Áfyrrihluta 19. aldar og um miðja öldina varð til veruleg byggð á heiðum uppi á norðaustanverðu landinu, nánar tiltekið í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu og í Norður-Múlasýslu.

HVERSVEGNA VARÐ

HEIÐABYGGÐIN TIL?

EFTIR BRAGA MELAX

Um miðja 19. öld reis upp nær meðal kirkjusókn að býla- og fólksfjölda í 500-600 m hæð á Jökuldalsheiði. Þá var í fyrsta sinn í Íslandssögunni reynt að lifa af landbúnaði í meira en 600 m hæð yfir sjó. Þar var hægt að lifa af annarskonar búskap en niðri á láglendinu. Fyrst og fremst var það silungsveiðin, en einnig fuglaveiðar og síðast en ekki síst hreindýraveiði sem var þó nokkuð á huldu eftir að hreindýrum fór að fækka.



Áfyrrihluta 19. aldar og um miðja öldina varð til veruleg byggð á heiðum uppi á norðaustanverðu landinu, nánar tiltekið í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu og í Norður-Múlasýslu.

Margs konar fróðleik má finna varðandi þessa byggð, geymdan í sagnfræðiritum, ævisögum og bókum með þjóðlegum fróðleik, auk þess að vera í mismunandi formi í hugum nútímamanna. Skáldsagan er líka góð í söguskoðun, þótt ekki sé hún heimild. Í þessu tilfelli man ég eftir fimm rithöfundum sem koma að gagni. Þar er og að finna á stöku stað ótrúlegt innsæi, og því komið til skila með réttum orðum.

Árum saman hefur þetta fyrirbrigði í íslenskri sögu öðru hverju leitað á hugann. Hefi ekki fengið dæmið til að ganga upp með þeim formúlum sem almennt eru notaðar. Eitthvað finnst mér vanta inn í þær niðurstöður sem menn hafa fengið. Satt að segja vel hugsanlegt, að aðalástæðurnar fyrir þessu sérstæða landnámi séu 2-3 þættir sem fæstir hafa nefnt eða hugleitt.

Þetta greinarkorn er útdráttur úr lengri samantekt, tilvitnanir sparaðar og vangaveltur út frá þeim.

Í flestum ritum um þessa heiðabyggð er fjallað um aðra þætti fremur en þennan tiltekna, "hvers vegna hún varð til", og því er vandfarið með þær málsgreinar, t.d. sagnfræðinga, sem snerta nákvæmlega þetta atriði. Hvað lét höfundur ósagt?

Staðreynd

Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld sem það var framkvæmt að fara upp í 610 metra hæð yfir sjávarmál á Íslandi til að stunda landbúnað.

Þetta "framtaksleysi" fyrritíma manna í nýtingu fjallatoppanna ætti ekki að vekja undrun. Það er þess vegna merkilegt, að um miðja 19. öldina reis upp nær meðal "kirkjusókn", að býlafjölda og tölu fólks, í 500-610 metra hæð y.s., og er þar átt við Jökuldalsheiðina.

Ég held því ekki fram að um fáránlegt fyrirbrigði hafi verið að ræða, heldur það, að þessir landnemar og þeirra samtíðarmenn hafi haft forsendur sem við höfum lítt hugleitt, og þeir sjálfir ekki haldið mjög á lofti.

Hugmyndir

Í grófum dráttum má segja að flestir virðast telja að eftirtaldir 4 þættir séu ástæðan fyrir heiðabyggðinni:

1. Mikil fólksfjölgun í landinu.

2. Meira land ekki á lausu í sveitunum.

3. Hagstætt tíðarfar á þessum áratugum.

4. Ekkert þéttbýli við sjóinn sem gat tekið við fólkinu.

Af þessum 4 þáttum hafna ég þrem. Þeir þættir eru 1., 3. og 4.

