NÝR kristinn söfnuður var stofnaður sl. vor og er hann sjálfstætt og óháð samfélag einstaklinga, er vilja stuðla að boðun fagnaðarerindisins um Jesú Krist í samræmi við tilskipun hans til lærisveina sinna. Söfnuðurinn vill leggja sérstaka áherslu á að auðvelda fólki að kynnast vel boðskap Biblíunnar.
Boðunarkirkjan hefur starfsemi sína

NÝR kristinn söfnuður var stofnaður sl. vor og er hann sjálfstætt og óháð samfélag einstaklinga, er vilja stuðla að boðun fagnaðarerindisins um Jesú Krist í samræmi við tilskipun hans til lærisveina sinna. Söfnuðurinn vill leggja sérstaka áherslu á að auðvelda fólki að kynnast vel boðskap Biblíunnar. Prestur og forstöðumaður Boðunarkirkjunnar er Steinþór Þórðarson.

Trúarjátning safnaðarins er þessi: "Við trúum á kærleiksríkan, almáttugan Guð sem skapaði heiminn og mannkynið. Við trúum á Jesú Krist, son Guðs, sem dó til þess að friðþægja fyrir syndir mannanna. Við trúum á Heilagan anda og meðtökum leiðsögn hans til iðrunar og réttlætis. Við meðtökum alla Biblíuna sem heilagt, innblásið Orð Guðs og grundvöll trúar og lífernis. Við meðtökum boðorðin tíu sem eilífar meginreglur Guðs, sem öllum ber að hafa í heiðri. Við trúum því að Drottinn Jesús Kristur dæmi lifendur og dauða og komi aftur að vitja síns fólks. Við trúum á upprisu dauðra og eilíft líf."

Prestur safnaðarins og forstöðumaður hans er Steinþór Þórðarson, sem hefur starfað sem prestur og kristniboði á Íslandi, Nígeríu og Zimbabwe um árabil. Margir hafa kynnst Steinþóri í gegnum Biblíunámskeiðin sem hann hefur staðið fyrir í Reykjavík og nágrenni undanfarin ár. Formaður safnaðarstjórnar er Ragnheiður Ólafsdóttir Laufdal.

Verið er að standsetja safnaðarheimili og samkomusal í nýju húsnæði í Smárahlíð í Kópavogi sem verður tekið í notkun í nóvember. Fram að þeim tíma mun Boðunarkirkjan halda Biblíunámskeið á Hótel Íslandi, Ármúla 9, sem verður á mánudögum og miðvikudögum kl. 20 og hefst 5. október. Leiðbeinandi verður Steinþór Þórðarson. Þátttaka er opin öllum og er ókeypis.

Steinþór Þórðarson