DSÚLARNIR Hér skrái ég þetta: Árið 1541 komu Dsúlarnir í fyrsta sinn, útlendingarnir úr austrinu. Þeir komu til Ekab, sem er nafn þessa staðar. Þeir sigldu inn Vatnahliðið í Ekab að bænum Nakom Balam, á fyrstu dögum árs Katún Ellefu Ahaú. Tuttugu og fimmtán áratugum áður en Dsúlarnir komu höfðu Ítsarnir dreifst...
ÞEIR KOMU MEÐ ELDI OG SVERÐI - UM LANDVINNINGA SPÁNVERJA 4



"DAUÐA YFIR SPÁNVERJA

OG ALLA YFIRSTÉTT..."

EFTIR BERGLINDI GUNNARSDÓTTUR



DSÚLARNIR

Hér skrái ég þetta: Árið 1541 komu Dsúlarnir í fyrsta sinn, útlendingarnir úr austrinu. Þeir komu til Ekab, sem er nafn þessa staðar. Þeir sigldu inn Vatnahliðið í Ekab að bænum Nakom Balam, á fyrstu dögum árs Katún Ellefu Ahaú. Tuttugu og fimmtán áratugum áður en Dsúlarnir komu höfðu Ítsarnir dreifst... Andi Ítzanna) felldi sig hvorki við Dsúlana né við kristindóminn, sem virti hvorki anda fuglanna né anda gimsteinanna eða hinna slípuðu steina, og ekki heldur anda tígrisdýranna, sem vernda manninn... Hins vegar þekktu þeir (Dsúlarnir) tímatalið og jafnvel tímann í líkama þeirra (aldurinn). Tunglið, blærinn, árið og dagurinn, allt líður þetta áfram, en líður þó undir lok. Blóðið leitar sér að lokum hvíldar, eins og allt vald vill hefjast á veldisstól... Þeir (Ítzarnir) höfðu vitið á valdi sínu, helgidóminn, og illgirni var óþekkt í brjósti þeirra. Hreystin ríkti, trúarhneigð, og hvorki þekktust sjúkdómar né verkir í beinum, hitasótt eða bólusótt eða verkur í lungum eða í kviði. Fólk gekk upprétt. En þá komu Dsúlarnir og eyðilögðu allt. Þeir innrættu mönnum ótta, blóm fölnuðu og þeir sugu merg úr mönnum, svo blóm þeirra sjálfra fengju að blómgast. Þeir eyddu blóma Naksír Xutsítl. Engir prestar urðu eftir til að auðga vísdóm okkar. Og þannig hófst önnur tíð og þeir ríktu, og ríki það reið okkur að fullu. Allir urðum við jafnir; sviptir visku og þori, sviptir andlegum leiðtogum og því samviskulausir. Horfin var hin djúpa viska, og hvorki voru til orð né fræðsla færustu manna. Guðir trúarinnar sem okkur var boðuð voru gagnslausir guðir, Dsúlarnir komu til þess eins að gelda sólarljósið. Og synir sona þeirra urðu eftir meðal okkar, sem aðeins hlutum beiskjuna að gjöf. (Úr Chílam Balam bókunum. Guðbergur Bergsson þýddi)



