LÉNUM, eða svæðisnetföngum, fjölgar óðfluga á Netinu og ekki annars að vænta en að þróun verði eins á næstu misserum. Samkvæmt nýjustu talningu voru lén 36.739.151, eða rúmlega 36 milljónir. Flest lénin eru svonefnd .com, sem notað er yfir fyrirtæki, og þá aðallega innan Bandaríkjanna. Þau eru 10.301.570, eða á elleftu milljón. Til eru fyrirtæki utan Bandaríkjanna sem nota .
36 milljón lén LÉNUM, eða svæðisnetföngum, fjölgar óðfluga á Netinu og ekki annars að vænta en að þróun verði eins á næstu misserum. Samkvæmt nýjustu talningu voru lén 36.739.151, eða rúmlega 36 milljónir. Flest lénin eru svonefnd .com, sem notað er yfir fyrirtæki, og þá aðallega innan Bandaríkjanna. Þau eru 10.301.570, eða á elleftu milljón. Til eru fyrirtæki utan Bandaríkjanna sem nota .com, til að mynda hér á landi, enda gerir Netið landfræðilegar skilgreiningar erfiðari. Næst í röðinni á eftir .com eru .net, þá koma .edu og .mil. Bandarísk lén nota almennt ekki .us á eftir nafninu, líkt og önnur lönd nota viðeigandi skammstöfun fyrir nafnið. Þó til séu allmörg lén sem nota .us, 1.302.204, er óhætt er að gera ráð fyrir því að obbinn af þremur efstu lénsviðhengjunum sé einnig bandarískur. Í fjórða sæti á lénalistanum og öðru sæti á landsvísu eru japönsk lén sem nota .jp, 1.352.200. Þá koma bresk, með .uk, þýsk, með .de, kanadísk, ca, áströlsk, .au, og svo má telja. Ísledingar eru merkilega ofarlega á lista í ljósi smæðar þjóðarinnar, eða í 38. sæti, næst á eftir Chile, með 20.678, fyrir ofan Sovétríkin sálugu, því enn eru til 20.024 lén með .su, og Kína, en þar í landi eru skráð 19.313 lén. Af öðrum löndum sem Íslendingar skáka má nefna Indverja, Filippseyinga, ríki Afríku og önnur ríki Asíu. Finnar eru langefstir Norðurlandaþjóða með 513.527 lén, en Svíar koma næstir með 380.634. Norðmenn eru með 312.441 lén en Danir ekki nema 190.293.