Antonio Vivaldi: Tólf fiðlukonsertar, L'Estro Armonico, op. 3. Sex flautukonsertar, op. 10. Einleikarar: Monica Huggett, John Holloway, Catherine Mackintosh, Elizabeth Wilcock (fiðlur) og Stephen Preston (þverflauta). Hljómsveit: The Academy of Ancient Music. Stjórnandi: Christopher Hogwood. Útgáfa: Decca L'Oiseau-Lyre 458 078-2 (2 diskar). Upptaka: 1978 og 1980. Lengd: 148'10 mín. Verð: kr. 2.

SKIN OG SKÚRIR

TÓNLIST Sígildir diskar VIVALDI Antonio Vivaldi: Tólf fiðlukonsertar, L'Estro Armonico, op. 3. Sex flautukonsertar, op. 10. Einleikarar: Monica Huggett, John Holloway, Catherine Mackintosh, Elizabeth Wilcock (fiðlur) og Stephen Preston (þverflauta). Hljómsveit: The Academy of Ancient Music. Stjórnandi: Christopher Hogwood. Útgáfa: Decca L'Oiseau-Lyre 458 078-2 (2 diskar). Upptaka: 1978 og 1980. Lengd: 148'10 mín. Verð: kr. 2.099 (Skífan). ÞEGAR hausta fer og fólk horfir með söknuði til liðins sumars sem var í meira lagi sólríkt og indælt, a.m.k. hér á suðvesturhorninu, er notalegt að hverfa til tónlistar Vivaldis sem í svo ríkum mæli ber með sér birtu og yl sumarsins. L'Estro Armonico -konsertarnir voru gefnir út árið 1712 og urðu fljótt eins konar fyrirmyndir slíkra tónsmíða á 18. öld. Greina má augljós áhrif frá þeim hjá tónskáldum eins og Locatelli, Leclair, Tartini, Telemann og sjálfum Jóhanni Sebastian Bach en hann umskrifaði nokkra þeirra fyrir sembal. Konsertunum er raðað í fjögur sett þar sem hvert sett hefst á konserti fyrir fjórar fiðlur, síðan tekur við konsert fyrir tvær fiðlur og settinu lýkur á einleikskonsert. Auk þessa hafa fimm konsertanna einleikskafla fyrir selló. Flautukonsertana op. 10 samdi Vivaldi talsvert seinna, líkast til í kringum 1730, og eru flestir þeirra umritun á blokkflautukonsertum hans en þverflautan hafði á þessum árum nýlega borist til sunnanverðrar Evrópu. Talið er að konsertarnir op. 10 hafi verið samdir fyrir stúlkurnar í Ospedale della Pietá í Feneyjum og eru þeir hinir fyrstu sinnar tegundar sem voru prentaðir. Hljómsveitin The Academy of Ancient Music telur níu hljóðfæraleikara og skipta fiðluleikararnir fjórir einleikshlutverkunum bróðurlega á milli sín. Árangurinn er hinn ánægjulegasti eins og við er að búast hjá þessu einvala liði. Hraðavalið er í hressasta lagi en það fer þessari tónlist langbest að mínu mati. Í túlkun hljóðfærahópsins og stjórnanda hans Christophers Hogwood, sem einnig leikur á sembal og orgel, er lögð áhersla á þann tærleika og snerpu sem þessi einstaklega glaðlega tónlist býr yfir. Hér fara saman líflegur flutningur og vönduð vinnubrögð, hvergi er að finna hnökra á flutningi og oft nær hann miklu flugi eins og í lokakafla fiðlukonsertsins nr. 2 og hinum alþekkta nr. 6 (skyldu Suzuki-nemendur (og foreldrar!) nokkuð svitna þegar þeir heyra lokakaflann í meðförum AAM og Catherine Macintosh?) Bæklingurinn sem fylgir er sérstaklega aðgengilegur og blessunarlega laus við þann akademíska orðaflaum sem oft er að finna með hljóðritunum sem gefa sig út fyrir að vera "vísindalegar". Þetta er vel útilátið safn, tvær og hálf klukkustund af tónlist, en stillið ykkur um að spila allan pakkann í einu. Vivaldi ætlaðist ekki til þess! GEORGE ENESCU George Enescu: Sinfónía nr. 3, op. 21, Rúmensk rapsódía op. 11, nr. 1. Hljómsveit: BBC Philharmonic Orchestra. Kór: Leeds Festival Chorus. Stjórnandi: Gennady Rozhdestvensky. Útgáfa: Chandos CHAN 9633. Lengd: 67'57 mín. Verð: kr. 1.799 (Skífan). Vart er hægt að ímynda sér stærra heljarstökk en það sem nú er tekið. Heimur Vivaldis og Enescus er býsna ólíkur af skiljanlegum ástæðum. Ekki er víst að tónlistarunnendur þekki mikið til tónlistar rúmenska tónskáldsins George Enescus (1881-1955) sem fyrst og fremst var þekktur sem fiðluleikari og ástsæll kennari nokkurra fremstu fiðlusnillinga aldarinnar eins og þeirra Yehudi Menuhins og Arthur Grumiaux. Að vísu er Rapsódían op. 11 nr. 1 mjög þekkt tónsmíð en flest annað sem Enescu samdi hefur að mestu legið í dvala. Á undanförnum árum hafa menn sýnt tónlist Enescus stóraukinn áhuga enda er hún fyllilega athyglinnar verð. Hljómaveröld hans er nokkuð sérstök, helst er stíllinn síðrómantískur en Enescu líkist samt varla nokkru öðru tónskáldi. Þriðja sinfónían er samin í skugga fyrri heimsstyrjaldarinnar og ber hún þess greinileg merki. Hún er í þremur köflum og er samin fyrir geysistóra hljómsveit og kór sem syngur án orða í lokakaflanum. Tónmál verksins einkennist oft af mjög þéttriðnum vef sem stundum er erfitt að sjá í gegnum. Því miður er ekki alltaf ljóst hvert tónskáldið ætlar með tónlistinni og á þetta sérstaklega við um fyrsta kaflann sem virkar allt of langur en er þó aðeins rúmar 20 mínútur. Öðru máli gegnir um miðkaflann sem er ógnvekjandi og sannfærandi stríðsmynd sem nær hrikalegu hámarki um miðjan kaflann. Lokakaflinn er hægur og ljóðrænn og er þar að finna mikið af ákaflega fallegri tónlist og friðsæld síðustu taktanna fá orð vart lýst.

