FULLTRÚAR Landsvirkjunar og rússneska verktakans Technopromexport, sem vinnur við lagningu Búrfellslínu, sömdu í gær um breytta tilhögun á launagreiðslum til rússneskra starfsmanna fyrirtækisins. Er ætlunin að Landsvirkjun haldi eftir ákveðnu fjármagni, sem fara átti til verktakans, og greiði rússneskum starfsmönnum launin beint.

Beðið samþykkis frá Moskvu

FULLTRÚAR Landsvirkjunar og rússneska verktakans Technopromexport, sem vinnur við lagningu Búrfellslínu, sömdu í gær um breytta tilhögun á launagreiðslum til rússneskra starfsmanna fyrirtækisins. Er ætlunin að Landsvirkjun haldi eftir ákveðnu fjármagni, sem fara átti til verktakans, og greiði rússneskum starfsmönnum launin beint.

Drög að samningnum voru send höfuðstöðvum Technopromexport í Moskvu í gær og kvaðst Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, búast við viðbrögðum þaðan eftir helgina. Þorsteinn sagði að í kjölfar óskar félagsmálaráðherra og verkalýðsfélaga hér, þess efnis að Landsvirkjun tryggði starfsmönnunum laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum, hefði verið ákveðið að freista þess að ná samningum við Technopromexport um aðra tilhögun á launagreiðslum. Ákvæði útboðsins gerðu ráð fyrir að laun erlendra starfsmanna erlendra verktaka væru eftir íslenskum kjarasamningum. Sátu fulltrúar fyrirtækjanna á alllöngum fundi í gær og náðu saman um drög að samningi nokkru eftir hádegið og voru þau þegar send höfuðstöðvunum í Moskvu.