Guðmundur E. Sigurðsson Það mun hafa verið um miðja öldina að breyting varð á næsta umhverfi við æskuheimili mitt. Nýtt fólk var komið í næsta hús, nágrannakona okkar, Stefanía Stefánsdóttir, var búin að gifta sig ekkjumanni og með honum komu tveir synir hans, Guðmundur og Guðfinnur. Vegna nálægðar og aldurs tókst með okkur vinátta sem hefur haldist. Bræðurnir höfðu eignast sitt annað heimili. Þeir höfðu ungir misst móður sína og ólust upp hjá föður sínum og Sesselju systur sinni, sem hélt heimilinu gangandi. Samskiptin á milli okkar urðu mikil og gengið var daglega á milli húsa, stundum gleymdist að banka, undirritaður var þá oftar í sök. Aldurinn réð því að við Guðmundur gengum saman út í vorið og þreifuðum á lífinu meðan unglingsárin gengu yfir, það var ómetanleg reynsla að hafa hann við hlið sér þótt flestir segðu að við værum ólíkir á margan hátt. Guðmundur kom ávallt til dyranna eins og hann var klæddur, sjálfum sér samkvæmur og fór ekki í felur með skoðanir sínar. Hann hafði góða eiginleika til að stunda íþróttir og var sund æft af kappi. Eftir gagnfræðapróf var farið að móta stefnu og áætlanir gerðar um framtíðina. Lífsförunauturinn fannst og bættist inn í vinahópinn, Guðmundur og Eygló fóru ung að búa í Keflavík og stofnuðu sitt heimili. Þannig liðu unglingsárin og fólk varð fullorðið. Börnin komu í heiminn og hamingjan ríkti. Hús var reist og heimilið tók á sig varanlega mynd. Íþróttir voru áfram stundaðar og áhersla lögð á sund. Komst hann í hóp fræknustu sundmanna Suðurnesja og var krýndur sundkóngur þar. Guðmundur átti auðvelt með að umgangast fólk og var það hans sérgrein að vera gleðigjafi með hressandi viðmóti sínu. Þessir eiginleikar komu sér vel þegar hann réð sig í lögregluna. Hann var vel liðinn af yfirmönnum sínum og þeim sem hann þurfti að hafa afskipti af í því vandasama starfi sem lögreglan sinnir. Skylduræknin var honum í blóð borin. Ég átti því láni að fagna að heimsækja Guðmund og Eygló þegar þau bjuggu í Wantana á Long Island-eyju á New York- svæðinu. Þótt tíminn hafi verið naumur var þetta ógleymanleg ferð, Eygló hélt okkur dýrindis veislu og við fórum saman í bæinn. Aðalbygging Sameinuðu þjóðanna var skoðuð og var farið um allar hæðir. Á ferð okkar um húsið var ekki neinn vafi á því að eiginleikar Guðmundar komu sér vel í starfi hans þar. Hann átti sýnilega marga góða kunningja og skipti ekki máli hvert þjóðernið var, öllum virtist líka vel við hann. Ísland átti góðan fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum sem kynnti land og þjóð með áhrifamiklum hætti. Á göngu okkar um stræti New York-borgar var stoppað við og við. Við hittum fólk sem Guðmundur þekkti og þurfti að ræða við, var ég upplýstur um borgina á áhrifamikinn hátt og skapaði nærvera Guðmundar vissa öryggiskennd. Þegar snúið var heim tryggði Guðmundur það að ég fékk góðan stól í flugvélinni með því að ræða aðeins við afgreiðslustúlkuna.

Ég þakka Guðmundi samfylgdina í gegnum árin og votta Eygló og ættingjum mína dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng lifir. Megi almættið hugga ykkur í harmi og veita ykkur styrk í ykkar djúpu sorg.

Sveinbjörn Matthíasson.