ÓLAFUR B. Thors, framkvæmdastjóri Sjóvár-Almennra, segir að athugun starfsmanna fyrirtækisins bendi ekki til þess að þeir þurfi af samkeppnisástæðum að gera sérstakar ráðstafanir vegna nýrra umsvifa FÍB á tryggingamarkaðinum.
Tryggingafélög um FÍB-tryggingar Kallar ekki á ráðstafanir

ÓLAFUR B. Thors, framkvæmdastjóri Sjóvár-Almennra, segir að athugun starfsmanna fyrirtækisins bendi ekki til þess að þeir þurfi af samkeppnisástæðum að gera sérstakar ráðstafanir vegna nýrra umsvifa FÍB á tryggingamarkaðinum.

"Skilmálar og verðlagning eru alltaf í einhvers konar endurskoðun hjá okkur og það er yfirlýst stefna félagsins að láta viðskiptamenn njóta þess ef afkoman er góð. Okkur sýnist hins vegar að þau iðgjöld sem langstærsti hluti viðskiptamanna okkar borgar, séu fyllilega samkeppnisfær við þessi iðgjöld og í mörgum tilfellum eru þau lægri," sagði Ólafur. "Auk þess eru skilmálar okkar yfirleitt hagstæðari neytendum en þeir skilmálar sem ég hef séð frá FÍB.

Sannleikurinn er sá að yfir 90% af þeim heimilum sem tryggja hjá okkur eru með afsláttarkjör og menn verða að skoða heildarpakkann. Hvað kostar þetta hjá okkur með þeim afsláttarkjörum sem Sjóvá-Almennar bjóða og hvað kostar þetta annars staðar? Það eru þau kjör sem á að bera saman við," sagði Ólafur og kvaðst telja að sá samanburður sem FÍB hefði gert væri ekki raunhæfur að teknu tilliti til heildarafsláttarkjara og tryggingaverndar. "Vegna yfirlýsinga FÍB manna vil ég segja að menn geta ugglaust tekið hæsta verð hjá okkur borið það saman við eitthvert verð hjá þeim og fengið út að það sé lægra. En það er bara ekki verðið sem yfir 90% af okkar viðskiptavinum eru að borga."

Þjónustuþátturinn

Ólafur sagði að þegar gerður væri samanburður á tvenns konar tryggingum þyrfti líka að taka inn í myndina að þjónustuþátturinn skipti miklu máli. Reynslan sýnir að ef það verður tjón í heimilis- eða húseigendatryggingum verða menn að geta treyst á góða þjónustu. "Félag eins og okkar býður viðskiptavinum aldrei annað en 24 tíma símavakt, hjálp við að útvega iðnaðarmenn og svo framvegis."

Gunnar Felixson, framkvæmdastjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, sagði að þar á bæ hefðu menn ekkli myndað sér ennþá skoðun á því hvort þeir ættu að bregðast sérstaklega við útspili FÍB. "Þetta verður til athugunar en það verða ekki teknar ákvarðanir á næstunni. Við höfum ekki haft tækifæri og tíma til að meta þetta. Þetta er eins og hver önnur samkeppni og það er ekkert um það að segja í sjálfu sér en mér sýnist ekki að þetta muni hafa mikil áhrif þar sem mér sýnist bótasvið, a.m.k. heimilistryggingarinnar, vera þrengra en bótasvið okkar tryggingar."