BBC-fílharmónían í Manchester er greinilega feiknagóð hljómsveit, það sama má segja um kórinn sem blandast mjög vel inn í hljómsveitarvefinn í lokakaflanum. Tæknimenn Chandos hafa sannarlega unnið afrek því upptakan er ótrúlega glæsileg bæði í sinfóníunni og Rúmensku rapsódíunni. Fyrir þá sem lítið þekkja til Enescus og hafa áhuga á að kynnast tónlist hans þá væri þó rétt að byrja annars staðar og í aðgengilegri endanum. Til dæmis má mæla heils hugar með hinum magnaða Strengjaoktett sem tónskáldið samdi á unglingsárum sínum. Hann má finna ásamt strengjatónlist eftir Strauss og Shostakovich á sérlega góðum Chandos- diski (CHAN 9131). Einnig eru Hljómsveitarsvíturnar nr. 1 og 2 falleg verk sem samin eru í þjóðlegum rúmenskum stíl. Þær hafa verið hljóðritaðar af Marco Polo útgáfunni (8.223144). Því miður eru hljómgæðin á þeim diski ekki sem best en á móti vegur að flutningurinn er fyrirtaks góður þannig að óhætt er að mæla með honum. VALDEMAR PÁLSSON.

Antonio Vivaldi

George Enescu