Blönduósi-Hrossaréttir voru í Skrapatungurétt í utanverðum Laxárdal í A-Húnavatnssýslu um sl. helgi og var margt um menn og hross. Smölun gekk vel og tóku margir aðkomumenn þátt í smölun og réttarstörfum í mildu síðsumarveðri.
SStóðréttir í Skrapatungu

Margt um manninn og hestinn

Blönduósi - Hrossaréttir voru í Skrapatungurétt í utanverðum Laxárdal í A-Húnavatnssýslu um sl. helgi og var margt um menn og hross. Smölun gekk vel og tóku margir aðkomumenn þátt í smölun og réttarstörfum í mildu síðsumarveðri.

Hrossasmölun og réttir eru í hugum margra sambland alvöru og gleði. Haustið er nánd, veturinn bíður handan við hornið óræður sem fyrr. Eftirvæntingin er líka mikil. Hvernig skyldi folaldið hennar Blesu hafa dafnað í afréttinum í sumar? Um hugann fer margt þegar stóðið rennur til réttar með taktföstum, sefjandi skrefum eftir að mesti móðurinn hefur runnið af mönnum og hestum. Þegar til réttar er komið og farið að "draga" hrossin í dilka, byrja átökin fyrir alvöru. Margur góðbóndinn kemur heim með hófaför á bringu eða baki, húfur og gleraugu skilja við eigendur sína og margur vasapelinn glatar notagildi sínu og innihaldi á engri stundu. Einum bónda í Langadal varð að orði þegar tíu stæltar stóðmerar ættaðar úr sama dal þrýstu honum með samstilltu átaki að réttarveggnum með þeim afleiðingum að glerfleygur með skosku kornvíni hrökk í sundur og innihaldið lak niður í almenninginn: "Ég hef víst orðið fyrir tjóni."

Morgunblaðið/Jón Sigurðsson RAGNAR Heiðar Sigtryggsson á Fremstagili hugar að marki á folaldi.

STÓÐIÐ rennur með taktföstum skrefum út Laxárdal á leið til réttar í Skrapatungu.