslu og ráðgjöf. Einnig miðar félagið að því að koma upplýsingum til almennings um heyrnarleysi, menningu og tungumál heyrnarlausra, íslenska táknmálið. Félagsmenn eru tæplega 200 og flestir þeirra eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Félagið rekur starfsemi sína að mestu leyti með eigin fjáröflun en opinberir styrkir eru um 20% af tekjum félagsins. Helsta baráttumál Félags heyrnarlausra er að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra en opinber viðurkenning á táknmáli er forsenda þess að heyrnarlausir geti tekið þátt í íslensku samfélagi. Í dag er íslenska táknmálið hvorki viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra í íslensku stjórnarskránni, lögum um málefni fatlaðra, lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga né íslenskum leikskólalögum og grunnskólalögum. Forsenda þess að heyrnarlausir geti tekið fullan þátt í íslensku samfélagi er að þeim sé tryggð menntun á táknmáli og túlkaþjónusta. Heyrnarlaus börn þurfa menntun þar sem táknmál er kennslumálið og fullorðnum heyrnarlausum þarf að tryggja þátttöku í samfélaginu í gegnum túlka. Menntun heyrnarlausra og táknmálstúlkun verður að byggja á fræðilegum rannsóknum á táknmáli þannig að hægt sé að mennta táknmálskennara og halda við þeirri þekkingu auk útgáfu námsgagna o.s.frv. Réttur heyrnarlausra til táknmálstúlkunar er aðeins skilgreindur í lögum um réttindi sjúklinga (1997). Til samanburðar má nefna að Norræni tungumálasamningurinn tryggir Svíum, Norðmönnum, Dönum og Finnum rétt til þess að fá ókeypis túlkaþjónustu í samskiptum sínum við opinber yfirvöld hér á landi. Heyrnarlaus Íslendingur hefur ekki þennan rétt. Meirihluti félagsmanna í Félagi heyrnarlausra hefur litla menntun og háir það þeim verulega í daglegu lífi. Fullorðnir heyrnarlausir fengu á sínum tíma enga kennslu í íslensku táknmáli heldur var ofuráhersla lögð á að kenna heyrnarlausum að tala íslensku. Afleiðingin varð sú að heyrnarlausir tileinkuðu sér hvorki íslenskt táknmál né íslensku en ólust upp í mjög brotnu málumhverfi. Kennsla í táknmáli og um táknmál er því mjög mikilvæg fyrir fullorðna heyrnarlausa. Á þessu ári hófst hjá Félagi heyrnarlausra fullorðinsfræðsla en markmið hennar er að koma á markvissri fullorðinsfræðslu fyrir heyrnarlausa, fræðslu sem eykur réttindi þeirra á vinnumarkaðnum og möguleika til áframhaldandi náms. Lögð er áhersla á að menntastofnanir sjái heyrnarlausum fyrir menntun en að Félag heyrnarlausra starfi sem ráðgefandi aðili um hvernig menntunin skuli fara fram með tilliti til þarfa heyrnarlausra. Góð samvinna er m.a. við Tómstundaskólann, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og aðrar stofnanir sem sýnt hafa málinu áhuga. Félag heyrnarlausra hefur leitað álits framkvæmdastjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands um hvort brotið sé á mannréttindum heyrnarlausra á Íslandi þar sem íslenska táknmálið er ekki viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og þeim ekki tryggður réttur til túlkaþjónustu í samskiptum við yfirvöld. Laugardaginn 3. október nk. mun Félag heyrnarlausra standa fyrir málþingi um mannréttindi heyrnarlausra í Háskólabíói þar sem meðal ræðumanna verður Ragnar Aðalsteinsson hrl. og formaður framkvæmdastjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mun hann meðal annars fjalla um stöðu heyrnarlausra út frá mannréttindasjónarmiðum. Ráðstefnan hefst klukkan 13.00 og er aðgangur ókeypis. Höfundur er framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra. Hafdís Gísladóttir