Þáttur 2, eða 2. fullyrðing öllu heldur, er að einhverju leyti huglæg og ólíkar niðurstöður í raun jafn réttar. Þessir fjórir þættir skulu nú aðeins skoðaðir:

1. Mikil fólksfjölgun

Árið 1831 voru íbúar landsins um 52.000. Sókn í heiðarnar hófst nokkru fyrr. Byggð í Jökuldalsheiðinni byrjaði 10 árum síðar, 1841. Íbúafjöldinn er 1850 um 59.000, þar af á tólfta hundrað í Reykjavík. Þegar hér er komið sögu eru aðeins 10-15 ár eftir af þessu tímabili fjöldahreyfingar, ef svo má að orði komast, talið frá Austaraselsheiði til Eiríksstaðahnefla. Sannleikur um eitthvað í fortíðinni er sennilega vandfundinn. Tvennt held ég að nauðsynlegt sé að hafa meðferðis þegar við nútíma menn skyggnumst til baka. Virðingu fyrir menningu tímabilsins, líta á það sem við finnum án fordóma. Það verður þá lítið meir en eitt leyfilegt ef við mættum 17. aldar manni á förnum vegi. "Hvers vegna gerir þú þetta svona en ekki hinsegin?" Við erum með tvær staðreyndir varðandi Norðausturland á fyrrihluta 19. aldar. 1. Í prósentum margföld fólksfjölgun miðað við t.d. þessi þrjú lífvænlegu héruð: Árnessýslu, Ísafjarðarsýslu og Húnaþing. 2. Við vitum hvar nýbýli voru reist. Sú vitneskja krefst svara við öðru. Hvers vegna fylgir nýbýlastofnun á fjórum svæðum í þessum landshluta líku mynstri eftir áratugum, og að lokum í uppgjöf. (Nánar síðar).

Þegar farið er aftur í aldir er sumt ljóst, annað líklegt og enn annað á huldu, af því sem bera þarf saman þegar þetta mál er metið. Íslendingar voru rúmlega 50.000 árið 1703. Af þessari íbúatölu má ráða, telja sagnfræðingar, að íbúar landsins hafi verið nokkrum þúsundum fleiri nokkru áður, þ.e. fyrir harðindin í lok 17. aldar. Með öðrum orðum, litlu færri en um miðja 19. öld. Þá vaknar 1. spurningin úr fortíðinni. Af hverju byggðust þessar heiðar ekki á 17. öld?

Síðustu áratugi hafa sumir sagnfræðingar áætlað íbúatölu landsins lægri á miðöldum heldur en flestir eldri fræðimenn íslenskir gerðu. Stafar þetta af bakslagi vegna rómantískra hugmynda 19. aldar manna, erlendra sem íslenskra um íbúa Íslands á síðmiðöldum? Ég kýs u.þ.b. neðri mörk þeirra síðarnefndu. Segja má að ástæðan sé nokkurn veginn þessi: Sú stjórnskipun sem landnemar settu hér upp um 930, eftir fólksflutninga til landsins um aðeins 60 ára skeið, hefði aldrei orðið til þetta fljótt ef straumurinn hefði ekki verið verulegur á þeirra tíma mælikvarða, og dreifing um byggileg landsvæði. Íbúar því að lágmarki 20- 25.000 um 930.

Fimmta til sjöunda kynslóð innfæddra hefur verið uppi í lok 11. aldar. Hugsanlegt er að þá þegar, í síðasta lagi á síðari hluta 12. aldar hafi íbúafjöldinn verið í hámarki og náð yfir 80.000. Þeirri tölu síðan ekki náð fyrr en á 1. tug 20. aldar. Íbúar Íslands hafa þá verið ca. 30% af íbúafjölda Noregs og 20-25% af íbúafjölda Skotlands.

Það er verið að leita að heiðabyggð, og skemmst frá sagt þá finnst hún ekki, allt frá 10.- 19. aldar. Hliðstæðu þess sem varð á Norð-Austurlandi á 19. öld er hvergi að finna í Íslandssögunni. Rétt er að nefna hér tvennt þessu til staðfestingar: Nefndar eru fornar mannvistarleifar langt fram til heiða. Hraunþúfuklaustur, 20 km norður af Hofsjökli, rústir býlis fram af Bárðardal, suður af Sellandafjalli, við Hvítárvatn og víðar. Samkvæmt geislakolamælingum virðast þessar leifar mannvista flestar frá 10. öld. Landnemarnir hafa sennilega verið fljótir að sjá snjólínuna. Þessi fornu býli, ef það hugtak er þá rétt, voru í 410-460 m hæð. Þau hafa hinsvegar öll verið neðan efstu skógarmarka á sinni tíð. (Átt er við mörk kjarrgróðurs). Landnemarnir og næstu 5-10 kynslóðir þeirra virðast hafa verið víðsýnni og hugmyndaríkari en afkomendur þeirra á síðari öldum, því er eins líklegt að þeir hafi séð sér hag í því að eiga myndarlegustu skýli í efstu grösum þótt um heilsárs notkun væri ekki að ræða.

