Víst hef ég gengið veginn um vonlausa nótt, hlustað á þögnina þjást og iðjagrænt engið kvíða kolbláum ljánum. Með hjartað fullt af falinni ást þegar andvarinn bar með sér óttann frá gömlu trjánum. Nú skil ég fyrst hve skammt er til sólarlags þó skíni morgunroði á hæstu tinda og ást sem brann svo óraheit var aðeins mánablinda.


ÁSGEIR JÓN

JÓHANNSSON

MÁNABLINDA

Víst hef ég gengið veginn

um vonlausa nótt,

hlustað á þögnina þjást

og iðjagrænt engið

kvíða kolbláum ljánum.

Með hjartað fullt af falinni ást

þegar andvarinn bar með sér óttann

frá gömlu trjánum.



Nú skil ég fyrst hve skammt er til sólarlags

þó skíni morgunroði á hæstu tinda

og ást sem brann svo óraheit

var aðeins mánablinda.



Æskudraumar

Þeir vorbjörtu draumar

sem vonþyrsta æskuna dreymdi

veittu hjörtunum þrek

gegnum gleði og sorgir,

gáfu kjark til að lifa

í lognmollu dagsins

og líta í hyllingum

fegurstu álfa borgir.



En dagarnir liðu

og draumarnir runnu í sandinn,

döpur stóðum við tvö

á eggþynnu blaðsins

sem risti iljar

í ógáti ferða lagsins.

Örvita börn

í hringiðu morgundagsins.

Höfundurinn er eftirlaunaþegi í Hafnarfirði. Fyrra ljóðið, Mánablinda, hlaut 1. verðlaun í ljóðasamkeppni á ári aldraðra í Evrópu 1993.