UBS AG, stærsti banki Evrópu, segir að bankinn muni tapa einum milljarði svissneskra franka, eða 718 milljónum dollara, á þriðja ársfjórðungi, þar sem umrót á heimsmörkuðum hafi grafið undan hagnaði í einn mánuð.
UBS-banki í Sviss með mikið tap

Zürich. Reuters.

UBS AG, stærsti banki Evrópu, segir að bankinn muni tapa einum milljarði svissneskra franka, eða 718 milljónum dollara, á þriðja ársfjórðungi, þar sem umrót á heimsmörkuðum hafi grafið undan hagnaði í einn mánuð.

Union-bankinn sagði þó að hann stæði traustum fótum þrátt fyrir áföll á nýjum mörkuðum, niðursveiflu á verðbréfamörkuðum og erfiðleika af völdum bágstadds áhættusjóðs í Bandaríkjunum, Long-Term Capital Management (LTCM).

Í yfirlýsingu UBS bankans sagði að hann gerði samt ráð fyrir "sæmilegum" hagnaði á síðari hluta ársins.

Verð hlutabréfa í UBS féll um tæp 11% áður en yfirlýsingin var birt, skömmu eftir að viðskiptum lauk í svissnesku kauphöllinni.

Óstyrkir fjárfestar losuðu sig við bankabréf víða í Evrópu þegar UBS boðaði til óvænts blaðamannafundar og neitaði að tiltaka ástæðuna. Verð bréfa í UBS lækkaði um 44 franka í 365, lægsta verð á þessu ári.