ÞÝZKU stjórnmálaflokkarnir settu í gærkvöldi endapunktinn á kosningabaráttuna fyrir Sambandsþingskosningarnar á morgun með fjöldafundum undir berum himni í nokkrum helztu borgum Þýzkalands. Helmut Kohl kanzlari ávarpaði fimmtán þúsund manns á dómkirkjutorginu í Mainz og um átta þúsund manns hlýddu á Gerhard Schröder, kanzlaraefni Jafnaðarmannaflokksins SPD, í Berlín.
Þýzku stjórnmálaflokkarnir ljúka kosningabaráttunni

Kohl og Schröder

segjast sigurvissir Morgunblaðið. Mainz. ÞÝZKU stjórnmálaflokkarnir settu í gærkvöldi endapunktinn á kosningabaráttuna fyrir Sambandsþingskosningarnar á morgun með fjöldafundum undir berum himni í nokkrum helztu borgum Þýzkalands. Helmut Kohl kanzlari ávarpaði fimmtán þúsund manns á dómkirkjutorginu í Mainz og um átta þúsund manns hlýddu á Gerhard Schröder, kanzlaraefni Jafnaðarmannaflokksins SPD, í Berlín.

Kohl lagði í málflutningi sínum ítrekaða áherzlu á að kosningarnar snerust að þessu sinni um að ákvarða hvaða stefnu landið fylgdi inn í hið nýja árþúsund. Valkostirnir væru hin "svart-rauð-gullna" Kristilegra demókrata (CDU) og Frjálsra demókrata (FDP), sem Kohl hefur farið fyrir undanfarin sextán ár, eða "rauð-græn" stjórn jafnaðarmanna og græningja. Síðarnefndi valkosturinn væri skelfilegur, þar sem þeim mönnum úr hópi SPD og græningja, sem til stæði að yrðu ráðherrar ef þessir flokkar kæmust í aðstöðu til að mynda ríkisstjórn, væri ekki treystandi til að veita landinu ábyrgðarfulla forystu.

Nýtt og ferskt gegn gömlu og þreyttu Schröder gagnrýndi í sínu máli stjórnarferil Kohls harkalega. "Valið stendur á milli ferskrar stjórnar með nýjar hugmyndir og þreyttrar gamallar stjórnar sem stendur fyrir stöðnun," sagði hann. Hátt hlutfall óákveðinna kjósenda veldur því að mjög erfitt er að spá fyrir um úrslitin en óljóst er hvort hægt verði að mynda stjórn öðru vísi en með samstarfi stóru flokkanna tveggja, CDU og SPD, þar sem fylgi litlu flokkanna hefur mælzt svo lítið.