Í öðru lagi byggð á Hólsfjöllum og á Efrafjalli (Möðrudal). Þessi háslétta er allsérstök, í mikilli fjarlægð frá sjó og fjallgarðar margir sem taka við úrkomunni. Meginlandsloftslagið gaf vetrarbeit á sléttunni bakvið fjallgarðana. Á fyrstu öld byggðar í landinu hafa menn komið auga á þessi lögmál. Tvennt er nokkuð merkilegt. Löngu fyrir tíð byggðarinnar á Jökuldalsheiði var sannarlega lítilsháttar byggð á Möðrudals-Arnardalssvæðinu, þegar engin örugg dæmi er um slíkt á hinu fyrrnefnda svæði, nema á Netseli við Ánavatn, nokkur ár á 18. öld. Hitt er það, að Brúarmenn á Jökuldal létu landsetum sínum í heiðinni þau ítök í té, sem var hagaganga í Arnardal um vetur fyrir 4 hross frá býli. Fram og til baka var þetta að jafnaði tveggja daga ferð til að huga að hrossunum þegar líða tók á veturinn, og kofi í dalnum til að gista í. Með öðrum orðum, hugmyndir á 19. öld voru m.a. framkvæmdar með forsendum manna á fyrri öldum.

2. Meira land ekki á lausu

Sú skoðun er áberandi að landið hafi ekki getað borið fleira fólk síðustu aldirnar heldur en þá tölu sem var hér hverju sinni. Því er síðan gjarnan bætt við "með þeim atvinnuháttum sem hér voru ráðandi".

Ég get ekki betur séð en að hér sé tveim ólíkum meginþáttum hrært saman. Auðæfi einhvers lands er eitt, athafnir íbúa landsins annað. Öldum saman sóttu margar Vestur- Evrópuþjóðir árlega hluta af sínu viðurværi til Íslands. Engar ytri aðstæður hindruðu Íslendinga í því að nota sama kost. Það voru innri aðstæður, menningin sem hér þróaðist, lítt breytt um aldir, sem réði mannfjöldanum og hvernig nýta skyldi landið.

Hvernig varð þá þessi menning til? Það kann að vera vafasamt fyrir leikmann að fara út í þá skilgreiningu. Hver á þó rétt á skoðunum sínum, og skal því reynt.

Svo virðist að frumkvöðlar að landnámi hafi staðið á háu menningarstigi. Um gerðir þess fólks sem þeir tóku með til halds og trausts er minna vitað. Þróunin varð hér lengi vel ekki ólík og í nágrannalöndum, aðalsmenn og almúgi.

Til þess að gera fljótlega (á 13. og 14. öld og meir áberandi síðar) finnst mér að hérlendis hafi orðið talsvert afdrifaríkt frávik. Nokkuð stór hópur bænda bjó við nokkuð góð efni og öryggi, varla minna en 10% heimila í landinu. Víðast um Vestur- og Norður-Evrópu voru hlutskipti bændafólks hin ömurlegustu allt til loka 18. aldar eða lengur. Þetta er hér nefnt vegna þess, að þessi hópur, hversu stór sem hann annars var, átti stóran þátt í að viðhalda kyrrstöðunni. Var óaðvitandi nokkurs konar varðsveit stóreignamanna og ríkra embættismanna. Sáu sjálfa sig þrepi ofar fátæklingunum. Draumur þessa hóps hefur verið skýr, hann var hinum megin við garðinn, meðal jafningja og höfðingja, eðlilegast af þeim að taka þátt í því að halda litlamanninum niðri. Íslendingar hugsuðu ekki í hóp þá frekar en í dag.