Hvernig leit samfélagið út undir stjórn Spánverja í nýlendum þeirra? Það sem kom með Spánverjum var vissulega gjörólíkt því sem fyrir var og úr sambræðingi þessara kynþátta spruttu á margan hátt merkir hlutir, svo sem í listum. Hins vegar ber stjórnarfar álfunnar enn þess merki að þessir ólíku kynþættir gátu ekki með góðu móti lifað saman; til þess voru Spánverjarnir of harðir og ósveigjanlegir og indjánarnir of þolgóðir í undirgefni sinni og fullir af of miklum söknuði. Valdstjórn Spánverja miðaði fyrst og fremst að því að auðga hina spænsku krúnu. Öll innlend framleiðsla var flutt frá löndum indjána til Spánar, bæði jarðargróður, gull og silfur. Gullið var brætt og steypt í stengur, jafnvel dýrgripir og fágæt listaverk, svo auðveldara væri að flytja það sjóleiðis. Námavinnsla á gulli var mikil, einkum í upphafi, en síðan á silfri. Til hreinsunar á silfrinu var notað kvikasilfur sem flutt var frá Spáni og einokað af krúnunni. Hreinsaður málmurinn var síðan allur fluttur til Spánar og þar hirti kóngurinn þegar fimmtunginn sem sinn eignarhlut. Námavinnslan byggði fyrst og fremst á innfæddu vinnuafli þar sem indjánar voru þrælkaðir. Sættu þeir hinni hroðalegustu meðferð, einkum fór slæmt orð af námavinnslunni í Perú og Bólivíu. Það hve aðkomumenn voru gagnólíkir íbúum álfunnar gaf tilefni til margvíslegra heilabrota varðandi sambýli kynþáttanna, eðli þeirra og blöndun. Þannig veltir jesúítinn Bernabe Cobo því fyrir sér hvort rauðbrúnn hörundslitur indjánanna stafi af loftslagi eða erfðum, og hvort þeir Spánverjar sem búi í nýlendunum hafi breyst svo í útliti að þeir dragi dám af frumbyggjum eftir áralanga veru þar í álfu. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Indjánum lýsir Bernabe Cobo svo: "Allir eru þeir hæglátir að eðlisfari, og þar eð hæglæti gerir limi manna mjúka, eru þeir bæði mjúkholda og viðkvæmir. Þar af leiðir, að þeir þreytast fljótt, og eru því ófærir um að leggja á sig jafn mikið erfiði og Evrópubúar; á Spáni afkastar einn maður á akri meira en fjórir indjánar gera hér. Þeir eru hægfara í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur, og ef einhver rekur á eftir þeim við vinnu, neita þeir að gera nokkurn skapaðan hlut, en ef þeir eru látnir vinna, eins og þeim er lagið, ferst þeim hvað eina vel úr hendi. Þeir auðsýna mikla þolinmæði við að læra vinnubrögð okkar. Þess vegna eru þeir svo frábærir handverksmenn. Þeir eru einkum lagnir við að læra þau störf, sem útheimta þolinmæði, og hafa því margir náð meistaralegri færni í iðn sinni, sérstaklega þeirri, sem er flókin. Þeim geðjast þó ekki að erfiðisvinnu. Þeir sýna mikla hæfileika í söng og hljóðfæraleik, málaralist og höggmyndlist, og einnig í útsaumi, silfursmíði og svipuðum störfum. En umfram allt sýna þeir ótrúlega þolinmæði gagnvart seinlæti lamadýrsins, sem er burðardýr þeirra. Þessi dýr ganga svo hægt, að Spánverjar fá með engu móti þolað það, án þess þeim renni í skap. Aftur á móti fylgir indjáninn þeim eftir á sama hraða, án þess nokkru sinni að tapa stillingu sinni, hversu oft sem lamadýrið stansar eða leggst niður á jörðina með byrði sína á bakinu, en það gera þau þráfaldlega." "HAMINGJA HINS INNBORNA" Eitt af verkefnum hvíta mannsins í álfunni var hinn trúarlegi þáttur. "Kirkjan taldi það skyldu sína að snúa öllum sem til náðist til kristni, koma þeim til skilnings á guðs orði og innprenta þeim kristilegt siðgæði. Auk þess að sinna heiðingjum og nýkristnum frumbyggjum þurfti kirkjan jafnframt að varðveita og hlúa að trúarlífi hinna hvítu herra vestanhafs. Öll menntun og rekstur menntastofnana hvíldi og á herðum kirkjunnar. Mörgum kirkjunnar þjónum hefur vafalaust þótt hin kaþólska kristni frumbyggjanna næsta sérstæð og mjög svo blönduð heiðnum, indjánskum siðum. En allt um það festi kirkjan vel rætur og tryggði sig í sessi. Margir kirkjunnar menn börðust með odd og egg gegn hinni hrikalegu meðferð á indjánum á fyrstu áratugum 16. aldarinnar. Að kröfu manna eins og Bartolomé de las Casas, sem nefndur hefur verið postuli Ameríku, voru sett ýmis lög um réttindi indjána. En það var ekki fyrr en löngu síðar, eða um aldamótin 1600, sem vernd þessi bar árangur. En þá voru indjánar horfnir af stórum svæðum, svo sem eyjum Karabíska hafsins og víðar. Árið 1608 voru indjánar í Mexíkó 1.8 milljón, en voru allt að 25 milljónum rúmum 80 árum fyrr. Svipuð varð þróunin annars staðar. Frelsissvipting, þrælkun, svo og margvíslegar evrópskar farsóttir eiga mestan þátt í þessari óhugnanlegu fækkun frumbyggjanna," segir í bók Sigurðar Hjartarsonar, Þættir úr sögu Rómönsku Ameríku. Við það er svo að bæta að sagnir herma frá sjálfsvígum heilla þorpssamfélaga þar sem indjánar gátu með engu móti unað við ástand sitt. Á meðan landvinningamenn fyrirlitu indjána og vildu hafa þá sem þræla kröfðust prestar þess að þeir nytu "hamingju hins innborna", og væru frjálsir. Báðir aðilar börðust fyrir því að hafa með viðhorfum sínum áhrif í þessu máli. Julian Garcés, sem varð biskup í Tlaxcala í Mexíkó árið 1527, tók þátt í deilunni með frægu bréfi til Páls páfa þriðja. Þar segir meðal annars:



