VÍÐA um land er slátrun sauðfjár komin í fullan gang. Á heimilinum fara þeir hagsýnu að huga að hálftómum frystikistum og ómissandi þætti í haustverkunum, að taka slátur. Neytendur víða um land hafa hins vegar tekið eftir því að ekki er alls staðar hægt að fá hefðbundnar vambir með slátrinu, en þeirra í stað eru komnar gervivambir. Hjá sláturhúsi Þríhyrnings hf.
Ekki hægt að fá vambir utan um slátrið VÍÐA um land er slátrun sauðfjár komin í fullan gang. Á heimilinum fara þeir hagsýnu að huga að hálftómum frystikistum og ómissandi þætti í haustverkunum, að taka slátur. Neytendur víða um land hafa hins vegar tekið eftir því að ekki er alls staðar hægt að fá hefðbundnar vambir með slátrinu, en þeirra í stað eru komnar gervivambir. Hjá sláturhúsi Þríhyrnings hf. í Þykkvabæ hófst slátursalan sl. mánudag, en að sögn Torfa Jónssonar sláturhússtjóra, hefur gengið óvenju illa að manna húsið í ár. "Við erum venjulega með um fimmtíu manns hjá okkur í sláturtíðinni, en núna eru þetta um 35-40 manns með bílstjórum og aðstoðarmönnum þeirra, þannig að húsið er verulega undirmannað. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessum vanda sem við eigum við að etja, ásamt flestum öðrum sláturhúsum á landinu. M.a. má nefna að fólki fækkar heima á bæjunum, býlin eru orðin stærri og meira að gera fyrir færri hendur, þannig að sveitafólkið skilar sér ekki til okkar eins og áður. Aðrir eru í vinnu, enda ekkert atvinnuleysi, a.m.k. geta allir fengið vinnu sem á annað borð vilja vinna. Slátrið í gervivambir Afleiðing þessa skorts á vinnuafli er að ýmsum innmat sem til fellur í sláturhúsinu er hent. Þar á meðal eru vambirnar, sem ekki er hægt að hreinsa, en venjulega hafa tveir til þrír starfsmenn verið við það. "Við verðum að bregðast við breyttum tímum og laga okkur að aðstæðum og við leysum þetta með vömbum sem unnar eru úr náttúrulegu efni, svokölluðu fibros, en það er notað utan um pylsur, bjúgu og alls konar kjötbúðinga sem eru á borðum okkar alla daga. Það er það sama að gerast í þessu eins og gerðist fyrir um 10­15 árum með hrossabjúgun, það komu gervigarnir í stað hrossagarnanna sem verið var að verka með ærinni fyrirhöfn, en nú dytti engum í hug að skipta. Þá má nefna að mikill tímasparnaður er að fá tilbúnar vambir sem aðeins á eftir að sauma fyrir, auk þess sem mörgum þykir eflaust gott að vera laus við lyktina sem fylgir meðhöndlun vambanna. Morgunblaðið/Aðalheiður Högnadóttir

FRÁ sláturhúsinu í Þykkvabæ, Sigríður Heiðmundsdóttir og Ásgerður Sigurðardóttir standa í ströngu við pökkun og frágang á slátri með nýju gervivömbunum í kassa til neytenda.