Var þetta eðlilegt þjóðfélag? má spyrja. Mitt svar er já. Ósköp eðlileg þróun, og skynsamleg frá sjónarmiði þeirra sem stjórnuðu því. Ástæðan er eftirfarandi: Ég held að frumástæða flestra stórbreytinga sé ótti. Vaxandi borgir þurfa aðfluttan mat og möguleika á að greiða hann. Goðar á þjóðveldisöld báru nokkurn ugg í brjósti, litu til með sínum skjólstæðingum. Úr ótta dró hjá íslenska aðlinum þegar á 14. öld. Konungar voru alltaf víðsfjærri, réðu raunar harla litlu, það voru íslenskir höfðingjar sem oftast höfðu síðasta orðið.

Höfuðbólin voru hér og þar um landið og strandhögg erlendra sjófarenda fátíð. Það voru engar stór ástæður til að halda utan um landslýðinn eða jafnvel fjölga á þeim bæ. Þeir sem sátu höfuðbólin eða stórjarðir bjuggu við öryggi, þurftu ekki á neinum breytingum að halda. Það mun einnig hafa verið sjónarmið góðbændanna sem áður er nefndir.

Háskólamenntun vaxandi fjölda Íslendinga á 17. og 18. öld, breytti litlu í menningunni, þegar á heildina er litið. Efnamenn tóku feginshendi við nýrri tísku í klæðnaði og borðvínum. Einhver þíða var þó skammt undan þegar hér er komið sögu.

Bylting varð í íslensku þjófélagi á síðustu tveim áratugum 19. aldar. Um þær miklu og merku breytingar sem þá urðu, sýnilegar eða ráðgerðar, er oftast rætt um eins og eitthvert náttúrulögmál. Þetta bara kom! Ég efast um að málið sé svona einfalt. Þarna kemur áður nefndi ótti til skjalanna. (Auk metnaðar vegna þekkingar sem kom með gjörbreyttri samgöngutækni í flestum heimshlutum). Í raun í fyrsta sinn síðan á miðöldum. Undanfarin ár höfðu þúsundir streymt til Ameríku. "Þetta var í lagi fyrst í stað", en síðan greip um sig ótti meðal ráðamanna og annarra. Allt í einu voru möguleikar alls staðar. Enn skellur yfir þessi ótti, síðast um og úr 1990. Ef trúa má gangi sögunnar getur þjóðin verið róleg fram yfir 2020.

Sumum finnst sennilega hlutirnir einfaldaðir nokkuð mikið, en þá má aftur spyrja, "hvar eru afreksverkin frá 1380-1880, þegar Guðbrandsbiblía er undanskilin?

Svarið við nr. 2 er því þetta: Ráðamenn höfðu engan hag af því að finna nýbýli stað, þar með var land ekki á lausu! Glæsileiki þjóðveldisaldar var löngu horfinn en genin stjórnuðu draumunum, ráðamenn héldu eðlilega í sinn Lút og Leggjanda, sem

"lögðu garða,

akra töddu,

unnu svínum,

geita gættu,

grófu torf."

Eins og segir í Rígsþulu nr. 12.

3. Hagstætt tíðarfar á þessum áratugum

Þessa fullyrðingu má finna á stöku stað, en réttmæt er hún varla, fremur hitt, að árferði hafi ekki verið nema í meðallagi gott fyrstu 6 áratugina. Ísaár voru nokkuð mörg en inn á milli að vísu oft nokkur ár í röð sem voru hagstæð. Mörg ár til 1822 voru landbúnaðarsamfélagi erfið og ekki síður seinni hluti 6. áratugarins, einkum þau 3 síðustu, 1858-60. Merkilegt er það, að þau harðindi drógu lítið úr sókn í heiðarnar.

Þá er það einnig sérkennilegt, að svo til samtímis, úr 1861, sjást þess merki á þremur svæðum, upp af Þistilfirði, Vopnafirði og á Jökuldalsheiði, að þessi byggðaútþensla hefur náð sínu hámarki, og að einhverju marki komin í þrot. Rétt er að hafa það í huga, að þessi breyting varð meir en áratug áður en Ameríkuferðir hófust að marki, og væntanlega allmörgum árum áður en nokkur þar um slóðir hugleiddi slíkan umsnúning. Harðindi ollu þessu ekki, breytingin varð frekar milli slíkra tímabila. Ég fæ ekki alveg séð hvers vegna, ef þessi byggð var á annað borð reist á þeim forsendum sem menn hafa almennt talið, en um það efast ég mjög, og er það ástæðan fyrir þessum skrifum.

