ÍSLENSK erfðagreining býður til opins borgarafundar í Háskólabíói í dag, laugardaginn 26. september, kl. 14, um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Framsögumenn verða þeir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Hákon Guðbjartsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknideildar og Jóhann Hjartarson, lögfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar.
Opinn fræðslufndur um miðlægan gagnagrunn

ÍSLENSK erfðagreining býður til opins borgarafundar í Háskólabíói í dag, laugardaginn 26. september, kl. 14, um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Framsögumenn verða þeir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Hákon Guðbjartsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknideildar og Jóhann Hjartarson, lögfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar. Ávörp flytja þau Vilborg Traustadóttir, formaður Félags MS-sjúklinga á Íslandi, Einar Már Guðmundsson, rithöfundur og Ólafur Ólafsson, landlæknir. Fundarstjóri verður Einar Stefánsson, prófessor við læknadeild Háskólans. Að loknum erindum munu fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar svara spurningum gesta.

Fundurinn í Háskólabíói er liður í fræðsluátaki Íslenskrar erfðagreiningar um landið í þeim tilgangi að kynna hugmyndina um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Í síðustu viku voru Húsvíkingar og Sauðkrækingar sóttir heim og í þessari viku Vestmannaeyjar, Keflavík og Selfoss. Á laugardaginn kl. 14 er svo komið að höfuðborgarsvæðinu.

Fundurinn hefst kl. 14. Hann er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Næstu fræðslufundir Íslenskrar erfðagreiningar verða sunnudaginn 27. septemnber á Höfn í Hornafirði og sama dag á Egilsstöðum. Síðar verða boðaðir fundir á Akureyri, Ísafirði og í Borgarnesi.