HEILDVERSLUNIN Karl K. Karlsson tekur við umboði fyrir Gordons gin, Johnny Walker viskí, Dimple viskí og fjölda annarra þekktra áfengistegunda þann 1. október næstkomandi. Umboðið flyst yfir til verslunarinnar vegna samruna tveggja erlendra áfengisfyrirtækja, Grand Metropolitan og Guinness í Bretlandi, snemma á þessu ári en áfengisdeildir þeirra sameinuðust þann 1. júlí s.l.
ÐKarl K. Karlsson fær þekkt áfengisumboð

HEILDVERSLUNIN Karl K. Karlsson tekur við umboði fyrir Gordons gin, Johnny Walker viskí, Dimple viskí og fjölda annarra þekktra áfengistegunda þann 1. október næstkomandi. Umboðið flyst yfir til verslunarinnar vegna samruna tveggja erlendra áfengisfyrirtækja, Grand Metropolitan og Guinness í Bretlandi, snemma á þessu ári en áfengisdeildir þeirra sameinuðust þann 1. júlí s.l.

Fyrir hefur fyrirtækið umboð fyrir fjölda áfengistegunda og til dæmis fékk það umboðið fyrir Smirnoff vodka og Baileys líkjör á síðasta ári.

"Sameinað fyrirtæki er eitt hið stærsta í heimi í neytendavöru og velta þess er um 40 milljarðar punda á ári. Það er helmingi stærra en næststærsti aðilinn á þessu sviði," sagði Ingvar J. Karlsson framkvæmdastjóri heildsölu Karls K. Karlssonar.

Hann sagði að viðbótin yki umsvifin hjá fyrirtækinu og yrði væntanlega til kostnaðarminnkunar vegna aukinnar hagræðingar í pöntunum m.a.