"Heilagi faðir, mér veitist það ekki vandasamt að lýsa fyrir yðar heilagleika því, sem ég hef orðið áskynja um þá ástkæru hjörð, sem hefur á skömmum tíma gengið í kirkju vora, til þess að þér megið gleðjast í guði yfir sálarheill okkar. Og svo ég þreyti yður ekki með frekari málalengingum, þar sem þér þurfið að sinna svo mörgum og vandasömum málefnum í þessum heimi, mun ég nú þegar greina frá réttum málavöxtum. Börn indjánanna eru engan veginn til leiðinda með því að sýna kirkju vorri stífni og þrjósku, eins og börn máranna og gyðinganna gera; nei, þau innbyrða með slíkum hætti sannleika kristinna manna, að þau ekki einasta bera hann með sér, heldur tileinka þau sér hann, og það svo auðveldlega, að engu er líkara en þau drekki hann í sig. Þau læra fyrr en spænsku börnin, og með meiri ánægju, boðorð guðs og bænir vorrar trúar, sem þau geyma dyggilega í huga sér, ásamt öðru, sem þeim er kennt. Þau eru hvorki gráðug né þrætugjörn, stirfin né óeirin, uppivöðslusöm né hrokafull, illgjörn né heiftrækin, heldur notaleg í umgengni, vel upp alin og afar hlýðin við kennara sína. Þau eru bæði elskuleg og hæversk við félaga sína, án þess að klaga þá, baktala eða móðga, eins og algengt er meðal spænskra barna. Samkvæmt því sem vor tíð býður upp á hyllast þau mjög að frjálslyndi. Miklu varðar, að það, sem þeim er gefið, sé gefið einum og öllum, því hvað eina, sem einn fær, deilir hann með öðrum." Það voru einkum jesúítar sem náðu árangri í málefnum íbúanna og stofnuðu samfélög í Paraguay þar sem mikill fjöldi indjána lifði í skjóli þeirra, allt þar til jesúítar voru gerðir útlægir úr Spánarveldi árið 1767. Frægustu trúboðsstöðvarnar voru í Misiones-héraði. Þar eð landvinningamenn áttu torvelt með að yfirbuga indjánana þar voru jesúítar sendir til þess að koma réttri skipan á þá. Þeir leituðu indjánana uppi, fóru djúpt inn í frumskógana með biblíuna eina að vopni og létu stundum líf sitt fyrir. En þegar fram liðu stundir gerðist uppgangur trúboðsstöðvanna svo mikill að undrun sætti, enda voru kjör indjána þar með besta móti; vinnudagur var 8 stundir við léttari störf, en styttri við þau erfiðari. Nýgiftu fólki var látið í té húsnæði og allt sem þurfti til stofnunar heimilis án endurgjalds, raunar hafði sú ráðstöfun tíðkast áður fyrr í ríki inkanna. Og eins og þá var land, framleiðslutæki, hús o.fl. sameign manna. Jesúítar kenndu indjánum ýmsa ræktun og hjá þeim blómstraði ýmis konar iðnaður. Skipasmíðastöðvar risu á bökkum Paraná og Paraguay. Prentsmiðja var reist, hin fyrsta við Río Plata. "Jesúítar voru síðar hraktir burt og stöðvarnar lögðust af eftir að Spánverjar seldu Portúgölum landsvæði þetta, en indjánarnir hurfu aftur í fang frumskógarins og tóku upp hálfvillta lifnaðarhætti forfeðra sinna. Þrásinnis beiddust þeir af spænskum yfirvöldum að jesúítar yrðu sendir þeim að nýju. En því ákalli var aldrei sinnt. Og enn, eftir tvö hundruð ár, lifir í fjarlægustu afkimum frumskógarins minning um horfna munka sem færðu þeim Paradís á jörð," segir í ferðabók Kjartans Ólafssonar, Sól í fullu suðri. "HVAÐ ERU SPÁNVERJAR AÐ GERA HÉR?" Þó að indjánar sýndu nýlenduherrunum lengi vel mikið langlundargeð, þrátt fyrir yfirgengilegar þrengingar og þrælkun, fór svo að lokum að hatur þeirra og óánægja braust fram í uppreisnum og óeirðum, einkum er á leið 17. öldina. Einn slíkur atburður átti sér stað í Mexíkó árið 1692, en það er don Carlos de Siguenza y Góngoro sem lýsir atvikum: "Þótt ég hefði heyrt af götunni hávaðann, opnaði ég ekki gluggann, enda vanur drykkjulátum indjánanna, sem ávallt