4. Ekkert þéttbýli við sjóinn

Um þessa síðustu fullyrðingu er margt hægt að segja. Svarið verður þó efnislega líkt því sem kom fram hér ofar við nr. 2.

Fremur sérkennilegt er það, að ekki skyldu verða hér til vísar að smáborgum, eða stöku þéttbýli við sjó, þegar á 14. öld. Ástæðan fyrir þeirri skoðun er eftirfarandi: Það er margt sem bendir til þess, að mikill kraftur og þor hafi verið í mörgum fyrirmönnum landsins á 14. öld. Efni höfðu þeir margir hverjir til stærri framkvæmda. Ört vaxandi markað í Evrópu fyrir skreið hafa þeir þekkt, og einnig tilhneigingu landsmanna sjálfra til að lifa meir á fiskveiðum en áður var. Öldin leið án þess að þjóðinni heppnaðist að skapa eigið framkvæmdavald, og einhverja eigin alhliða hagsmunagæslu með löggjafarvaldinu. Möguleikar á því urðu eðlilega fjarlægari því lengra sem leið frá sjálfræði heildarinnar. Þörfin á landsföður ekki eins sýnileg eins og kostirnir við hið villimannalega sjálfstæði sem allt til dagsins í dag einkennir þjóðina. Helstu ráðamenn landsins á 15. öld hafa því sennilega hitt á skástu inngönguleið inn í kyrrstöðuna með sérkröfum sínum í hinum fræga Píningsdómi 1490, þ.e. bann við vetursetu útlendinga nema í neyð, útgerð þeirra frá landinu og o.fl. Bændahöfðingjarnir kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuaflið. Harðir kostir, en væntanlega eina leiðin til að bjarga völdum og auði íslensku "aðalsmannanna" til frambúðar. Kostirnir voru tveir: Að verja óbreytt samfélag, í öðru lagi samkeppni við Englendinga og aðrar þjóðir í fiskihöfnunum. Þeir völdu hægari leiðina, veröld sem þeir þekktu. Skynsamlegt og mannlegt frá sjónarhóli þeirra sem völdin höfðu, en enginn sósíalismi.

Yfir landsmenn færðist stóisk ró. Sjómennirnir dunduðu af heiðarleika, við sína árabáta og þau afkastaminnstu veiðarfæri sem þeir gátu fundið, og skreiðarlestirnar skiluðu sér fram til dalanna. Jafnvel búðsetufólk fékk þegar tímar liðu, að vera í friði og ró í hundraða tali á vestanverðu landinu þar sem útræði var hagstætt.

Um aldamótin 1700 eiga 13 ríkustu landeigendurnir 9,6% af fasteignum í landinu. Eign 68 annarra stórlandeigenda var 16,2%. Tæplega 1% fjölskyldna virðist því hafa átt 25,8% af fasteignum í landinu.

Smærri landeigendur voru býsna margir, 1224. Eign margra heldur smá samkvæmt Jarðabók ÁM og PV. Mín skoðun er sú, að meðal þeirra og einnig ýmissa leigjenda líka, hafi verið allstór hópur sem bjó við bærilegan efnahag, og áhrif þessa hóps á samfélagið hafi verið vanmetin. Þessi hópur, 10% heimila, stærri eða minni, hafi í raun verið forsenda kyrrstöðunnar. Það er hægt að halda "litlu mönnunum" í skefjum með því að ala vonina í hluta hópsins. Hér var um skýra sýn að ræða, nokkur heimili (bændastétt) í nær hverjum hrepp landsins, sem bjuggu vel á evrópska vísu síns tíma og, eins og áður er ýjað að, gerðu e.t.v. kyrrstöðuna mögulega.

Hvers vegna byggðust heiðarnar?

