Litbrigðaofsakláði Spurning: Kona hringdi og vildi fá upplýsingar um sjúkdóm sem hún kallaði "urticaria pigmentosa". Hún vildi fá að vita hvort til væri nafn yfir hann á íslensku. Hún sagðist hafa leitað til lækna hér heima en fáir virtust hafa áhuga eða þekkingu á þessum sjúkdómi.
Hvað er litbrigðaofsakláði (urticaria pigmentosa)?

Magnús Jóhannsson læknir svarar spurningum lesenda



Litbrigðaofsakláði

Spurning: Kona hringdi og vildi fá upplýsingar um sjúkdóm sem hún kallaði "urticaria pigmentosa". Hún vildi fá að vita hvort til væri nafn yfir hann á íslensku. Hún sagðist hafa leitað til lækna hér heima en fáir virtust hafa áhuga eða þekkingu á þessum sjúkdómi. Hún sagði að hann virkaði eins og ofnæmi og losaði um mastfrumur í líkamanum. Einkennin væru aðallega þau að það kæmu dökkir blettir á húðina. Hún biður lækninn jafnframt um að benda sér á lækni sem kann skil á þessum sjúkdómi.

Svar: Urticaria pigmentosa hefur verið kallað litbrigðaofsakláði á íslensku. Þetta er sjaldgæfur sjúkdómur hjá börnum og fullorðnum sem lýsir sér með útbrotum, oftast á hálsi, handleggjum, fótleggjum eða búk. Útbrotin eru rauðbrúnleitir blettir sem hlaupa upp ef þeir eru nuddaðir eða klóraðir. Stundum myndast blöðrur á blettunum og venjulega klæjar fólk mikið. Blettirnir innihalda mikið magn af sérstakri tegund frumna sem heita mastfrumur en ef þær verða fyrir einhvers konar ertingu losnar úr þeim efni sem heitir histamín. Histamín veldur útþotum, roða og kláða. Ekki er vitað hvers vegna mastfrumur safnast í bletti á húðinni hjá þeim sem hafa þennan sjúkdóm eða kvilla. Þegar börn fá sjúkdóminn fyrir 5 ára aldur læknast hann oftast af sjálfu sér við kynþroska eða snemma á fullorðinsárum. Þeir sem fá sjúkdóminn eftir 5 ára aldur losna fæstir nokkurn tíma við hann. Engin góð lækning er til en venjulega er hægt er að halda einkennum í skefjum með því að forðast vissa hluti og taka lyf. Það sem ber að forðast eru lyf eins og aspirín (magnýl o.fl.), kódein, morfínlyf og einnig ber að forðast áfengi, heit böð og að nudda húðina eftir bað. Til eru nokkrar gerðir lyfja sem draga úr óþægindunum og má þar fyrst nefna andhistamínlyf. Húðsjúkdómalæknar kunna góð skil á þessum sjúkdómi.

Sýking í leggöngum

Spurning: Hvers vegna kemur illa lyktandi sveppasýking í leggöng, er eitthvað annað til ráða en eilífar lyfjatökur? Á ytri kynfæri hafa myndast eins og stíflaðir fitukirtlar og úr þeim kemur illa lyktandi vessi, ekki gröftur. Hvað er hægt að gera við þessu? P.S. Mér finnst ég ekki lengur geta verið innan um fólk vegna þessa.

Svar: Ekki er vitað hvers vegna fólk fær langvarandi eða síendurteknar sýkingar með bakteríum, veirum eða sveppum nema þegar um er að ræða vissa sjúkdóma eins og t.d. sykursýki sem veikja varnir líkamans. Síendurteknar sýkingar geta verið merki um undirliggjandi sjúkdóm sem þá þarf að greina og lækna ef hægt er. Það eina sem ég get ráðlagt bréfritara er að fara hið fyrsta til kvensjúkdómalæknis og fá á hreint hvað er að og síðan að fá viðeigandi meðferð. Bréfritari getur örugglega fengið fulla eða a.m.k. verulega bót á ástandi sínu.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 569 1100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 569 1222.