UM hundrað manns var við formlega vígslu snjóflóðavarnargarðanna ofan við Flateyri síðdegis í gær. Gerð þeirra er lokið fyrir nokkru og eru þeir þegar orðnir grænir og grösugir eftir sáningu. Kostnaður við gerð garðanna nemur um 340 milljónum króna, sem er um 50 milljónum króna lægri upphæð en gert var ráð fyrir í upphaflegri kostnaðaráætlun.
Snjóflóðavarnargarðarnir við Flateyri við Önundarfjörð vígðir í gær

Kostuðu um 340

milljónir króna

Ísafirði. Morgunblaðið.

UM hundrað manns var við formlega vígslu snjóflóðavarnargarðanna ofan við Flateyri síðdegis í gær. Gerð þeirra er lokið fyrir nokkru og eru þeir þegar orðnir grænir og grösugir eftir sáningu.

Kostnaður við gerð garðanna nemur um 340 milljónum króna, sem er um 50 milljónum króna lægri upphæð en gert var ráð fyrir í upphaflegri kostnaðaráætlun. Í henni var þó ekki gert ráð fyrir uppgræðslu og gróðursetningu trjáplantna sem unnið var við í sumar. Leiðigarðarnir sjálfir eru tæplega 1.200 metrar á lengd og hæðin á þeim er 15­20 metrar. Á milli þeirra neðst er þvergarður sem er um 240 metrar á lengd.

Í ávarpi sínu sagði Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra m.a., að vonandi yrðu mannvirki þessi í raun aldrei "tekin í notkun", þ.e. að aldrei þyrfti á þau að reyna í alvöru. "Það má ef til vill segja," sagði ráðherra, "að ríkisvald og sveitarfélög hafi ekki verið nægjanlega á varðbergi og áföll sem höfðu orðið á árum áður hafi ekki leitt til þess að á málum væri tekið af festu á þeim svæðum sem raunverulega bjuggu við snjóflóðahættu. En ég leyfi mér að fullyrða, að nú hafi orðið breyting á." Ráðherra lauk lofsorði á verktakann og hvernig hann skilaði verkinu af sér.

Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, sagði m.a.: "Við stöndum frammi fyrir miklu mannvirki ­ mannvirki sem verður að teljast til stærstu minnisvarða sem finnast, því það mun alla tíð minna okkur og komandi kynslóðir á atburðina í október fyrir þremur árum."

Vinnan við garðana hófst haustið 1996 og lauk henni í júlímánuði síðastliðnum. "Við þessa framkvæmd þurfti að hreyfa hér á svæðinu nálægt einni milljón rúmmetra af jarðvegi, en það nemur um 170.000 vörubílshlössum," sagði Gunnar Birgisson, framkvæmdastjóri Klæðningar hf.

Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson. SÉRA Gunnar Björnsson í Holti í Önundarfirði fór með bæn og blessaði mannvirkið.