þreyttu okkur, fyrr en þjónninn minn kallaði í ofboði: "Herra, það eru óeirðir úti fyrir!" Þá flýtti ég mér að opna gluggann, og þegar ég sá, að ógnarlegur fjöldi manna streymdi inn á torgið, fór ég þangað út. Ég komst út á hornið á Providencia- götu, og þar stóð ég agndofa, og þorði ekki að hætta mér lengra. Þarna var aragrúi af fólki, ekki aðeins indjánar, heldur af öllum kynþáttum, sem hrópaði af miklum ofsa og fyrirgangi, og lét steinum rigna yfir höllina, eins og stormhviðu. Þeir, sem ekki grýttu steinum, en þeir voru ófáir, sveifluðu slám sínum, eins og fánum, og enn aðrir köstuðu fram háðsglósum. Þarna í götunni, þar sem ég var ruddust áfram heilu flokkarnir. Spánverjar, sem þarna voru staddir höfðu brugðið sverðum sínum, en þeir höfðu numið staðar við að sjá það sama og ég, en svertingjarnir, kynblendingarnir og allir þeir, sem heyra til lýðnum, hrópuðu: "Dauða yfir undirkónginn, og alla þá, sem styðja hann!" og indjánarnir hrópuðu: "Dauða yfir Spánverja og alla yfirstétt, sem rænir frá okkur maísnum!" Og þeir hvöttu hver annan til að vera hugdjarfir, því ekki væri uppi annar Cortés, sem gæti undirokað þá, og síðan réðust þeir inn á torgið, þar sem hinir voru, til að grýta steinum. "Heyrið konur," sögðu indjánakonurnar hver við aðra á sínu máli, "förum með gleði í þetta stríð, og þar sem guð vill, að við gerum út af við Spánverjana, skiptir okkur engu, þótt við deyjum án skrifta! Er þetta ekki okkar land? Hvað eru þá Spánverjarnir að gera hér!" En þótt ólgan færi sívaxandi meðal indjána börðu Spánverjar niður með hörku hverja tilraun til uppreisnar, enda brutust þær út í örvæntingaræði, en voru lítt skipulagðar. Eins og fram kemur í lýsingunni hér á undan eru það ekki lengur indjánar einir sem tilheyrðu hinni þrælkuðu undirstétt; til hennar töldust einnig svertingjar, sem höfðu verið fluttir ánauðugir til þeirra svæða í álfunni þar sem indjánum hafði örast verið útrýmt, og svo kynblendingar sem spænska stjórnin flokkaði niður í 24 mismunandi blendinga. Auk hinnar hreinu, spænsku yfirstéttar voru svo kreólarnir: hvítir, innfæddir íbúar álfunnar sem áttu þar sitt föðurland. Þeir voru ekki jafnréttháir Spánverjum og áttu ekki jafngreiðan aðgang að stjórnsýslunni. En seinna meir þegar nýlenduveldið tók að ganga Spánverjum úr greipum urðu kreólarnir leiðandi afl, auk þess sem kynblendingar fóru í auknum mæli að krefjast réttar síns. En frumbyggjarnir sem eftir lifðu - hinir hreinu indjánar, afkomendur azteka og inka - urðu að lúta þeim örlögum að falla í gleymsku og týnast á einöngruðum svæðum, jafnfjarri nútímanum sem fortíðinni þegar álfan tilheyrði þeim einum. Þeirra hlutskipti varð að strita og sakna. Berglind Gunnarsdóttir Heimildir: Burland, Cottie A.: Peru under the Incas, 1967. Cobo, Bernabe: Historia del nuevo mundo. Dagur Sigurðarson: Rógmálmur og grásilfur, 1971. Díaz del Castillo, Bernal: The Discovery and Conquest of Mexico, 1956. Gallagher, D.P.: Modern Latin American Literature, 1973. Historia documental de Mexico l, 1984. Ingibjörg Haraldsdóttir: Ljóð, 1991. Kjartan Ólafsson: Sól í fullu suðri, 1954. Neruda, Pablo: Canto general, 1982. Sigurður Hjartarson: Þættir úr sögu rómönsku Ameríku, 1976. Sigurgeir Einarsson: Inkarnir í Perú og hernám Spánverja þar, 1945. Tímarit Máls og menningar, 4.tbl. 1981. Höfundur er rithöfundur og bókavörður.

VALDSTJÓRN Spánverja miðaði fyrst og fremst að því að auðga hina spænsku krúnu. Öll innlend framleiðsla var flutt frá löndum indjána til Spánar, bæði jarðargróður, gull og silfur.

Hluti af fresku eftir Diego Rivera.