BANKASTJÓRN Evrópubankans hefur tilkynnt að Bretum muni ekki verða heimilt að setja andlit Bretadrottningar á evró-seðla gangi þeir í Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU). Munu ráðherrar Evrópusambandslandanna lengi hafa staðið í þeirri trú að hverri ESB- þjóð yrði heimilt að setja tiltekin þjóðartákn á hluta seðlanna en nú hefur Evrópubankinn tekið af öll tvímæli um þetta.
Andlit Bretadrottningar ekki

á Evró-seðlum

Brussel, London. The Daily Telegraph.

BANKASTJÓRN Evrópubankans hefur tilkynnt að Bretum muni ekki verða heimilt að setja andlit Bretadrottningar á evró-seðla gangi þeir í Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU). Munu ráðherrar Evrópusambandslandanna lengi hafa staðið í þeirri trú að hverri ESB- þjóð yrði heimilt að setja tiltekin þjóðartákn á hluta seðlanna en nú hefur Evrópubankinn tekið af öll tvímæli um þetta.

Mun ákvörðun Evrópubankans valda Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, nokkrum áhyggjum enda ræddi hann fyrir síðustu þingkosningar um þau "sterku tilfinningabönd" sem vöknuðu við það að sjá andlit Bretadrottningar á breskum gjaldmiðli. Hafa þingmenn andstæðir Evrópusamstarfinu þegar mótmælt því sem þeir telja "móðgun" við konungdæmið og segja að hér gefi að líta vísbendingu um hvernig litið yrði framhjá hagsmunum Bretlands gangi landið einhvern tíma í EMU.

Talið er að Verkamannaflokkurinn breski muni nú eiga í enn frekari erfiðleikum með að sannfæra almenning í Bretlandi um að kveðja pund sitt og taka upp evruna, gjaldmiðil ESB sem tekinn verður í notkun í byrjun næsta árs. Reyndu fulltrúar í fjármála- og forsætisráðuneytinu að gera lítið úr málinu og sögðust skilja þær tilfinningar sem menn bæru til pundsins breska. Mun Gordon Brown, breski fjármálaráðherrann, ætla að berjast fyrir undanþágu til handa Bretlandi.

Fulltrúar Evrópubankans ítreka hins vegar að ekki verði um neinar undanþágur að ræða. Segja þeir að með því að setja sérstakt þjóðartákn á evró-seðla í hverju landi væri verið að flækja mjög framleiðsluferli seðlanna, rugla almenning í ESB-löndunum enn frekar og auka gífurlega kostnað við seðlaútgáfuna.

Hague segir um "viðvörun" að ræða

William Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins breska, reyndi þegar að nýta sér ákvörðun Evrópubankans í baráttu flokksins fyrir því að halda Bretlandi fyrir utan EMU. Sagði hann ákvörðunina "viðvörun" til bresku þjóðarinnar. "Andlit drottningarinnar á gjaldmiðli okkar er öflugt tákn um sjálfstæði þjóðarinnar og getu okkar til að taka ákvarðanir í þeim málefnum sem snerta þjóðarhag."

Gordon Brown hefur þegar fengið samþykkt að gangi Bretland í EMU muni Evrópubankinn ekki mótmæla því að andlit drottningar verði á annarri hlið Evrópumyntarinnar. Búist er hins vegar við miklu meiri útbreiðslu Evrópuseðlanna og veldur það ákvörðun Evrópubankans nú.