LÖGFRÆÐINGAR Bills Clintons, forseta Bandaríkjanna, kanna nú hvort grundvöllur sé fyrir því að semja við Paulu Jones þannig að hún fáist til að láta mál sitt gegn forsetanum niður falla og að með því takist að binda enda á málið sem hóf það gjörningaveður sem um forsetann og embætti hans hefur staðið síðan í janúar.
Lögfræðingar Clintons vilja

semja við Paulu Jones

LÖGFRÆÐINGAR Bills Clintons, forseta Bandaríkjanna, kanna nú hvort grundvöllur sé fyrir því að semja við Paulu Jones þannig að hún fáist til að láta mál sitt gegn forsetanum niður falla og að með því takist að binda enda á málið sem hóf það gjörningaveður sem um forsetann og embætti hans hefur staðið síðan í janúar.

Máli Jones var vísað frá fyrr á árinu en lögfræðingar Clintons leggja nú áherslu á að fá lögmenn Jones til að ganga til samninga áður en áfrýjunardómstóll tekur afstöðu til þess í næsta mánuði hvort ákæra Jones á hendur forsetanum um kynferðislega áreitni verður aftur tekin fyrir. Fyrir ári hafnaði Jones boði forsetans um 700.000 dollara greiðslu, um 50 milljónir ísl. króna, vegna þess að hún vildi að forsetinn viðurkenndi að hafa áreitt hana og bæðist afsökunar. Stuttu áður en máli hennar var vísað frá í febrúar gáfu lögfræðingar hins vegar til kynna að Jones kynni að sættast á 900.000 dollara, um 65 milljónir ísl. kr.

Hvorki lögfræðingar Clintons né Jones vildu tjá sig mikið um þessar þreifingar en fréttaskýrendur The Washington Post telja samkomulag nú báðum nokkuð í hag. Nýlegar játningar Clintons þess efnis að hann hefði ekki verið fyllilega hreinskilinn þegar hann tjáði sig um sambandið við Lewinsky í vitnisburði sínum í Jones-málinu í janúar hafa fært lögfræðingum Jones nokkur vopn upp í hendurnar og hafa þeir rætt um að ákæra þyrfti Clinton fyrir að sýna réttinum í máli Jones lítilsvirðingu.

Á hinn bóginn er talið að lögfræðingar Clintons bendi á að Monica Lewinsky var ekki til umfjöllunar í Jones-málinu og að ummæli Clintons á þeim vettvangi um samband þeirra skipti því litlu máli. Þar að auki er talið líklegt að Jones myndi gjarnan sættast á greiðslu frá forsetanum nú því hún hefur átt í miklum fjárhagserfiðleikum upp á síðkastið eftir að eiginmaður hennar, Steve, var rekinn úr starfi.

Segir The New York Times að lögfræðingar Jones hafi sagt að Jones sé tilbúin að láta málið niður falla, og það án þess að Clinton þurfi að biðjast afsökunar, samþykki forsetinn að greiða eina milljón Bandaríkjadala, um 70 milljónir ísl. kr. Lögmenn forsetans munu hins vegar hafa boðið helming þeirrar fjárhæðar.

Ekki er víst að Clinton væri lagalega sloppinn fyrir horn semdi hann við Jones en heimildarmenn The New York Times sögðust telja að sú reiði sem ríkir í garð forsetans gæti farið dvínandi takist samningar við Jones.

Stríð Clintons við þingið

Dómsmálanefnd Bandaríkjaþings ræddi í gær hvort gera ætti opinberan afganginn af gögnum sem Kenneth Starr sendi þinginu fyrir tveimur vikum. Voru skiptar skoðanir um málið og deildu demókratar innbyrðis um hvernig tekið skyldi á því. Repúblikanar deila einnig innbyrðis um það hvort Newt Gingrich, forseti fulltrúadeildar þingsins, sé orðinn of sýnilegur í stríðinu um það hvort höfða eigi mál gegn forsetanum til embættismissis. Var Henry Hyde, formaður dómsmálanefndarinnar, spurður að því á fimmtudag hvor þeirra myndi stjórna rannsókn á hendur forsetanum, fari svo að slík rannsókn verði samþykkt, og sagði hann að hann myndi stýra henni, ekki Gingrich.

Stuðningsmenn Clintons leggja nú alla áherslu á að telja fulltrúa á Bandaríkjaþingi á að láta sér duga að samþykkja vítur á hendur forsetanum. Staðfesti Marsha Berry, fréttafulltrúi Hillary Clinton, í gær að forsetafrúin hefði undanfarna daga sjálf haft samband við þingmenn demókrata til að afla eiginmanni sínum stuðnings.

Fréttaskýrendur The Washington Post telja að forsetinn standi talsvert betur nú en fyrir viku enda sýna skoðanakannanir að almenningur í Bandaríkjunum styður forsetann og þar að auki virðist sem demókratar, sem fyrir nokkru virtust ætla að þvo hendur sínar af Clinton, hafi aftur tekið forsetann í sátt, að einhverju leyti a.m.k., og telji vítur nægjanlega refsingu handa forsetanum.

"Menn eru miklu bjartsýnni nú á að forsetanum takist að hafa betur í þessum slag," sagði Leon Panetta, fyrrverandi starfsmannastjóri í Hvíta húsinu, sem þykir einmitt gott dæmi um mann sem lengi vel gagnrýndi forsetann fyrir að gera ekki hreint fyrir sínum dyrum en beitir sér nú af hörku fyrir því að forsetanum verði gert kleift að sitja áfram í embætti.

Reuters BILL Clinton Bandaríkjaforseti í heimsókn í barnaskóla í Chicago í gær.