Hér verður því slegið fram, að eitt afmarkað fyrirbrigði hafi að mestu leyti valdið heiðabyggðinni. Í öðru lagi hafi nýir menningarstraumar gert þetta landnám mögulegt.

1. Höfuðástæðan var sú, að á fyrstu 20-30 árum 19. aldar voru hreindýr í þúsundavís um afréttalönd þriggja sýslna á norðaustanverðu landinu.

2. Á síðari hluta 18. aldar og enn frekar á fyrri hluta þeirrar 19., bárust til landsins nýjar hugmyndir og nýjar staðreyndir, sem ollu lítils háttar þíðu á því hjarnhugarfari sem æðilengi hafði hér ríkt. Þetta leiddi til þess, að hinn þröngi stakkur hugarfarsins víkkaði örlítið. Það var í lagi að fara að eins og melrakkinn, huga að því hvað hin villta náttúra bauð upp á. Þegar menn leyfðu sér slíka "niðurlægingu", þurfti ekki að leita að þeirri staðreynd, að þessi svæði voru um margt auðug, silungsvötn, mikið fuglalíf og það sem meira var, þau undur, að hópar stórra veiðidýra reikuðu víða um þessar heiðar.

Stofnstærð hreindýra á 19. öld

Í Íslenzkum þjóðháttum eftir sr. Jónas Jónasson má lesa eftirfarandi: "Hreindýrin voru flutt hingað um 1770, og eru því engar sagnir eða venjur, sem myndazt hafa um þau, svo að mér sé kunnugt." Þetta átti eftir að breytast að hluta eftir hans dag. Talsvert hefur verið skrifað um íslensku hreindýrin síðustu 50-70 árin. Gott og þarft verk unnu tveir rithöfundar, Helgi Valtýsson (H.V.) og Ólafur Þorvaldsson (Ó.Þ.) með bókum sínum um hreindýrin. Þeir voru ungir menn um síðustu aldamót, að upplagi náttúrubörn og fræðimenn, fæddir og uppaldir nærri slóðum hreindýra austanlands og vestan. Þess vegna líklegir til að bera sig rétt að við söfnun heimilda frá fyrri tíð. Svo vill til að þriðji rithöfundurinn, Jóhannes Friðlaugsson (J.F.), svo til jafnaldri hinna tveggja, fæddur og uppalinn í þriðja landshlutanum þar sem hreindýr voru, fann þörf hjá sér til að rannsaka samskipti manna og þessara dýra. Hér er ekki um bók að ræða, heldur alllanga ritgerð sem tekin var saman um 1930. Koma þar fram afar merkilegar heimildir.

Á síðustu árum hefur mikill fróðleikur um hreindýrin birst á prenti. Að verulegum hluta eru þetta niðurstöður rannsókna sem gerðar voru um 1980, sem Náttúrufræðistofnun gaf síðan út í þremur ritum. Höfundar efnis eru nokkrir m.a. Kristbjörn Egilsson (K.E.) og Skarphéðinn Þórisson (S.Þ.).

Þeir höfundar sem áætlað hafa fjölda hreindýra á 19. öld virðast eiga eitt sameiginlegt, að hafa lagt heldur litla vinnu í þá skoðun. Í flestum tilfellum er þetta miður, vegna þess, að ef hreindýrin skiptu verulegu máli fyrir einhverja, þá fæst tæplega líkleg mynd af þeirri sögu nema hægt sé að nálgast líklega stofnstærð, og á hvað tímabili þessi stofn hafi að öllum líkindum verið í hámarki.

Flest allir telja að hreindýrin hafi verið flest um og upp úr 1850. Það er aðeins J.F. sem sennilega hefur haft aðrar hugmyndir um þetta.

Mínar hugmyndir hafa lengi verið mjög á annan veg og eru þessar: Hreindýrastofninn náði hámarki á öðrum tug aldarinnar. Í fyrsta lagi ca. 1812-14 og í síðasta lagi 1820-21. Stofninn hafi þá talið ca. 5000-6000 (hærri talan líklegri) dýr í Þingeyjarsýslum og á Austurlandi. Um 1830 hafi fullur helmingur þessa fjölda verið horfinn, og um 1850, þegar þau hafa verið talin flest, varla fleiri en 25% af hámarksstofnstærð, eða kringum hálft annað þúsund, + eða ÷ 2-3 hundruð.

