SVO HEFUR vitur maður sagt, að sannleikurinn sé ekki í bókum og auk heldur ekki í góðum bókum. Víst er um það, að seint höndla menn allan sannleikann, enda skilst mér að enn sé jafnvel vafi á því hvað sannleikur sé. Í manntölum og kirkjubókum, sem eru grunnheimildir íslenskra nafnarannsókna frá síðari öldum, koma fyrir skekkjur, og sumt hefur fallið niður.
Íslenskt mál

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

972. þáttur

SVO HEFUR vitur maður sagt, að sannleikurinn sé ekki í bókum og auk heldur ekki í góðum bókum. Víst er um það, að seint höndla menn allan sannleikann, enda skilst mér að enn sé jafnvel vafi á því hvað sannleikur sé.

Í manntölum og kirkjubókum, sem eru grunnheimildir íslenskra nafnarannsókna frá síðari öldum, koma fyrir skekkjur, og sumt hefur fallið niður. Meðal rannsakenda á þessu sviði nefni ég með sérstakri virðingu próf. Björn Magnússon. Hann vann geysihagleg verk úr manntölunum 1801 og 1845. En alltaf er hægt um að bæta, og hér fer á eftir bréf frá Torfa Guðbrandssyni í Reykjavík sem ég birti með ánægju og þakklæti:

"Hr. Gísli Jónsson.

Í þættinum [968] er vitnað í Árbók Þingeyinga 1994, þar sem verið var að ræða um sjaldgæft kvenmannsnafn: "Ekki átti næsta nafn langlífi að fagna, sem kannski er eðlilegt. Óvída eða Ovída eða jafnvel Ovídá hét ein stúlka á Íslandi 1845, þingeysk: Ovída Jónasdóttir 11 ára í Hvammi í Höfðahverfi ..."

Af þessari tilvitnun má ætla, að aðeins ein stúlka á Íslandi hafi borið þetta einkennilega nafn árið 1845. Því skal hér með upplýst að langamma bréfritara bar nafnið Ovídá og var Arnfinnsdóttir. Ovídá var oftar nefnd Ovidía í kirkjubókum og er hún talin fædd árið 1809 í Furufirði á Hornströndum. Foreldrar hennar voru hjónin Arnfinnur Jónsson bóndi þar og Guðrún Jónsdóttir frá Tröð í Álftafirði. Ovídá átti þrjú systkini, eitt þeirra var Guðrún seinni kona Gísla Konráðssonar sagnaritara. Ovídá giftist aldrei og er jafnan skráð vinnukona í kirkjubókum. Með Gísla Bjarnasyni í Ármúla eignast hún árið 1838 soninn Jens Jakob, sem líklega hefur orðið skammlífur. En tíu árum seinna elur hún telpu er hlaut nafnið Matthildur, sem síðar varð merk húsfreyja á Smáhömrum í Strandasýslu og dó 102 ára. Faðir Matthildar var unglingspiltur, Benedikt að nafni Jónsson Ormssonar frá Kleifum í Gilsfirði, er síðar varð héraðshöfðingi og bóndi á Kirkjubóli í Tungusveit. Foreldrar Matthildar höfðu verið samtímis í Bæjum á Snæfjallaströnd um nokkurra ára skeið og þar fæddist þetta barn þeirra. En hjónaband kom aldrei til greina, enda var aldursmunur þeirra mikill, því að Ovídá var komin hátt á fertugsaldur.

Þar sem ég undirritaður á tilveru mína að vissu leyti henni Ovídá Arnfinnsdóttur að þakka vil ég ekki láta hjá líða að minna á, að þær voru að minnsta kosti tvær konurnar, sem báru þetta óvenjulega nafn árið 1845.

Með bestu kveðjum og þökk fyrir þættina."

Félagi minn hefur beðið mig að skrifa um orðið sund , og tek ég þann kost að fara að mestu leyti eftir 15 ára gömlum þætti um það efni:

Við stærum okkur oft af því, Íslendingar, að við varðveitum betur fornan málarf en grannar okkar í heiminum. En undantekningar eru í þessu efni sem löngum endranær. Þjóðverjar hafa sögnina schwimmen , Danir svömme , Englendingar swim og Færeyingar svimja . En hvernig höfum við farið að?

Við höfum gloprað niður þremur sögnum sem hafðar voru um þessa íþrótt: svimma , svima og symja . Hin fyrsta þessara sagna mun hafa beygst eftir 3. hljóðskiptaröð, þ.e. svimma, svamm, summum, summið . Svima beygðist eftir 4. röð: svima, svam, svámum, sumið . Hér er athugandi að í fornöld hafði v-hljóð þá áráttu að hverfa með öllu, ef því var áskapað að lenda næst á undan varamynduðum (kringdum) sérhljóðum (o, ó, u, ú). Sögnin symja lítur út fyrir að hafa beygst veikt. Í stað allra þessara er svo komin sögnin að synda , og er hún reyndar gömul í máli okkar. Nú vakna ýmsar spurningar um uppruna og skyldleika.

Ég gæti hugsað mér að nafnorðið sund væri orðið til úr sumd , og væri sú orðmynd náskyld fjórðu kennimynd af svima. Þess eru nokkur dæmi að md breytist í nd . M-ið líkist dé-inu að því leyti að breytast úr varahljóði í tannhljóð, svo sem dé-ið er. Þetta kallast á máli fræðanna ófullkomin samlögun (tillíking). Hliðstæður eru samkumda sem verður samkunda og framburðarmyndin kondu fyrir komdu . Hér finnst mér guði þakkandi fyrir að ekki varð fullkomin samlögun, því þá hefði sund breyst í sudd . Það er of suddalegt fyrir minn smekk. Í Lappamáli í Noregi kemur fyrir þess konar mynd með tveimur dé-um.

Um upprunann þykir mér trúlegast að orðið feli í sér einhverja hreyfingu og jafnvel hljóðlíkingu. Þetta ætti að vera skylt sögninni að svamla , og heilmikinn buslugang kenni ég í gegnum gotneska orðið swumsl, sem mér var kennt að þýddi sundpollur.

Ekki er allt "sund" sú athöfn að synda. Fyrir kemur t.d. sund í merkingunni millibil. Í Grettis sögu segir, þá er söguhetjan elti nafna minn Þorsteinsson: "Fór Grettir aldri harðara eftir en sund var í milli þeirra." Óvíst er hvort orðið sund í þessari merkingu og annarri svipaðri sé af sama stofni og það sund sem fyrr var ritað um. Sund, sama sem millibil, væri líklega rétt að tengja atviksorðinu sundur , og má þetta svo sem allt vera skylt í ættir fram. Ég ímynda mér t.d. að ópersónulega sögnin að svima (mig svimar) sé skyld þessu. Einhver hreyfing er í þessum orðum, eins og svími (svimi), sveima, svífa, svíkja, sveigja og sveipa . Í þessum hópi standa sérhljóðin í fyrstu hljóðskiptaröð, og v-ið helst, af því að sérhljóðin, sem koma næst á eftir því, eru ókringd (gleið).

Hlymrekur handan kvað (a la Jónas Árnason):



Frú Lísibet leit út um gluggann,

og það angaði af henni fuggan;

þar lá Finnur í Þúfu

grátandi á grúfu.

"Alveg gaga að ég nenni að hugg 'ann."



Auk þess fær Jón Ársæll Þórðarson stig fyrir "fimm stjarna bíómynd". Of oft hef ég heyrt fimm "stjörnu" mynd eða fimm "stjörnu" hótel. Já, og Karl Garðarsson annað stig fyrir að líta á veðrið , en ekki "kíkja" á það.