HÖSKULDUR Ari Hauksson varði doktorsritgerð sína í stærðfræði við Háskóla Kaliforníu í Santa Barbara (University of California at Santa Barbara) 4. september sl. Titill ritgerðarinnar er "The Basic Attractor of the Viscous Moore- Greitzer Equation" sem gæti útlagst Grundvallar aðdragandinn fyrir Moore-Greitzer jöfnuna med seigju.
FÓLK Doktor í stærðfræði

HÖSKULDUR Ari Hauksson varði doktorsritgerð sína í stærðfræði við Háskóla Kaliforníu í Santa Barbara (University of California at Santa Barbara) 4. september sl. Titill ritgerðarinnar er "The Basic Attractor of the Viscous Moore- Greitzer Equation" sem gæti útlagst Grundvallar aðdragandinn fyrir Moore-Greitzer jöfnuna med seigju. Leiðbeinandi Höskuldar var Bjørn Birnir, prófessor vid stærðfræðideildina í Háskóla Kaliforníu í Santa Barbara.

Moore-Greitzer jafnan lýsir flæði lofts í gegnum þotuhreyfla og í ritgerðinni er fyrst fjallað um langtímahegðun lausna á þeirri jöfnu. Þeim niðurstöðum er síðan beitt til þess að stjórna loftflæðinu á sem hagkvæmastan hátt.

Höskuldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1990. Vorið 1992 lauk hann sveinsprofi í trésmíði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og vorið 1994 lauk hann B.S. prófi í bæði stærðfræði og eðlisfræði frá Háskóla Ísland. Höskuldur hóf doktorsnám sitt haustið 1994 og lauk því nú fjórum árum síðar.

1. október mun Höskuldur hefja störf hjá Olsen & Associates Ltd. í Zurich í Sviss. Þar mun hann stunda rannsóknir á hegðun alþjóðlegra gjaldeyrismarkaða og auk þess að stunda ráðgjöf fyrir marga af helstu bönkum í Evrópu.

Foreldrar Höskuldar eru Haukur Björnsson og Kristín Jónsdóttir. Höskuldur á tvær systur, Agnesi Kristjónsdóttur og Herborgu Hauksdóttur, en sú síðarnefnda stundar nú doktorsnám við Háskóla Kaliforníu í Davis. Höskuldur er ógiftur og á engin börn.