ELLILÍFEYRIR Svía á í framtíðinni að taka mið af hagvexti í landinu og þola breytingar á mannfjölda og aldurssamsetningu, hann á að grundvallast á öllum ævitekjum, auk réttinda sem ávinnast við umönnun barna, herþjónustu og nám og hægt verður að byrja töku hans við 61 árs aldur, að öllu leyti eða að hluta.
Nýtt sænskt lífeyriskerfi Ellilífeyrir tekur

mið af hagþróun

ELLILÍFEYRIR Svía á í framtíðinni að taka mið af hagvexti í landinu og þola breytingar á mannfjölda og aldurssamsetningu, hann á að grundvallast á öllum ævitekjum, auk réttinda sem ávinnast við umönnun barna, herþjónustu og nám og hægt verður að byrja töku hans við 61 árs aldur, að öllu leyti eða að hluta.

Þetta eru nokkur helstu einkenni nýs lífeyriskerfis Svía sem samþykkt var af sænska þinginu 8. júní sl. og kemst til framkvæmda á næstu árum. Hans Svensson, aðstoðarmaður Maj- Inger Klingvall heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, kynnti þessar breytingar í ræðu á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins í gær. Svensson er í þrítugustu heimsókn sinni á Íslandi, en hann hefur komið hingað bæði vegna starfa sinna og í skemmtiferðum og er farinn að skilja töluvert í íslensku. Hann gaf sér einnig tíma til að ræða við Morgunblaðið, en varð þó öðru hverju að taka sér hlé til að svara símtölum vegna stjórnarmyndunarviðræðna í Svíþjóð.

Svensson segir að nauðsynlegt hafi verið orðið að gera breytingar á sænska lífeyriskerfinu, greiðslur í hann dugi ekki fyrir lífeyrinum sem greiddur er út. Á hverju ári er hallinn um 35 milljarðar sænskra króna.

Lífeyrissjóðurinn stefndi í gjaldþrot 2015-2020

"Núverandi kerfi krefst að minnsta kosti 2% hagvaxtar á ári til að ganga upp efnahagslega, en þannig hefur ástandið ekki verið síðustu 20 árin í Svíþjóð. Á árunum fyrst eftir að kerfinu var komið var á var hins vegar hagvöxturinn 2-4% á ári. Það varð því til á tíma sem var hagstæður í Svíþjóð. Nú fjölgar ellilífeyrisþegum stöðugt og þeir lifa að jafnaði lengur. Lífeyrissjóðurinn hefði orðið þurrausinn einhvern tíma milli 2015-2020 ef ekkert yrði að gert. Í sjóðnum eru nú rúmlega 600 milljarðar sænskra króna."

Svensson segir að rannsókn á möguleikum á nýju lífeyriskerfi hafi hafist fyrir um tíu árum. Sú vinna leiddi til grundvallarsamkomulags milli fimm stjórnmálaflokka, Jafnaðarmannaflokksins, Hægriflokksins, Miðflokksins, Þjóðarflokksins og Kristilegra demókrata árið 1994.

Lífeyriskerfið sem nú er í gildi í Svíþjóð er að stofni til frá 1960. Það byggir á grunnlífeyri sem er jafn fyrir alla, en ofan á hann er lögð viðbót sem miðast við tekjur viðkomandi upp að vissu hámarki. Við útreikning þessarar viðbótar er beitt ákveðnum reiknireglum. Maður sem unnið hefur í þrjátíu ár tekur til dæmis fimmtán bestu árin og lætur reikna út frá launum sínum þá. "

Miðað við allar ævitekjur í nýja kerfinu

Nýja kerfið verður þannig að allar ævitekjur verða teknar til grundvallar við útreikning lífeyris. Upphæð sem nemur 18,5% launa verður greidd til helminga af launagreiðendum og launþegum. Þar af fara 16% beint til greiðslu lífeyris ellilífeyrisþega dagsins í dag. Afganginn, 2,5%, getur hver og einn fjárfest í sjóðum að eigin vali.

"Í kerfi dagsins í dag er þeim hyglað sem vinna tiltölulega stuttan tíma en fá há laun," segir Hans Svensson. "Þeir sem eru lengi á vinnumarkaði með nokkuð jöfn laun allan tímann eru í raun að greiða niður lífeyri hinna. Í nýja kerfinu verður áherslan þveröfug."

Lífeyrir hvers og eins verður reiknaður eftir ákveðnum reglum sem taka tillit til áunninna lífeyrisréttinda, aldurs lífeyrisþegans, reiknaðs meðalaldurs fólks af hans árgangi og hagvaxtar í þjóðfélaginu. Greiðslur úr lífeyrissjóðunum taka þannig mið af þjóðfélagsþróuninni og þannig er ætlunin að komið verði í veg fyrir að þær verði of þung byrði fyrir þann þann hluta þjóðarinnar sem vinnur fyrir þeim á hverjum tíma.

Öllum þeim sem ekki ná að vera nógu lengi á vinnumarkaði er tryggður ákveðinn lágmarkslífeyrir sem miðað við núverandi aðstæður væri um 6.500 sænskar krónur á mánuði auk húsnæðisbóta. Með sérstöku uppbótarkerfi er því þó þannig fyrir komið að þeir sem hafa unnið sér inn einhver lífeyrisréttindi með vinnu eða öðrum hætti fá nær alltaf hærri upphæð en lágmarkið. Það miðast því fyrst og fremst við þá sem aldrei hafa komið á vinnumarkað.

"Launatengdu lífeyrisgreiðslurnar eru fjármagnaðar með vinnu og framleiðslu en lágmarkslífeyrinn borgar ríkið," segir Svensson. "Markmiðið er að sem fæstir þurfi að notfæra sér lágmarkslífeyrinn og geti lifað á því sem þeir sjálfir hafa unnið sér inn. Á þeim verður sá munur að launatengdi lífeyririnn verður látinn fylgja launaþróun í samfélaginu en lágmarkslífeyririnn mun fylgja verðvísitölu."

Réttindi verða til við nám, ummönnun barna og herþjónustu

Lífeyrisréttindi verða einnig til við ákveðnar séraðstæður; við nám, herþjónustu og vegna ummönnunar barna upp að fjögurra ára aldri. Allar tryggingabætur, til dæmis örorkulífeyrir og atvinnuleysisbætur, veita einnig lífeyrisréttindi.

Hagsmuna barnafólks verður sérstaklega gætt í nýja kerfinu. Þeir sem sinna börnum heima, upp að fjögurra ára aldri, geta valið um mismunandi reiknireglur og viðmiðanir varðandi ávinning lífeyrissréttinda. Hugsunin er meðal annars sú að styrkja stöðu kvenna, sem oftar gæta barna en karlar. Foreldrar sem vinna úti í fullri vinnu fá einnig aukin lífeyrisréttindi, því gert er ráð fyrir að þeir geti ekki unnið jafn mikið og ella vegna barnanna.

Í núgildandi lögum er meginreglan sú að allir hefji töku lífeyris við 65 ára aldur. Í nýja kerfinu mega launþegar hefja töku hans hvenær sem er eftir að 61 árs aldri er náð. Þeir geta einnig hafið töku hans að hluta til, 25%, 50% eða 75%, til dæmis ef þeir vilja stunda áfram hlutastarf. Þeir geta byrjað að taka við lífeyrisgreiðslum, til dæmis ef þeir verða atvinnulausir, en hætt því aftur ef þeir fá aftur vinnu. Eftir því lengur er beðið verður lífeyririnn hærri.



HANS Svensson, aðstoðarmaður heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, og einn forystumanna við endurskoðun lífeyriskerfis Svía.