ÞAÐ er undarleg þverstæða að við Íslendingar höfum lengi talið okkur það til tekna að vera almennt vel menntaðir, en jafnframt haldið upp á þjóðlegt spakmæli sem sagði að ekki verði bókvitið í askana látið. Ef það speglar raunveruleg viðhorf okkar til menntunar þá erum við í hættu stödd. Við dæmum okkur sjálf til að verða á eftir öðrum þjóðum í þekkingarleit og ávinningum hennar.
Nýsköpun í menntun og skólastarfi

Framundan er tímabil mikilla breytinga, segir Árni R. Árnason , og hraðra framfara í atvinnulífi.

ÞAÐ er undarleg þverstæða að við Íslendingar höfum lengi talið okkur það til tekna að vera almennt vel menntaðir, en jafnframt haldið upp á þjóðlegt spakmæli sem sagði að ekki verði bókvitið í askana látið. Ef það speglar raunveruleg viðhorf okkar til menntunar þá erum við í hættu stödd. Við dæmum okkur sjálf til að verða á eftir öðrum þjóðum í þekkingarleit og ávinningum hennar. Við dæmum okkur úr leik í samkeppni við aðrar þjóðir ef við höfnum því að menntun sé leið til framfara og betri lífskjara. Hið rétta er að menntun flytur þekkingu og nýjungar milli einstaklinga, kynslóða og þjóða. Menntun er forsenda fyrir og lykillinn að framþróun, batnandi lífskjörum og aukinni velmegun og ekkert annað kemur í stað menntunar.

Aukinn vegur verkmennta

Á síðustu árum og um þessar mundir er unnið mikið starf að nýsköpun í skólastarfi og endurmótun menntunar, enda brýnt viðfangsefni. Hefja þarf til vegs sjónarmið, aðferðir og námsefni sem öðrum þjóðum hafa gefist best. Auka þarf virðingu starfs- og verkmennta til jafns við bóknám, auka og festa í sessi gagnkvæm tengsl skóla og atvinnulífs og umræðu þeirra um nám og námsefni. Námsefni þarf að þróa með tilliti til þarfa atvinnulífs og námsfólks svo það leiði til framfara og fjölbreytni í mannlífi og atvinnulífi og skapi breiðari grundvöll fyrir lífskjörum okkar. Námsefni um fjárhagsmál, stjórnun og verkaskipti, rekstur fyrirtækja, samstarf, samkeppni, útflutningsstarfsemi og markaðsmál þarf að verða hluti af námi til fleiri starfsgreina en nú er.

Námsefni og starfsnám sem tengist sjávarútvegi, veiðum, eldi og vinnslu, fiskiðnaði og matvælaiðnaði yfirleitt ætti að njóta sérstakrar virðingar og forgangs. Sama má segja um námsefni á sviði umhverfismála og fræði sem varða verndun og nýtingu lifandi auðlinda náttúrunnar. Hyggja þarf að námsefni á sviði iðnframleiðslu og efla nám um þjónustu og viðskipti við ferðamenn. Í námi verður í vaxandi mæli að bjóða starfskynningu og svara þannig þörf ungmenna fyrir kynni af vinnumarkaði. Frumkvæði, framtakssemi og drifkraftur námsfólks þarf að njóta sín og þroskast í námi, próf verði viðhöfð sem eðlileg verkfæri gæðastjórnunar í skólastarfi, námsfólk fái viðurkenningu fyrir góðan námsárangur og vel unnin störf.

Tækniþróun og vélvæðing sem leysir starfsmenn af hólmi skapar hratt vaxandi þörf fyrir endurmenntun og símenntun. Skólarnir þurfa að svara þeirri þörf með raunhæfu námsefni fyrir nýjan starfsvettvang.

Bætt samskipti við aðrar þjóðir

Aðild okkar að samstarfsverkefnum ESB-ríkjanna á sviði vísinda, rannsókna, þróunar, menntunar og starfsþjálfunar þarf að leiða hingað nýjustu hugmyndir og menningarstrauma þjóðanna á meginlandi Evrópu.

Hér hefur lengi starfað alþjóðlegur skóli um jarðfræði og nú nýlega er hafin starfsemi alþjóðlegs sjávarútvegsskóla. Slík skólasetur veita sjónarmiðum okkar leið inn í umræðu og menntun uppvaxandi kynslóða grannþjóða okkar, og veita okkur greiðan aðgang að nýjustu þekkingu, hugmyndafræði og tækni þeirra í þessum málaflokkum. Ekki síst myndu okkur gefast sérstök tækifæri til að hafa áhrif á þróun hugmyndafræði í þessum málaflokkum, sem eru okkur afar mikilvægir. Ég tel rétt að hér verði einnig komið á fót alþjóðlegum umhverfisskóla í samstarfi við grannþjóðir okkar.

Nám fyrir vaxtargreinar

Framundan er tímabil mikilla breytinga og hraðra framfara í atvinnulífi. Til að Ísland njóti þeirra þarf sífellt að endurmeta námsefni og námsbrautir og kynna framtíðarmöguleika til að laða námsfólk að þeim atvinnugreinum sem líklegt er að muni eflast og þarfnast aukins mannafla og þekkingar starfsmanna. Fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu geta náð viðskiptum við erlenda kaupendur t.d. í samstarfi við ferðamannaþjónustu en það kallar m.a. á námsefni um markaðsstarf og viðskipti. Sjávarútvegur og þær greinar sem veita honum þjónustu geta átt viðskipti við úthafsveiðiflota annarra þjóða á norðurhöfum, fiskveiðiflota og vinnslustöðvar víða um heim og markaðssett sjávarafurðir annarra þjóða. Hugbúnaðarfyrirtæki okkar eru hratt vaxandi og hafa náð stórmerkum árangri á erlendum mörkuðum.

Síst skal gleyma erfðafræði sem er besta dæmi okkar um afl menntunar, þekkingar og rannsókna til að bæta lífsgæði þeirra sem njóta árangurs og lífskjör þeirra sem þannig menntast og starfa. Það er líka athygli vert að stórstígar framfarir í þessari grein verða utan ríkisstofnana, en hér á landi er nær öll heilbrigðisþjónusta og vísindastarfsemi njörvuð innan ríkisstofnana.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjaneskjördæmi.

Árni Ragnar Árnason.