Í ÁLYKTUN um málefni Kísiliðjunnar hf. í Mývatnssveit átelur sveitarstjórn Skútustaðahrepps stjórnvöld fyrir afskiptaleysi af framgangi fyrirtækisins. Ekki hefur verið starfandi forstjóri hjá fyrirtækinu síðastliðið ár heldur hafa tveir starfsmenn séð um daglegan rekstur þess. Annar þeirra er nú hættur störfum.
Sveitarstjórnarmenn um málefni Kísiliðjunnar hf.

Átelja stjórnvöld fyrir afskiptaleysi

Í ÁLYKTUN um málefni Kísiliðjunnar hf. í Mývatnssveit átelur sveitarstjórn Skútustaðahrepps stjórnvöld fyrir afskiptaleysi af framgangi fyrirtækisins. Ekki hefur verið starfandi forstjóri hjá fyrirtækinu síðastliðið ár heldur hafa tveir starfsmenn séð um daglegan rekstur þess. Annar þeirra er nú hættur störfum. Segir enn fremur í ályktuninni að iðnaðarráðherra átti sig ekki á þeim vanda sem blasi við Kísiliðjunni, en er að mati sveitarstjórnarmanna áþekkur vanda þeim er blasti við Landsbankanum í vor þegar ljóst þótti að bankinn gæti ekki án bankastjóra verið, enda hafi ráðherra lagt kapp á að ráða hann hið fyrsta. "Fljótt og vel var brugðist við þegar uppbygging álvers í Hvalfirði varð möguleg. Skjótt og skynsamlega er brugðist við hugmyndum erlendra kvikmyndagerðarmanna. Ekki síður er nauðsynlegt að bregðast við vanda þar sem byggð er í hættu, svo sem í Mývatnssveit og nágrannabyggðum," segir í ályktuninni.

Ráðuneytið hefur lagt áherslu á ráðningu nýs forstjóra

Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra mótmælir því að stjórnvöld hafi sýnt málefnum Kísiliðjunnar afskiptaleysi og segir aðspurður hvers vegna fyrirtækið hafi verið forstjóralaust í eitt ár, að það sé ekki ráðuneytisins að ráða forstjórann, heldur stjórnar Kísiliðjunnar. Hann segir hins vegar að ráðuneyti sitt hafi á síðastliðnu ári gefið skýr fyrirmæli þess efnis að ráðinn yrði forstjóri.

"Stjórn Kísiliðjunnar er vandi á höndum því það eru erlendir meðeigendur okkar sem hafa lagst gegn því að forstjóri verði ráðinn, en stjórnin veit að ráðuneytið hefur lagt þunga áherslu á að það væri gert. Ef Mývetningar eru að deila á stjórnvöld fyrir að fyrirtækið sé forstjóralaust þá er þeim ádeilum beint í ranga átt," segir Finnur. Hann segist ekki vita hvers vegna erlendir meðeigendur leggist gegn því að ráðinn verði nýr forstjóri Kísiliðjunnar, en ætlar hann að krefja þá skýringa? "Fulltrúi minn átti fund með þessum erlendu samstarfsaðilum fyrir fáum dögum þar sem þetta var tekið upp og ég vonast til þess að í kjölfar þess fundar verði auglýst eftir forstjóra."

Hreiðar Karlsson, stjórnarformaður Kísiliðjunnar staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gær, að auglýst yrði um helgina starf forstjóra Kísiliðjunnar.