RÚSSNESKA stjórnin hefur tilkynnt að hún muni aftur koma á einokun á framleiðslu og sölu á sterku áfengi, bæði af félagslegri og efnahagslegri nauðsyn. Barátta stjórnvalda gegn ólöglega framleiddu áfengi mun gefa mikið í aðra hönd.
Einokun á áfengi í Rússlandi á ný

Moskvu. Reuters.

RÚSSNESKA stjórnin hefur tilkynnt að hún muni aftur koma á einokun á framleiðslu og sölu á sterku áfengi, bæði af félagslegri og efnahagslegri nauðsyn.

Barátta stjórnvalda gegn ólöglega framleiddu áfengi mun gefa mikið í aðra hönd. Í fyrra drukku Rússar 2,15 milljarða lítra af sterku áfengi ­ aðallega vodka ­ en aðeins 860 milljónir lítra voru framleiddar með löglegum hætti eða fluttir inn á löglegan hátt.

"Það táknar að rúmlega 1,2 milljarðar lítra eru framleiddir ólöglega. Rúmlega 30 milljörðum rúblna (1,9 milljörðum dollara) hefur verið stolið frá ríkinu vegna þess að þetta magn var ekki framleitt á löglegan hátt," sagði Gennady Kuli varalandbúnaðaráðherra.

Gífurleg tekjulind "Þetta getur verið gífurleg tekjulind, ein af þeim fáu sem eru öruggar í Rússlandi," sagði smásölusérfræðingur MFK Renaissance, Kim Iskyan. "Stjórnin vill fá mjólkurkú sína aftur, nokkrum árum eftir að hún fórnaði henni af fúsum og frjálsum vilja."

Samkvæmt nýrri áætlun Evgenis Primakovs forsætisráðherra mun stjórnin fá ráðandi hlut í fyrirtækjum, sem framleiða drykki með meira en 28% alkóhólinnihaldi. Takmarkaður fjöldi fyrirtækja fær leyfi til að framleiða áfengi. Rúmlega 800 slík fyrirtæki starfa nú í Rússlandi.

Auk þess munu stjórnvöld herða eftirlit með sölu og framleiðslu veikara áfengis eins og bjórs og léttra vína.

Sérfræðingar segja að enn sé ekki ljóst hve mikið vald stjórnin muni hafa yfir áfengisframleiðendum.

"Ef meginmarkmiðið er að auka tekjur ríkisins verða þeir sem eru yfir verksmiðjunum líklega látnir um að stjórna þeim. Einkafyrirtæki ganga betur en ríkisfyrirtæki," sagði Iskyan.

Ekki eru allir vissir um þetta og benda á að tilraunir ríksstjórnarinnar til að ráða yfir áfengisiðnaðinum séu líklegar til að mistakast eins og fyrri tilraunir hafi þegar gert nokkrum sinnum á þessari öld.