UM ÞESSAR mundir stendur yfir viðgerð á ytra byrði Bessastaðakirkju og er það vel að þessu merka guðshúsi, sem var vígt 1796 og er með elztu steinhúsum á landinu, skuli vel haldið við. Víkverja finnst að nú ætti næsta skref að vera það að koma kirkjunni í sína upprunalegu mynd að innanverðu.
UM ÞESSAR mundir stendur yfir viðgerð á ytra byrði Bessastaðakirkju og er það vel að þessu merka guðshúsi, sem var vígt 1796 og er með elztu steinhúsum á landinu, skuli vel haldið við. Víkverja finnst að nú ætti næsta skref að vera það að koma kirkjunni í sína upprunalegu mynd að innanverðu. Stórkostleg spjöll voru unnin á henni árin 1947 og 1948, þegar upprunalega innréttingin, smíðuð eftir teikningum G.D. Anthons, þess sama og teiknaði Viðeyjarkirkju og Landakirkju í Vestmannaeyjum, var rifin úr kirkjunni og í staðinn sett "nýmóðins" innrétting eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Þótt Víkverji sé aðdáandi Guðjóns og flestra verka hans fer ekki á milli mála að "endurbæturnar" á Bessastaðakirkju voru mistök og yrðu ekki leyfðar í dag. En upprunalega innréttingin er að stærstum hluta til á Þjóðminjasafninu og fyrir skömmu fannst einnig hluti hennar á fjóslofti á Bessastöðum. Víkverji leggur til að upprunalegu innréttingunni verði komið fyrir í Bessastaðakirkju á ný og innréttingin frá fimmta áratugnum sett á Þjóðminjasafnið sem dæmi um mistök í byggingarlist, sem ekki eru til eftirbreytni.

BANDARÍSKA utanríkisþjónustan gefur út upplýsingablöð fyrir ferðamenn ("consular information sheet") um hvert einasta ríki í heiminum. Þar er lýst aðstæðum í viðkomandi landi, hvort ferðaþjónusta sé þróuð eður ei, hvað beri að varast og hvernig beri að hegða sér til að komast hjá vandræðum. Í þessum upplýsingablöðum er yfirleitt tínt til það helzta, sem orðið gæti til þess að ógna lífi og limum ferðamanna. Svo dæmi séu tekin af löndunum, sem eru sitt hvoru megin við Ísland í stafrófsröðuðum lista utanríkisráðuneytisins, er varað við mannránum, ættbálkaerjum og vasaþjófnaði í Indlandi og í Ungverjalandi er ferðamönnum ráðlagt að vera á varðbergi gagnvart ránum á götum úti, þjófnaði af hótelherbergjum og bílstuldi.

EN VIÐ hverju skyldi nú bandaríska utanríkisráðuneytið sjá ástæðu til að vara bandaríska ferðamenn, sem leggja leið sína til Íslands? Jú, eina hættan, sem er tilgreind, er "óreiðan" í miðborg Reykjavíkur um helgar. Fregnir af hinu villimannlega ástandi, sem ríkir í miðbænum á föstudags- og laugardagskvöldum, fara greinilega víða. Fer ekki að verða kominn tími til að hreinsa upp ósómann með samstilltu átaki borgaryfirvalda og lögreglu?

ÁÖÐRUM stað í borginni ríkir fullkomin óreiða á hverjum degi, þótt af öðrum toga sé en lætin í miðbænum. Hér á Víkverji við hið stöðuga umferðaröngþveiti, sem einkennir syðri hluta Skeifunnar, Faxafen og Fákafen. Skipulag þessa svæðis er svo fráleitt, að mesta furða má heita að nokkur komist út úr þessum stærsta umferðarhnút borgarinnar, sem einu sinni hættir sér inn í hann. Víkverji heyrði haft eftir arkitekt nokkrum að skipulag svæðisins hefði verið í sæmilegu lagi áður en stjórnmálamenn komust með puttana í það og klúðruðu því. Ætli stjórnmálamennirnir geti gert eitthvað til að laga klúðrið sitt aftur, svo það sé hægt fyrir venjulegt fólk með takmarkaðan tíma að leggja leið sína t.d. í Hagkaup í Skeifunni?