Ísafirði- Gengið hefur verið frá ráðningu Sigurðar Jónssonar, skipatæknifræðings og núverandi framkvæmdastjóra Skipasmíðastöðvarinnar hf., á Ísafirði á tæknideild 3X-Stáls ehf., á Ísafirði og mun hann hefja störf á hinum nýja vinnustað um næstu mánaðamót. Góð verkefnastaða hefur verið hjá 3X-Stál ehf.
Þróunarverkefni í ísfirskum iðnaði

Hæfni fyrirtækja aukin

Ísafirði - Gengið hefur verið frá ráðningu Sigurðar Jónssonar, skipatæknifræðings og núverandi framkvæmdastjóra Skipasmíðastöðvarinnar hf., á Ísafirði á tæknideild 3X-Stáls ehf., á Ísafirði og mun hann hefja störf á hinum nýja vinnustað um næstu mánaðamót.

Góð verkefnastaða hefur verið hjá 3X-Stál ehf. frá því fyrirtækið var stofnað og að undanförnu hefur þeim fjölgað til muna. Í kjölfar stofnunar dótturfyrirtækis í Garðabæ, Stálnausts ehf., hafa verkefnin enn aukist og þá sérstaklega hvað varðar hönnunarvinnu. Meðal verkefna fyrirtækisins í dag má nefna smíði á fullkominni bolfisklínu fyrir togarann Pál Pálsson ÍS, en sá búnaður verður settur í skipið á næstu vikum. Að því verki koma ýmis fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum m.a. Vélsmiðjan Mjölnir hf. í Bolungarvík og Póls hf., Eiríkur og Einar Valur hf. og Skipasmíðastöðin hf. á Ísafirði. Þá er undirbúningsvinna við byggingu á nýrri rækjuverksmiðju í Kanada vel á veg komin en það verkefni er eitt það viðamesta sem 3X-Stál hf. hefur tekið að sér til þessa.

Skipasmíðastöðin hf. og 3X-Stál ehf. hafa undanfarin ár stundað umfangsmikla vöruþróunarvinnu, hvort á sínu sviði og hafa fyrirtækin nú ákveðið að gera með sér samkomulag um sérstakt þróunarverkefni sem miðar að því að stórauka framleiðni í þeim verkum sem þau eru að vinna að, m.a. með aukinni notkun á tölvustuddri hönnun og framleiðslu. Tilgangur verkefnisins verður að auka hæfni fyrirtækjanna til að taka að sér flóknari verkefni m.a. í tengslum við fiskiskip, nýsmíði og breytingar. Markmiðið er að byggja upp þekkingu og tækjabúnað til að gera það kleift að vinna samhliða ýmis verkefni sem hingað til hefur þurft að vinna hvert á eftir öðru. Með því ráðgera forsvarsmenn fyrirtækjanna að hægt sé að stytta verktíma að lágmarki um 25% og lækka vinnukostnað um 20% að lágmarki.

Það er sannfæring forsvarsmanna fyrirtækjanna að mikilvægt sé fyrir ísfirsk iðnfyrirtæki að taka höndum saman um að innleiða nýjustu þekkingu og tækni í hönnun og framleiðslu. Þannig geti þau samnýtt krafta sína til að ná samkeppnisforskoti, hvert á sínu sviði.