Hljóður streymir hugans leikur, hefur keim af fornum siði, þar sem ríkir kóngur keikur kringdur hirð og búandliði. Villir um og brögðum beitir, býst að egna gildru snjalla. Ekki samt af varúð veitir vilj'ann ekki sjálfur falla. Byrjunin er báðum vandi. Baklandið hinn æfði greinir, svo að ekki síðar strandi samspilið, er mest á reynir.


ÁRNI GRÉTAR FINNSSON

MANNTAFL

Hljóður streymir hugans leikur,

hefur keim af fornum siði,

þar sem ríkir kóngur keikur

kringdur hirð og búandliði.

Villir um og brögðum beitir,

býst að egna gildru snjalla.

Ekki samt af varúð veitir

vilj'ann ekki sjálfur falla.



Byrjunin er báðum vandi.

Baklandið hinn æfði greinir,

svo að ekki síðar strandi

samspilið, er mest á reynir.

Leikjaraðir tíðum tamar

teflast fram af þekktum grunni.

Sá komst oftast feti framar

fræðin, sem að betur kunni.



Leiftursókn er létttæk stundum,

ljúka skák með engum griðum.

Vert er þó að vel við grundum

vörnina frá báðum hliðum.

Tíðum þæfist taflsins staða,

tækifærin óvænt glatast.

Bregðist sóknin sigurglaða,

sóknarhernum öllum fatast.



Margslungin er miðborðsrimman,

magnast spenna fylkinganna;

undirbúa atgang grimman,

alla veika reiti kanna.

Fátt er oft um fína drætti.

Fingurbrjótar leynast víða.

Vinnur þá, sem þessa gætti,

þolinmóður færis bíða.



Endatafl í einfaldleika

er þó leiksins mesti galdur.

Hér má ekki hársbreidd skeika,

hugur reynast skýr og kaldur.

Hirðmannanna fallnir flokkar,

fáir lifa kóngsins bræður,

líkt og oft í lífi okkar

lítið peð sem sigri ræður.

Höfundurinn er lögmaður í Hafnarfirði.