SIGHVATUR Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, gagnrýndi Davíð Oddsson forsætisráðherra harðlega í setningarræðu sinni á 49. flokksþingi Alþýðuflokksins sem hófst á Grand Hótel í Reykjavík síðdegis í gær. Sagði Sighvatur að Davíð, sem væri helsti talsmaður andstæðinga samfylkingar jafnaðarmanna, hefði svarað sameiningarsinnum með hroka, útúrsnúningi og dramblæti.
Sighvatur Björgvinsson setur 49. flokksþing Alþýðuflokksins

Forsætisráðherra harðlega

gagnrýndur í setningarræðu

SIGHVATUR Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, gagnrýndi Davíð Oddsson forsætisráðherra harðlega í setningarræðu sinni á 49. flokksþingi Alþýðuflokksins sem hófst á Grand Hótel í Reykjavík síðdegis í gær. Sagði Sighvatur að Davíð, sem væri helsti talsmaður andstæðinga samfylkingar jafnaðarmanna, hefði svarað sameiningarsinnum með hroka, útúrsnúningi og dramblæti. Og enn fremur með því að gera lítið úr fólki og tala niður til þess. "Þannig brást hann við eftir sigur R-listans í borgarstjórnarkosningunum í vor. Þannig brást hann við gagnvart fréttamönnum ríkisfjölmiðla. Þannig brást hann við gagnvart læknum og heilbrigðisstarfsfólki, sem hafði aðrar skoðanir á gagnagrunnsfrumvarpinu en hann sjálfur. Og þannig bregst hann líka við gagnvart okkur. Við það tækifæri svaraði hann okkur m.a. með því að segja, að amma hans hafi varað hann við að kaupa þunnildi þegar hún sendi hann út í fiskbúð. Amma mín varaði mig hins vegar við fólki sem gefur vísvitandi rangt til baka. Þannig hafa viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins verið gagnvart okkur og öðru fólki. Hann gefur vísvitandi rangt til baka," sagði Sighvatur.

Síðar fjallaði Sighvatur um að jafnaðarmönnum hefði miðað vel í baráttu sinni sl. tvö ár fyrir samfylkingu jafnaðarmanna og að ákvörðun hefði verið tekin um að stefna að sameiginlegu framboði á grunni jafnaðarstefnu, félagshyggju og kvenfrelsis við Alþingiskosningarnar innan fárra mánaða. "Ég tel að okkur hafi miðað það langt fram á þann veg, að ekki verði aftur snúið," sagði hann.

Þá fjallaði hann einnig um yfirskrift þingsins, "Auðlindastefna í almannaþágu" og sagði m.a. við það tækifæri að átökin um auðlindir Íslands mynduðu nú skörp skil í stjórnmálum, milli Sjálfstæðisflokksins, sem væri málsvari sérhagsmunaaflanna gegn hagsmunum almennings, og jafnaðarmanna, sem mætu almannaheill framar sérhagsmunum.

Vilji fyrir opnu prófkjöri

Eftir stefnuræðu Sighvats tóku við pallborðsumræður undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar alþingismanns. Þátttakendur voru Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Þjóðvaka, Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Alþýðubandalags, Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, Þráinn Hallgrímsson, skrifstofustjóri Dagsbrúnar, og Hulda Ólafsdóttir fulltrúi Samtaka um kvennalista. Í umræðunum kom m.a. fram vilji til þess að velja á lista sameiginlegs framboðs með opnu prófkjöri, hugsanlega þó með einhverjum takmörkunum. Hulda hafði einna helst efasemdir um "galopið prófkjör" eins og hún orðaði það og benti á að þær aðferðir hefðu hingað til komið illa út fyrir konur. Svanur vildi hins vegar að haft yrði opið prófkjör með þeim takmörkunum þó að tryggt yrði að konur fengju helming sætanna á framboðslistunum.

Morgunblaðið/Kristinn

SIGHVATUR Björgvinsson formaður Alþýðuflokksins var mjög harðorður í garð Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í ræðu sinni við upphaf 49. flokksþings Alþýðuflokksins í gær. Hér ræðir hann við Hólmfríði Sveinsdóttur.