Íslenska landsliðið í handknattleik leikur síðari leik sinn í undankeppni EM gegn Finnum í Helsinki í dag og hefst viðureign liðanna kl. 15:30 að íslenskum tíma. Ísland vann heimaleikinn með átta marka mun og ætti því að eiga auðveldan leik fyrir höndum. Geir Sveinsson, fyrirliði, vildi þó vara við of mikilli bjartsýni og segir að Íslendingar hafi ekki efni á að vanmeta neinn andstæðing.
HANDKNATTLEIKUR / LANDSLIÐIÐ Í FINNLANDI

Sigur það eina sem gildir

Íslenska landsliðið í handknattleik leikur síðari leik sinn í undankeppni EM gegn Finnum í Helsinki í dag og hefst viðureign liðanna kl. 15:30 að íslenskum tíma. Ísland vann heimaleikinn með átta marka mun og ætti því að eiga auðveldan leik fyrir höndum. Geir Sveinsson, fyrirliði, vildi þó vara við of mikilli bjartsýni og segir að Íslendingar hafi ekki efni á að vanmeta neinn andstæðing.

Geir hóf landsliðsferilinn í Finnlandi 1984 og minnist þess. "Ég sat á bekknum tvo fyrstu leikina í Norðurlandamótinu, en fékk að spila úrslitaleikinn við Dani. Við töpuðum þeim leik og ég fékk ærlega rassskellingu í leikslok eins og venja er með nýliða landsliðsins. Þorbjörn Jensson, sem lék með landsliðinu þá, gekk harðast fram í því að framkvæma verknaðinn."

Fyrirliðinn leikur í dag 331. landsleik sinn. "Þetta hefur ekki breyst mikið frá því ég hóf ferilinn - það er alltaf sama markmiðið, að leggja sig fram og sigra. Það gefur mér alltaf jafnmikið að spila fyrir Ísland."

Um leikinn í dag sagði Geir. "Við förum í þennan leik til að sigra og þurfum því að mæta einbeittir til leiks. Þó svo að við sigruðum með átta marka mun heima. Við höfum oft brennt okkur á því að fara sigurvissir í leik, eins og þegar við unnum Grikki heima með tíu marka mun en náðum aðeins jöfnu úti. Eins gerðum við jafntefli við Finna í undankeppni EM 1994 hér í Helsinki. Þetta eru víti til að varast. Það er mikilvægt að spila vel, því leikirnir á móti Sviss og Ungverjalandi verða mun erfiðari."

Eru leikmenn komnir í nægilega góða leikæfingu?

"Hún gæti líklega verið betri, en það er engin afsökun. Við erum búnir að vera saman meira og minna síðan 1995 og ættum því að vera farnir að þekkja hver annan. Ef við ætlum okkur á HM í Egyptalandi þá verðum við að gefa okkur í verkefnið af fullum krafti. Ungverjar burstuðu Sviss og sendu okkur með því ákveðin skilaboð. Þetta verkefni er í okkar höndum og við viljum komast hjá því að treysta á úrslit í öðrum leikjum í riðlinum. Þess vegna er sigur það eina sem gildir," sagði Geir Sveinsson.

Þorbjörn Jensson, landsliðsþjálfari, gerði eina breytingu á liðinu frá því í fyrri leiknum. Konráð Olavsson kemur inn í vinstra hornið fyrir Björgvin Björgvinsson.

Valur B.

Jónatansson skrifar

frá Helsinki.