STEFÁN Yngvason, yfirlæknir á Kristnesi, hefur fengið ársleyfi frá störfum og tekið við nýrri stöðu á Grensásdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hjörtur Oddsson, hjartasérfræðingur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, hefur nýlega látið af störfum og þá hefur Nick Cariglia, sérfræðingur í lyflækningum og meltingafæralækningum,
Hræringar meðal lækna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri Fara í leyfi og segja upp

STEFÁN Yngvason, yfirlæknir á Kristnesi, hefur fengið ársleyfi frá störfum og tekið við nýrri stöðu á Grensásdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hjörtur Oddsson, hjartasérfræðingur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, hefur nýlega látið af störfum og þá hefur Nick Cariglia, sérfræðingur í lyflækningum og meltingafæralækningum, sagt stöðu sinni á FSA lausri og lætur af störfum í lok október að óbreyttu.

Magnús Stefánsson, yfirlæknir barnadeildar og formaður læknaráðs FSA, sagði ekki hægt að tala um flótta frá stofnuninni en hins vegar ættu sér stað hræringar í húsinu. "Menn eru að hugsa sér til hreyfings og þar liggja að baki fleiri en ein og fleiri en tvær ástæður."

Leitað leiða til að halda í Nick

Magnús sagði að þótt Nick væri búinn að segja upp kæmi vonandi ekki til þess að hann hætti. Hann sagði unnið að því að leita leiða til að halda í Nick og í raun hefði sú vinna verið hafin áður en hann sagði upp. Magnús sagði að staða hjartalæknis yrði auglýst aftur þar sem Hjörtur Oddsson hefur látið af störfum. "Það virðist vanta menn með þá hjartalæknismenntun sem okkur vantar hér, þar sem hátæknin er orðin svo mikil. En það hefst á endanum að manna þessa stöðu."

Magnús sagði að Stefán Yngvason, endurhæfingarlæknir og yfirlækni á Kristnesi, hefði verið valinn til að takast á við nýja og mjög spennandi stöðu á Grensásdeild. Hann hefur því fengið ársleyfi, alla vega til að byrja með. Í stöðu yfirlæknis á Kristnesi var ráðinn Páll Helgason sem einnig er endurhæfingarlæknir. Þá hefur einn af bæklunarlæknum FSA sótt um stöðu í Reykjavík að sögn Magnúsar en sá hinn sami sótti einnig um nýja yfirlæknisstöðu á slysadeild FSA og því ekki ljóst á þessari stundu hvort og þá hvenær hann fer.

Erfiðar vaktir

Magnús sagði að unnið hefði verið að því að fjölga sérfræðingum við sjúkrahúsið en stofnunin hefði ekkert úr allt of miklum peningum að moða í því augnamiði. "En það má segja að hér séu hræringar og kannski meiri í ár en um tíma en ekkert meiri en fyrir um 5 árum og þetta virðist koma í bylgjum.

Því er þó ekki að neita að hér er mikil þyngd í dagvinnu og á vöktum og vaktir á FSA eru þrisvar sinnum þéttari hér á sumum deildum en á stóru sjúkrahúsunum tveimur í Reykjavík. Og þegar menn eldast leita þeir á önnur mið til að geta átt rólegri efri ár."