NÝI vegurinn yfir Fljótsheiði í S- Þingeyjarsýslu verður opnaður fyrir umferð um hádegisbil í dag, laugardag, en þá er stefnt að því að lokið verði við að leggja klæðingu á veginn. Halldór Blöndal, samgönguráðherra, sagði nýja veginn mikla samgöngubót, "og nú hillir undir að komið verði bundið slitlag til Mývatnssveitar og á næstu 5­6 árum til Egilsstaða," sagði Halldór.
Nýi vegurinn yfir Fljótsheiði opnaður fyrir umferð í dag Mikil samgöngubót

NÝI vegurinn yfir Fljótsheiði í S- Þingeyjarsýslu verður opnaður fyrir umferð um hádegisbil í dag, laugardag, en þá er stefnt að því að lokið verði við að leggja klæðingu á veginn. Halldór Blöndal, samgönguráðherra, sagði nýja veginn mikla samgöngubót, "og nú hillir undir að komið verði bundið slitlag til Mývatnssveitar og á næstu 5­6 árum til Egilsstaða," sagði Halldór.

Halldór fór um nýja veginn sl. miðvikudag og sagði hann mjög fallegan. "Ég gat ekki stillt mig um að hringja þá á Veðurstofuna og efir það samtal var ég ekki bjartsýnn á að veður gæfi. En til allrar hamingju hefur verið hægt að vinna við slitlagið og það er mjög mikilvægt að þessum áfanga skuli nú að ljúka."

Vegurinn yfir Fljótsheiði er um 10 km langur og liggur 33 metrum lægra yfir sjó en gamli vegurinn, að sögn Sigurðar Oddssonar, deildarstjóra framkvæmda hjá Vegagerðinni á Norðurlandi eystra. Mesti halli er um 6­7% en mesti halli á gamla veginum er allt upp í 14%. Sigurður sagði nýja veginn vel uppbyggðan og hann ætti því að vera snjóléttur en ákveðið hefur verið að moka Fljótsheiðina fjórum sinnum í viku í vetur. Þá er meiningin að setja strax upp stikur við veginn í öryggisskyni fyrir vegfarendur.

Snyrting og frágangur eftir

Háfell hf. var aðalverktaki verksins en undirverktakar voru Alverk, Fínverk ehf., Arnarfell hf. og Slitlag ehf. Heildarefnismagn í veginn var um 430 þúsund rúmmetrar. Samningur Háfells og Vegagerðarinnar var undirritaður 11. júní árið 1996. Tilboð Háfells hljóðaði upp á 133 milljónir króna, sem var um 71% af kostnaðaráætlun. Framkvæmdin á Fljótsheiði er stærsta verk á vegum Vegagerðarinnar á Norðurlandi til þessa fyrir utan Ólafsfjarðargöngin.

Framkvæmdin er nokkuð á eftir upphaflegri áætlun, m.a. vegna magnaukningar á efni, erfiðs tíðarfars og fleira. Eftir verður öll snyrting og frágangur við veginn en að sögn Sigurðar verður þeim þætti lokið næsta sumar.



Morgunblaðið/Kristján BUNDIÐ slitlag verður komið á nýja veginn yfir Fljótsheiði í dag og um leið verður umferð hleypt á veginn. Þeir voru því að vonum ánægðir með lífið í góða veðrinu á heiðinni í gær, Rúnar Jónsson, eftirlitsmaður Vegagerðarinnar t.v., Gestur Pálsson, einn eigenda Slitlags ehf., og Sigurður Oddsson, deildarstjóri framkvæmda hjá Vegagerðinni. Sigurður sagði opnun vegarins gríðarlega stóra stund.