FELLIBYLURINN Georg, sem hefur valdið dauða 288 manna, að minnsta kosti, á fimm daga ferð sinni um Karíbahaf, fór yfir syðsta hluta Flórída í gær en sneiddi að mestu hjá Miami og öðrum þéttbýlisstöðum á austurströndinni. Í Dómíníska lýðveldinu, á Haiti og Kúbu hefur hann skilið eftir sig slóð eyðileggingar og dauða og víða er öll uppskera ónýt.
Fellibylurinn Georg veldur eyðileggingu og dauða

Hundruð þúsunda á

flótta undan veðrinu

Miami. Reuters.

FELLIBYLURINN Georg, sem hefur valdið dauða 288 manna, að minnsta kosti, á fimm daga ferð sinni um Karíbahaf, fór yfir syðsta hluta Flórída í gær en sneiddi að mestu hjá Miami og öðrum þéttbýlisstöðum á austurströndinni. Í Dómíníska lýðveldinu, á Haiti og Kúbu hefur hann skilið eftir sig slóð eyðileggingar og dauða og víða er öll uppskera ónýt.

Fellibylurinn stefndi upp með vesturströnd Flórídaskaga og þar var 1,4 milljónum manna, sem búa í hjólhýsum, skipað að fara til öruggari staða, þar af 500.000 manns í Tampa-borg einni. Búist var við, að Georg færi í norðvestur inn á Mexíkóflóa þar sem vindstyrkurinn ykist enn og síðan inn yfir norðausturhluta Flórída, Alabama, Mississippi og Louisiana eftir rúman sólarhring.

Neyðarástand á Karíbahafseyjum

Georg olli gífurlegu tjóni er hann fór yfir Puerto Rico, Haiti og Kúbu en í Dómíníska lýðveldinu er ástandið eins og eftir stórstyrjöld. Yfirvöld þar sögðu í gær, að 134 menn, að minnsta kosti, hefðu týnt lífi og allt rafmagnskerfið í landinu var óvirkt. Talið er, að fárviðrið hafi eyðilagt allt 90% uppskerunnar og 100.000 manns a.m.k. misst heimili sín. Á Haiti var vitað um 87 dauðsföll og þar hafa 80-85% uppskerunnar farið forgörðum.

Er George kom inn yfir syðsta hluta Flórída í gær var hann í styrkleikaflokki 2 en óttast er, að hann eflist yfir hafinu og komist í 3. flokk en þá er vindhraðinn kominn upp undir 180 km á klukkustund. Fellibylurinn Andrés olli gífurlegu tjóni á Flórída 1992 og Donna olli þar dauða 50 manna 1960. Einn sá öflugasti, sem vitað er um, fór þar yfir 1935 en þá fórust 400 manns.



Hefur kostað/28 Reuters MIAMIBÚAR sluppu með skrekkinn í gær er fellibylurinn Georg kom inn yfir Florida því að hann fór upp með vesturströndinni. Voru hundruð þúsunda manna flutt burt, aðallega fólk, sem býr í hjólhýsum.