Leitaðu hans í skóginum skammt frá veginum í djúpu gontunni hjá dýjalindinni; þar vex hann, mosinn mjúki og svali, sem stillir þrá og stöðvar ekka, græðir og huggar í sinni grænu mildi.


ÞORSTEINN VALDIMARSSON

DÝJAMOSI

Leitaðu hans í skóginum

skammt frá veginum

í djúpu gontunni

hjá dýjalindinni;

þar vex hann, mosinn

mjúki og svali,

sem stillir þrá

og stöðvar ekka,

græðir og huggar

í sinni grænu mildi.



Og þú krýpur innan stundar

í kyrrð og ró

dýpst í hinum skuggsæla

skógarleyningi

við altari, gjört

af ókunnri hendi ­

gljúpt, svalt

og glitrandi flos,

lífsangan vatnsúðans

frá lindarkerinu,

návist mildinnar,

mýkt, fró

og tær ljóminn

sem leikur um þig.



Síðan snýrðu aftur

hina sömu leið;

en sársauka dagsins,

beiskju og þunga

læturðu eftir, umbreytt

í altarisljómanum ­

óþekkjanleg

frá grænni dögginni.

Þorsteinn Valdimarsson, 1918-1977, var upprunninn úr Vopnafirði en átti lengst af heima í Reykjavík og Kópavogi. Fyrsta kvæðabók hans kom út 1942 og geymir nýrómantísk náttúrukvæði, en í seinni bókum hans yrkir hann um félagslegt óréttlæti og andúð á hernaði. Þorsteinn var limruskáld og átti verulegan þátt í að kynna limruna sem ljóðform hér á landi.