SALA á nýjum geisladiski til styrktar vangefnum hefst um helgina, en á honum koma saman yfir 70 listamenn, sem allir hafa gefið vinnu sína vegna styrktarátaks, sem ber upp á 40 ára afmæli Styrktarfélags vangefinna. Í kvöld, laugardagskvöld, kl. 22 verður síðan haldinn dansleikur í Súlnasal Hótel Sögu þar sem flestallir listamennirnir kynna tónlistina á útgáfutónleikum.
Tónlistarmenn leggja vangefnum lið

SALA á nýjum geisladiski til styrktar vangefnum hefst um helgina, en á honum koma saman yfir 70 listamenn, sem allir hafa gefið vinnu sína vegna styrktarátaks, sem ber upp á 40 ára afmæli Styrktarfélags vangefinna. Í kvöld, laugardagskvöld, kl. 22 verður síðan haldinn dansleikur í Súlnasal Hótel Sögu þar sem flestallir listamennirnir kynna tónlistina á útgáfutónleikum.

Ágóðinn til sjúkra- og iðjuþjálfunar

Titill disksins, sem hefur að geyma fjórtán íslensk og erlend lög, er Maður lifandi og færir vangefnum styrk, von og starf að sögn André Bachmanns tónlistarmanns, sem átti hugmyndina að útgáfunni. Ágóðinn af sölu disksins fer til kaupa á tækjum til sjúkra- og iðjuþjálfunar fyrir vangefna vítt og breitt um landið. André segir að það sem standi á bak við styrk, von og starf sé styrkur til að efla vangefna, von um betra líf þeirra og starf til að vangefnir geti verið til eins og aðrir í samfélaginu, þrátt fyrir fötlun sína. André segir að tími hafi verið til kominn að gefa málefnum vangefinna meiri gaum og fram að þessu hafi vonir hans ekki brugðist og vonar hann jafnframt að landsmenn muni bregðast jafn vel við og þeir fjölmörgu tónlistarmenn sem lögðu málefninu lið.

Hefur mætt góðum skilningi

Hugmyndina að styrktarátakinu segist André hafa fengið er hann lá óvinnufær heima hjá sér eftir bílslys í fyrra. Hann hefur starfað í sjálboðavinnu fyrir Styrktarfélag vangefinna og staðið fyrir jólaballi á Hótel Sögu síðastliðin tvö ár og segist hafa mætt góðum skilningi hjá þeim sem hann hafi leitað til vegna stuðnings við Styrktarfélagið, bæði vegna jólaballanna og disksins. Fljótlega eftir að André hugkvæmdist að ráðast í útgáfuna kynnti hann hugmyndina Styrktarfélaginu og í kjölfarið var stofnuð framkvæmdanefnd. Í henni áttu sæti André Bachmann, Árni Scheving tónlistarmaður, Þorgeir Ástvaldsson útvarpsmaður ásamt Hafliða Hjartarsyni formanni Styrktarfélags vangefinna og Kristjáni Sigurmundssyni framkvæmdastjóra þess.

"Við tókum þá ákvörðun að semja við Þóri Baldursson tónlistarmann um að útsetja lögin á diskinum, annast hljómsveitarstjórn og stjórna upptökum," segir André. "Eftir að hann var kominn til sögunnar fór hugmyndin að fá á sig raunveruleikablæ því hann fór að útsetja um leið og söngvararnir voru valdir af framkvæmdanefndinni. Skemmst er frá að segja að söngvararnir, sem alls eru um 40, tóku með eindæmum vel í að leggja vangefnum lið." Meðal flytjenda eru Álftagerðisbræður, Stefán Hilmarsson, Hljómsveitin Casino og Páll Óskar, Móeiður Júníusdóttir, Ómar Ragnarsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir og KK. Björgunarsveitir dreifa diskinum víða um land. Framhaldsskólanemar munu ennfremur ganga í hús á höfuðborgarsvæðinu og selja diskinn. Markmiðið er að gefa diskinn út í 15­20 þúsund eintökum og fyrstu eintökin eru þegar komin til landsins. "Lögin á diskinum eru heimilisvæn og útvarpsvæn og henta öllum aldurshópum, jafnt unglingum sem öfum og ömmum og öllum þar á milli."

Brýnt að finna nýja tekjustofna

Styrktarfélag vangefinna er líknarfélag sem rekið er á fjárlögum og á aðild að Landssamtökunum þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu. Um 200 manns vinna hjá Styrktarfélaginu og segir Kristján Sigurmundsson framkvæmdastjóri að þjónustan sem veitt sé um 250 skjólstæðingum Styrktarfélagsins sé meiri en Styrktarfélagið fær greitt fyrir frá ríkinu. Því þurfi nokkurt sjálfsaflafé að koma til og á síðustu árum hafi fastir tekjustofnar rýrnað með vaxandi samkeppni annarra félaga og stofnana.

"Það er alltaf aukin samkeppni á þessum markaði, sérstaklega í sölu jólakorta og rekstri happdrætta, sem Styrktarfélagið hafði miklar tekjur af hér áður fyrr," segir Kristján. "Þegar tekjur af rótgrónum tekjustofnum taka að minnka er mjög mikilvægt fyrir starfsemi okkar félags að fá gróskumikla hugmynd og framtakssama menn sem eru tilbúnir að leggja okkur lið. Með plötuútgáfunni nú er ekki verið að höfða eingöngu til framlags fólks heldur fær það eitthvað fyrir sinn snúð og það held ég að sé tímanna tákn. Samtök sem okkar þurfa að vera í stöðugri leit að nýjum fjáröflunarleiðum." Með þessum orðum á Kristján þó ekki við að Styrktarfélagið stökkvi á hvað sem er sem gæti orðið að gulli, því öll ævintýramennska á sviði fjáröflunar fyrir líknarfélög sé afar varhugaverð.

"Við erum að treysta á stuðning almennings og svona líknarfélög mega ekki við því að lenda í vafasömum hlutum því þá er orðsporið fljótt að falla. Styrktarfélagið hefur starfað farsællega í 40 ár og aldrei lent í neinu misjöfnu við fjáröflun. Það hefur ennfremur notið trausts almennings og okkur er mjög annt um að varðveita það traust."

Morgunblaðið/Kristinn ÞEIR André Bachmann og Kristján Sigurmundsson lofa landsmönnum ósvikinni gleði á nýja hljómdisknum Maður lifandi.

SIGRÚN Hjálmtýsdóttir og Ómar Ragnarsson eru meðal flytjenda á diskinum.