VERK eftir Clöru og Robert Schumann eru meðal þess sem er á efnisskrá einsöngstónleika systranna Signýjar Sæmundsdóttur sópransöngkonu og Þóru Fríðu Sæmundsdóttur píanóleikara í Hafnarborg annað kvöld, sunnudagskvöld.
SYSTURNAR FLYTJA

"RÓMANTÍSKT

OG FALLEGT"

VERK eftir Clöru og Robert Schumann eru meðal þess sem er á efnisskrá einsöngstónleika systranna Signýjar Sæmundsdóttur sópransöngkonu og Þóru Fríðu Sæmundsdóttur píanóleikara í Hafnarborg annað kvöld, sunnudagskvöld. Tónleikarnir eru þeir sjöttu í röðinni "Tónleikar á afmælisári," sem Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, stendur fyrir í tilefni af 90 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðar og 15 ára afmæli Hafnarborgar.

"Þetta eru dæmigerðir ljóðatónleikar, falleg og klassísk dagskrá," segir Signý aðspurð um efnisskrána. Rómantíkin svífur yfir vötnum í fyrri hluta tónleikanna, þar sem flutt verða verk eftir Clöru og Robert Schumann. Signý segir það mjög gaman að fá að flytja nokkur af lögum Clöru, þar sem þau séu ekki á efnisskrá á hverjum degi. Seinni hlutinn hefst með fjórum lögum eftir Arnold Shönberg, dæmigerðum síðrómantískum ljóðum frá byrjun þessarar aldar. Þegar hér er komið sögu tekur svo við frönsk tónlist, "glettin og skemmtileg lög eftir Erik Satie, textinn dálítið kómískur og nánast absúrd. Þá er ástarvals eftir Francis Poulenc og svo endum við á þremur ljóðum úr lagaflokki sem heitir Sumarnætur eftir Hector Berlioz," segir Signý.

Morgunblaðið/Ásdís SIGNÝ Sæmundsdóttir sópransöngkona og Þóra Fríða Sæmundsdóttir píanóleikari verða með einsöngstónleika í Hafnarborg á sunnudagskvöld.