FORMAÐUR tryggingaráðs, Bolli Héðinsson, sagði á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins í gær að krafa um endurskoðun á skattkerfi og kerfi almannatrygginga ætti eftir að verða háværari og við blasti að endurskoða þurfi þessi kerfi saman.
Formaður tryggingaráðs á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins

Endurskoða þarf

skatta og almannatryggingar samhliða

FORMAÐUR tryggingaráðs, Bolli Héðinsson, sagði á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins í gær að krafa um endurskoðun á skattkerfi og kerfi almannatrygginga ætti eftir að verða háværari og við blasti að endurskoða þurfi þessi kerfi saman. Á ársfundinum fluttu einnig erindi í gær Hans Svensson, aðstoðarmaður tryggingamálaráðherra Svíþjóðar, sem fjallaði um breytingar á sænska velferðarkerfinu og Sigurður Thorlacius tryggingayfirlæknir sem ræddi örorkurannsóknir læknadeildar Tryggingastofnunar.

Í upphafi ræðu sinnar sagði Bolli Héðinsson viðeigandi að endurskoða reglulega hvernig hin ýmsu kerfi ríkisvaldsins næðu að fullnægja þeim þörfum sem þeim er ætlað og hvernig þau vinna saman. Hann sagði að auk tekna hefðu til dæmis skattar og almannatryggingar veruleg áhrif á afkomu fólks. Hann sagði kerfin samtengd og ekki hægt að skoða þau ein og sér heldur yrði að skoða þau saman til að hægt væri að meta áhrif breytinga á öðru kerfinu á hitt kerfið.

Sigurður Thorlacius greindi frá örorkurannsóknum læknadeildar Tryggingastofnunar og sagði þær byggjast á örorkuskrá stofnunarinnar, símakönnun á félagslegum aðstæðum öryrkja á Íslandi og samspili almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga og félagslegrar aðstoðar. Útgjöld ríkisins til almannatrygginga voru um 30 milljarðar á síðasta ári og örorkubætur um 4,5 milljarðar. Örorka var marktækt algengari á höfuðborgarsvæðinu en utan þess árið 1996 og marktækt algengari hjá konum en körlum. Fjöldi nýrra örorkubótaþega var 1.196. Sigurður sagði heilsufarslegar forsendur örorku vera geðræn vandamál og stoðkerfisvandamál.

Morgunblaðið/Kristinn ÁRSFUNDUR Tryggingastofnunar ríkisins var haldinn í gær. Fremst á myndinni má sjá Pál Sigurðsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra og Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor.