Ísafirði. Morgunblaðið. ÁRLEGUR aðalfundur Sýslumannafélags Íslands var haldinn á Ísafirði á fimmtudag og föstudag. Til fundarins mættu 25 af 27 sýslumönnum landsins auk setts lögreglustjóra í Reykjavík, ríkissaksóknara, saksóknara ríkislögreglustjóra og fleiri gesta. Þá sótti fundinn einn heiðursfélagi Sýslumannafélagsins, Jón Ísberg, fyrrverandi sýslumaður á Blönduósi.
Sýslumenn landsins funda á Ísafirði

Fundurinn endaði með brúðkaupi

Ísafirði. Morgunblaðið.

ÁRLEGUR aðalfundur Sýslumannafélags Íslands var haldinn á Ísafirði á fimmtudag og föstudag. Til fundarins mættu 25 af 27 sýslumönnum landsins auk setts lögreglustjóra í Reykjavík, ríkissaksóknara, saksóknara ríkislögreglustjóra og fleiri gesta. Þá sótti fundinn einn heiðursfélagi Sýslumannafélagsins, Jón Ísberg, fyrrverandi sýslumaður á Blönduósi.

Áður en aðalfundurinn hófst var haldinn svonefndur Sýslumannafundur, en slíkir fundir eru haldnir nokkrum sinnum á ári. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa, ræddu fundarmenn m.a. um framtíðarstefnu lögreglunnar, saksókn, bílamál og fjármál sýslumannsembættanna svo fátt eitt sé talið. Að aðalfundinum loknum fóru fundarmenn og makar í skoðunarferð um Ísafjörð og nágrenni og snæddu síðan saman hátíðarkvöldverð á Hótel Ísafirði.

Einn fundarmanna, Björn Rögnvaldsson sýslumaður á Ólafsfirði, ákvað að ganga í hjúskap og gekk hann að eiga sambýliskonu sína, Auði Helenu Hinriksdóttur, í Turnhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði. Það var sýslumaðurinn á Ísafirði, Ólafur Helgi Kjartansson, sem gaf þau saman að viðstöddum flestum sýslumönnunum sem sóttu aðalfundinn og mökum þeirra. Svaramenn brúðhjónanna voru tveir sýslumenn, þeir Björn Jósef Arnviðarson á Akureyri og Ríkharður Másson á Sauðárkróki.

Að athöfninni lokinni sungu tvær ísfirskar stúlkur, þær Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Herdís Jónasdóttir, tvö lög fyrir brúðhjónin og síðan var skálað í kampavíni.

Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson SÝSLUMENN landsins og aðrir fundargestir á aðalfundi Sýslumannafélags Íslands sem haldinn var á Ísafirði á fimmtudag og föstudag.

BRÚÐHJÓNIN Björn Rögnvaldsson og Auður Helena Hinriksdóttir ásamt dótturinni, Hafdísi Huld, svaramönnum og sýslumanninum á Ísafirði fyrir framan Turnhúsið á Ísafirði.