Ekki er ólíklegt að þegar um 1860 hafi stofninn á öllu þessu stóra landssvæði verið kominn niður fyrir 1000 dýr, þar af á heiðum beggja Þingeyjarsýslna varla mikið yfir 100-150 dýr.

Sennilega finnst flestum sem eitthvað til þessa máls þekkja, þessar niðurstöður fremur tortryggilegar, og frekar í þá átt, að jafnvel útiloka einhver tengsl milli áhuga fólks á búsetu í heiðunum og göngu hreindýra þar. Ef þessar tilgátur um fjölda hreindýra eru réttar eða fara nærri hinu sanna, er það augljóst, að mest kveður ekki að býlastofnun á heiðunum á þeim áratugum þegar nytjar af þessum veiðidýrum gátu verið mestar. Að mínum dómi segir slíkt í raun ekki mikið. Breytingar á "mælieiningum" gömlu bændasamfélaganna þurftu jafnan langan aðdraganda, hér sem annars staðar.

Hvar eru rökin?

Óyggjandi eru þau hvergi, en líkur sterkar. Gamlar efasemdir fengu aftur byrinn hjá mér fyrir eitthvað 25 árum. Skoðaði þá nokkra pakka með handritum af Sýslu- og sóknarlýsingum Hins íslenska bókmenntafélags frá árunum um og eftir 1840. Þetta var geymt í Handritadeild Landsbókasafns og vel aðgengilegt öllum þeim sem þekktu spurningarnar til presta eða sýslumanna og voru að leita að afmörkuðu efni. Vonum seinna hefur nú meiri hluta þessa mikla og skemmtilega fróðleiks verið komið á prent.

Ástæða þessarar skoðunar, ef ég man rétt, var grein í lögum frá 20. júní 1849 (Tilskipun um veiði á Íslandi) þannig orðuð: "Hreina er leyft að elta og veiða hvar sem er." Önnur spurning var að skoða svar sóknarpresta við 33. spurningu þeirra Kaupmannahafnar-manna, "Hvör er þar veiði til lands og sjávar (selveiði, alls konar fiskiveiði, fuglveiði, hreindýraveiði, refadráp)---.

Prestar í þessum umrædda landshluta brugðust margir fljótt og vel við, margar sóknarlýsingar skrifaðar strax 1839 og aðrar 1840. Þessi staðreynd gerir ýmsar athuganir auðveldari.

Gildi heimildanna er við fyrstu sýn ekki svo ljóst. Erum við að fræðast meira um sálarástand prestsins en hagi sóknarbarna hans. Hvar hefur gamalgróin menning auk tíðaranda haft áhrif á framsetninguna, hvaða þættir þaðan eru þeim flestum sameiginlegir. Frá ýmsum sóknum Vestfjarða höfum við þær heimildir "að þangað komi aldrei hreindýr" eða annað í þá átt, þegar ýmsir kollegar þeirra austanlands nefna ekki þessi dýr, eða aðeins í neikvæðri merkingu, "eyði fjallagrösunum".

Framhald í næstu Lesbók.

Höfundur er á eftirlaunum og býr í Kópavogi.





TÓFTIR Heiðarsels á Jökuldalsheiði. Þarna er land í 540 m hæð yfir sjó. bærinn byggðist 1859 og var í byggð lengur en flest önnur býli á heiðinni.

Ljósm. greinarhöf.





TÓFTARBROT í Heiðarseli á efri myndinni og haglendið í kring sem sýnir að þar er grösugra en víðast hvar annarsstaðar í 5-600 m hæð. Að neðan: Séð yfir Ánavatn á svölum sumardegi, hitinn 5 stig á miðjum degi í síðustu viku júlímánaðar.





SÆNAUTASEL stendur skammt frá þjóðveginum og hefur bærinn verið gerður fallega upp. Gaflinn næst á myndinni er hlaðinn úr klömbruhnaus.



(kort)

JÖKULDALSHEIÐIN, svæðið sem byggðist á 19. öld í skamman tíma en hafði verið óbyggt á fyrri öldum Íslandssögunnar.











--------------------------------------