Stykkishólmi-Nú er verið að byggja "litlu bryggjuna" í Stykkishólmi upp í þriðja skipti frá því hún var upphaflega byggð, en hún er gömul steinbryggja. Hún hefur alltaf verið með sama hallandi sniðinu enda mikill munur á milli flóðs og fjöru í Stykkishólmi. Nú er verið að gjörbreyta bryggjunni vegna breyttra aðstæðna og krafna.
Endurbætur á "litlu bryggjunni"

Stykkishólmi - Nú er verið að byggja "litlu bryggjuna" í Stykkishólmi upp í þriðja skipti frá því hún var upphaflega byggð, en hún er gömul steinbryggja. Hún hefur alltaf verið með sama hallandi sniðinu enda mikill munur á milli flóðs og fjöru í Stykkishólmi.

Nú er verið að gjörbreyta bryggjunni vegna breyttra aðstæðna og krafna. Má segja að verið sé að byggja nýja bryggju, þar sem gamla bryggjan verður innan í þeirri nýju. Þetta verður harðviðarbryggja að mestu leyti auk þess er hún hækkuð upp úr sjó, lengd og breikkuð um helming. Bryggjukantar verða 115 m. Mesta lengd bryggjunnar er 60 m og breiddin 15 m.

Sem fyrr er bryggjan aðallega hugsuð fyrir smærri báta til löndunar. Í tengslum við endurbæturnar var farið út í 1.500 fermetra landfyllingu á milli "litlu" og "stóru" bryggju til að bæta athafnasvæðið.

Framkvæmdin var boðin út í tvennu lagi. Annars vegar landfylling og það verk var unnið af Stefáni Björgvinssyni í Stykkishólmi og hins vergar sjálf bryggjusmíðin. Verktaki í þeim áfanga er Guðlaugur Einarsson frá Sauðárkróki. Reiknað er með að verkinu ljúki í lok október og áætlaður kostnaður er um 30 milljónir kr.

Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason MIKLAR hafnarframkvæmdir eru í Stykkishólmi. Verið er að endurbyggja "gömlu bryggjuna" frá grunni, bæði að lengja hana, breikka og hækka. Að framkvæmdum loknum mun öll aðstaða fyrir smærri báta við löndun batna.