FULLTRÚAR vátryggjenda innan Samsteypu íslenskra fiskiskipatrygginga hafa ákveðið að leggja samsteypuna niður þar sem útlit er fyrir að Samkeppnisstofnun álíti hana ekki samræmast reglum Evrópusambandsins. Það er gert þrátt fyrir skýra afstöðu Landssambands íslenskra útgerðarmanna um hagkvæmni þeirra vátryggingasamninga sem samtökin hafa gert við samsteypuna.
Samsteypa íslenskra fiskiskipatryggjenda lögð niður Ekki álitin samræmast reglum Evrópusambandsins

FULLTRÚAR vátryggjenda innan Samsteypu íslenskra fiskiskipatrygginga hafa ákveðið að leggja samsteypuna niður þar sem útlit er fyrir að Samkeppnisstofnun álíti hana ekki samræmast reglum Evrópusambandsins. Það er gert þrátt fyrir skýra afstöðu Landssambands íslenskra útgerðarmanna um hagkvæmni þeirra vátryggingasamninga sem samtökin hafa gert við samsteypuna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var athygli Samkeppnisstofnunar síðastliðið haust vakin á því fyrirkomulagi sem ríkt hefur milli útgerðarmanna og tryggingafélaganna um vátryggingar fiskiskipa. Í kjölfar frumdraga að niðurstöðu Samkeppnisstofnunar ákváðu tryggingafélög innan Samsteypu íslenskra fiskiskipatrygginga að slíta samsteypunni nú þegar, en þar kemur fram að fyrirkomulagið kunni að stangast á við samkeppnisreglur Evrópusambandsins.

30 ára gamalt fyrirkomulag

Samsteypa íslenskra fiskiskipatrygginga var stofnuð í árslok 1968. Meginástæða þess var sú að iðgjöld fiskiskipa hér á landi höfðu farið hækkandi en þau voru í raun ákveðin af erlendum endurtryggjendum. Frá og með árinu 1969 hefur hins vegar verið staðið svo að málum að fulltrúar vátryggjenda annars vegar og fulltrúar Landssambands íslenskra útgerðarmanna hins vegar hafa samið um iðgjöld fyrir fiskiskip sem eru stærri en 100,5 rúmlestir. Í fréttatilkynningu frá SÍFT segir að þetta fyrirkomulag hafi staðið í öllum grundvallaratriðum þrátt fyrir miklar breytingar í rekstrarumhverfi útgerðar og vátryggingastarfsemi. Þessi tilhögun hafi haft í för með sér hagkvæmari endurtryggingakjör en áður. Sá ávinningur hafi skilað sér til útvegsmanna með lægri iðgjöldum og almennt hagstæðari vátryggingakjörum. Enginn útgerðarmaður hafi verið skuldbundinn að tryggja skip sitt hjá aðildarfélagi innan samsteypunnar, heldur hafi þeir getað tryggt skip sitt þar sem þeir óska. Samsteypan sé ekki vátryggjandi og LÍÚ ekki vátryggingataki, heldur hafi vátryggingasamningar verið gerðir milli einstakra útvegsmanna innan LÍÚ og vátryggingafélaga innan SÍFT.

Í fréttatilkynningunni segir enn fremur að SÍFT sé er ekki lokaður félagsskapur og hafi þeim vátryggjendum sem þess hafi óskað og starfsleyfi hafa til að reka fiskiskipatryggingar, jafnan verið veitt aðild að samsteypunni. Engin beiðni um aðild að SÍFT hafi komið frá erlendum vátryggjanda, hvorki frá ríki innan EES eða utan þess.

Þjónaði hagsmunum útgerðarmanna

Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra tryggingafélaga, segir að þessi tilhögun hafi fyrst og fremst verið við lýði þar sem LÍÚ og útvegsmenn hafi sjálfir talið slíkt þjóna hagsmunum sínum og færa útvegsmönnum hagstæðari vátryggingakjör en ella fengjust. "Vátryggingafélög innan SÍFT hafa ætíð talið að kerfið um þessar fiskiskipatryggingar, sem byggist á frelsi aðila og jafnræði, gangi ekki í berhögg við samkeppnisreglur. Sömu sjónarmiða hefur gætt hjá útvegsmönnum og samtökum þeirra að þessu leyti. Samkeppnisstofnun hefur þó að gefnu tilefni tekið þessa tilhögun til athugunar. Virðist stofnunin vera á öndverðum meiði og ber einkum fyrir sig reglugerð frá Evrópusambandinu frá árinu 1992 sem Ísland er bundið af. Forráðamenn íslenskra vátryggingafélaga og samtaka þeirra mörkuðu snemma þá stefnu að leita almennt ekki eftir undanþágum eða auknum aðlögunartíma vegna margvíslegra reglna á vátryggingasviði er ljóst var að Íslendingar yrðu að tileinka sér í tengslum við EES-samningin á sínum tíma. Var þessi afstaða frábrugðin því sem var í sumum ríkjum er aðilar urðu að EES-samningnum. Munu íslenskir vátryggjendur ekki víkja frá þeirri stefnumörkun vegna þessa máls. Því hafa aðildarfélög SÍFT einróma samþykkt að slíta samsteypunni nú þegar," segir Sigmar.