SKÓGRÆKTARSTÖÐIN Barri á Egilsstöðum og Fossvogsstöðin í Reykjavík, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur rekið, hafa sameinast undir nýju nafni, Barri-Fossvogsstöðin hf. Með sameiningunni verður til stórt fyrirtæki á sviði skógar- og garðplöntuframleiðslu og helsti keppinautur stöðvarinnar verður, að sögn Jóns Arnarsonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Skógrækt ríkisins.
ÐBarri og Fossvogsstöðin sameinast

Framleiðsla einræktaðra plantna aukin

SKÓGRÆKTARSTÖÐIN Barri á Egilsstöðum og Fossvogsstöðin í Reykjavík, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur rekið, hafa sameinast undir nýju nafni, Barri-Fossvogsstöðin hf.

Með sameiningunni verður til stórt fyrirtæki á sviði skógar- og garðplöntuframleiðslu og helsti keppinautur stöðvarinnar verður, að sögn Jóns Arnarsonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Skógrækt ríkisins. Skógrækt ríkisins er jafnframt annar stærsti viðskiptavinur Barra-Fossvogsstöðvarinnar.

Ætlunin er m.a. að leggja aukna áherslu á vefjaræktun, eða einræktun plantna, í sameinuðu fyrirtæki.

Reknar sem tvær deildir

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu leitaði fyrirtækið álits Samkeppnisstofnunar á samrunanum og gerði Samkeppnisstofnun ekki athugasemd við hann.

Að sögn Jóns fór sameiningin þannig fram að Barri keypti rekstur og búnað Fossvogsstöðvarinnar en mun leigja fasteignir Fossvogsstöðvarinnar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Skógræktarstöðvarnar tvær verða nú reknar sem tvær deildir innan sama fyrirtækis.

"Þessi kaup eru fjármögnuð með aukningu hlutafjár í Barra þannig að Fossvogsstöðin verður 25% hluthafi í Barra," sagði Jón.

Hann sagði að kaupin hefðu ýmsa kosti í för með sér, fyrirtækið verður samkeppnishæfara, útsölustöðum fjölgar, framleiðslan verður fjölbreyttari og áhætta af rekstrinum dreifist.

Stefnt að því að einfalda reksturinn

Barri hefur að sögn Jóns nær eingöngu stundað framleiðslu skógarplantna sem síðan eru seldar til skógræktarfélaga og annarra aðila í skógrækt. Með sameiningunni bætist framleiðsla á garðplöntum við afurðir fyrirtækisins.

Velta Barra á síðasta ári var 30 mkr. en velta Fossvogsstöðvarinnar var heldur meiri að sögn Jóns.

Stefnt er að því að einfalda rekstur fyrirtækisins og lögð verður höfuðáhersla á skógarplönturæktun og svokallaða vefjaræktun sem er einræktun á plöntum sem Fossvogsstöðin hefur, ein skógræktarstöðva á Íslandi, framleitt til þessa. "Við vonumst til að auka þann þátt í framleiðslunni og munum einkum leggja áherslu á framleiðslu á birki og reyniviði á því sviði."