FJÖLMENNI var viðstatt vígslu Sæbjargar, hins nýja skólaskips Slysavarnaskóla sjómanna, í gær, en það er gamla Akraborgin sem fengið hefur þetta nýja hlutverk. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskólans, tjáði Morgunblaðinu að öll aðstaða um borð væri mun betri og tvöfalt stærri enda skipið stórt og mikið en hann sagði menn þó sakna gömlu Sæbjargar.
Nýja skólaskipið Sæbjörg var vígð í gær Öll aðstaða betri og tvöfalt stærri

FJÖLMENNI var viðstatt vígslu Sæbjargar, hins nýja skólaskips Slysavarnaskóla sjómanna, í gær, en það er gamla Akraborgin sem fengið hefur þetta nýja hlutverk. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskólans, tjáði Morgunblaðinu að öll aðstaða um borð væri mun betri og tvöfalt stærri enda skipið stórt og mikið en hann sagði menn þó sakna gömlu Sæbjargar.

Esther Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands, sagði tilkomu skipsins vera stóra stund fyrir félagið. Gunnar Tómasson, forseti SVFÍ, sagði við vígsluathöfnina í gær að nýja Sæbjörgin kæmi á besta tíma, um leið og auknar kröfur væru gerðar um kennslu og þjálfun sjómanna í björgunarstörfum og gamla Sæbjörgin gæti ekki lengur þjónað skólanum. Aðsókn að Slysavarnaskólanum sagði Gunnar vera með besta móti og nú væri skilyrði fyrir lögskráningu sjómanna að þeir hefðu sótt námskeið hjá skólanum eða sambærileg námskeið. Nú væri einnig ráðgert að gera sjómönnum skylt að sækja upprifjunarnámskeið á fimm ára fresti.

Rétt viðbrögð skipta sköpum

Forseti Slysavarnafélagsins sagði sjómenn oft hafa látið þess getið þegar þeir hefðu ratað í raunir að þekking og rétt viðbrögð sem þeir lærðu og æfðu í Slysavarnaskólanum hefði skipt sköpum við björgun, yfirveguð viðbrögð skiptu máli þegar menn stæðu frammi fyrir háska. Hann sagði margar góðar minningar tengdar gömlu Sæbjörginni enda hefði þar farið fram farsælt starf. Gunnar sagði Sæbjörgu hafa borist gjafir, m.a. sjö tonna krani frá Samherja á Akureyri, málning frá Slippfélaginu, sýningartjald frá Bræðrunum Ormsson og viðhaldskerfi frá Ásgeiri Guðmundssyni. Hann þakkaði starfsmönnum Slippstöðvarinnar á Akureyri og starfsmönnum skólans fyrir vel heppnaða breytingu á skipinu úr ferju í skólaskip.

"Ég óska þess að hér megi fara fram árangursríkt og öflugt fræðslustarf og gæfa fylgi skipi og áhöfn þess hér eftir sem hingað til," sagði Gunnar Tómasson að lokum.

Fleiri gjafir bárust Sæbjörgu við vígsluathöfnina, m.a. Markúsarnet, tölva, kennslugögn og fleira. Séra Pálmi Matthíasson blessaði skipið og áhöfn þess, minnti á frásögnina af Kristi þegar hann kyrrði vind og vatn og sagði það hafa verið sæbjörg. Hann sagði áhöfn Sæbjargar vera eins konar postula sem þýða mætti sem brautryðjandi, boðberi, frumherji og erindreki.

Hilmar Snorrason sagði að meðal breytinga sem fram hefðu farið á skipinu væri að farþegasalnum hefði verið breytt í kennslustofu, bar skipsins í skrifstofu en mestu breytingarnar væru þó á bílaþilförunum. Milliþilfarið, sem gripið var til þegar aðalbílaþilfarið dugði ekki, hefur verið gert að aðstöðu fyrir æfingar með flotbúninga og reykköfunartæki og á bílaþilfarinu verður æfð notkun sjóbjörgunartækja og báta. Hilmar sagði takmark skólans að engir sjómenn lentu í slysi.

Sex leiðbeinendur eru í föstu starfi á Sæbjörgu og til viðbótar eru fengnir sérstakir kennarar á einstök námskeið. Gunnar Tómasson sagði nú kleift að sigla Sæbjörginni umhverfis landið árið um kring, en ekki aðeins að sumarlagi eins og gamla Sæbjörg hafði leyfi fyrir. Sagði hann skipulagningu námskeiða úti um land nú í undirbúningi.

Meðal þeirra sem fluttu ávörp úr hópi gesta var Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður sem sagði sjómenn fagna hinu nýja skólaskipi og óskaði áhöfn gæfu og gengis í fyrirbyggjandi starfi. Hann sagði slys á sjómönnum of mörg á ári hverju og þótt þeim hefði fækkað hefði Slysavarnaskólinn enn verk að vinna.

Átak fyrir björgunarbátasjóð

Slysavarnafélagið stendur um þessar mundir fyrir herferð til að minna á björgunarskip sín, sem nú eru átta, og er leitað til landsmanna eftir fjárstuðningi við rekstur þeirra. Hefur verið sendur upplýsingabæklingur og gefið út átta síðna rit um björgunarskipin. Gunnar Tómasson tjáði Morgunblaðinu að sameiginlegur sjóður SVFÍ legði um 30 milljónir á ári til björgunarskipaflotans. Þar væri um að ræða laun vélstjóranna, tryggingar og ýmsar viðgerðir en við þá upphæð bættist rekstrarkostnaður skipanna sem björgunarsveitirnar sjálfar bæru. Næsta skref sagði hann vera endurnýjun á elstu skipunum. Í framhaldi af því væri síðan ráðgert að kaupa eitt til tvö björgunarskip til viðbótar.

Auk björgunarskipanna átta á SVFÍ 17 harðbotna slöngubáta og 80 aðra slöngubáta um landið allt.

Morgunblaðið/Ásdís HILMAR Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, heilsar gestum í Sæbjörgu í gær.

FORSETI Slysavarnafélags Íslands, Gunnar Tómasson, ávarpaði gesti.