MISMUNANDI viðhorf ríkja í Evrópu til sjávarútvegsmála kom skýrt fram í umræðum á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í fyrradag. Þar var samþykkt tillaga portúgalsks þingmanns um að ekki mætti skera niður kvóta nema á móti kæmu félagslegir styrkir til sjómanna og eftir atvikum bætur til útgerðarmanna. Breytingartillaga Tómasar Inga Olrich alþingismanns var hins vegar felld naumlega.
RÍKISSTYRKIR Í SJÁVARÚTVEGI

MISMUNANDI viðhorf ríkja í Evrópu til sjávarútvegsmála kom skýrt fram í umræðum á þingi Evrópuráðsins í Strassborg í fyrradag. Þar var samþykkt tillaga portúgalsks þingmanns um að ekki mætti skera niður kvóta nema á móti kæmu félagslegir styrkir til sjómanna og eftir atvikum bætur til útgerðarmanna. Breytingartillaga Tómasar Inga Olrich alþingismanns var hins vegar felld naumlega.

Tómas Ingi Olrich benti réttilega á í umræðunum að niðurgreiðslur og styrkir væru vísasti vegurinn til að drepa blómlegan sjávarútveg. Þetta sjónarmið hefur hins vegar mætt litlum skilningi á vestanverðu meginlandi Evrópu. Þar er sjávarútvegurinn gjarnan í sömu skúffu og landbúnaðurinn; atvinnugrein, sem er niðurgreidd og ríkisstyrkt fremur til að varðveita ákveðna lífshætti en til að efla atvinnulífið. Sú er t.d. ein meginástæðan fyrir því að Íslendingar eiga bágt með að sætta sig við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Annað dæmi um þennan skoðanamun Íslendinga og meginlandsbúa mátti sjá fyrr í vikunni, þegar fundur Farmanna- og fiskimannasambandsins lagði til niðurskurð rækjukvótans vegna slæms ástands stofnsins ­ án þess að krefjast bóta fyrir. Í ríkjum ESB reka samtök sjómanna yfirleitt upp ramakvein þegar kvóti er minnkaður og fara ýmist fram á að kvótinn verði hækkaður aftur eða þeim borgaðar bætur og styrkir. Sá skilningur, sem íslenzkir sjómenn hafa öðlazt á að skynsamleg veiði úr stofnunum tryggir afkomu þeirra til lengri tíma, er víðsfjarri starfssystkinum þeirra víða í ríkjum meginlandsins.

Ýmislegt bendir hins vegar til, að þessi ríkisstyrkjastefna sé á undanhaldi. Í fyrsta lagi fer aðhald í ríkisfjármálum vaxandi í ríkjum Evrópu, ekki sízt vegna þeirra skilyrða, sem sett eru fyrir aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Í öðru lagi er sennilegt að vegna aðildar Austur-Evrópuríkja að Evrópusambandinu neyðist núverandi ríki sambandsins til að draga úr styrkjum til landbúnaðar, vegna þess að eitt verður yfir alla að ganga í þeim efnum og alltof dýrt yrði að framkvæma núverandi landbúnaðarstefnu ESB í nýju aðildarríkjunum. Líklegt má telja að þetta hafi einnig áhrif á ríkisstyrki til sjávarútvegs.

Loks hafa Íslendingar eignazt nýja bandamenn í þessari umræðu, þótt sumum kunni að þykja þeir koma úr óvæntri átt. Öflug umhverfisverndarsamtök hafa nú hafið baráttu gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og halda því fram, með réttu, að slík stefna leiði alltaf á endanum til of mikillar afkastagetu flota og fiskvinnsluhúsa og þar af leiðandi til ofveiði. Krafa þeirra, sem vilja taka upp umhverfismerkingar á fiski, er til dæmis að vottað sé að merktar afurðir séu ekki framleiddar með ríkisstyrk, en þar stendur íslenzkur sjávarútvegur vel að vígi.

Athyglisvert er að Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra skyldi í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi vitna til þessara röksemda umhverfisverndarsamtaka. Tillaga ráðherrans, um að ríki Heimsviðskiptastofnunarinnar semji sín á milli um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi, er einkar þarft innlegg í umræður um sjávarútveg og verndun auðlinda hafsins á alþjóðlegum vettvangi.

BALDUR JÓNS LEIFS FRUMFLUTTUR

FYRIRHUGAÐUR frumflutningur á dans- og tónverki Jóns Leifs á menningarborgarárinu 2000 sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær er mikið fagnaðarefni. Til stendur að setja verkið á svið með stórri hljómsveit, kór, einsöngvurum, dönsurum og leikurum í öllum norrænu borgunum þremur sem bera titilinn menningarborg Evrópu árið 2000, verkið yrði frumflutt hér í Reykjavík og síðan í Helsinki og Björgvin. Stjórnandi yrði Finninn Leif Segerstam og leikstjóri Kjartan Ragnarsson.

Hér er um gríðarmikið verkefni að ræða eins og fram kom í viðtali í blaðinu í gær við Þórunni Sigurðardóttur stjórnanda menningarársverkefnisins hér á landi. Jafnframt er ljóst að hér myndi verða um að ræða mikilvægan viðburð í tónlistarsögu Íslendinga en Baldr hefur aldrei verið sviðsettur áður en hann var hljóðritaður af Sinfóníuhljómsveit æskunnar undir stjórn Pauls Zukofsky. Framlag Jóns Leifs til íslenskrar tónlistar var ómetanlegt. Sennilega á gildi hans þó eftir að koma æ betur í ljós eftir því sem tónlist hans verður meira kynnt en nú er unnið að því á markvissan hátt með hljóðritunum á höfundarverki hans.