Eiríkur Björnsson Að leiðarlokum er margs að minnast frá uppvexti ungs drengs er fékk að vaxa úr grasi við fótskör sjálfmenntaðs járnsmiðs og rafvirkja. Fljótlega sem vit og þroski leyfðu var farið að fylgjast með smíðum á vélum og búnaði sem tengdust rafmagni og virkjun fallvatna. Efniviður var sóttur á vit Ægis sem hafði sett skip í vota gröf á Meðallandsfjörum. Og úr þessu fánýta dóti að margra mati varð til afl sem breyttist í hlýju og ljós vítt og breitt um land. Ekki man ég hvenær það þótti sjálfsagt að taka þátt í að skapa þessi undur með því að létta undir smíðavinnu þar sem litlar hendur gátu flýtt fyrir eða tafið. Oft var heitt í smiðju við eldstó og mest þótti til koma er kopar var mulinn með sleggju þegar átti að steypa lokur í túrbínur og sjá gullinn málminn renna í mót búin til af stakri rósemi og vandvirkni. En þegar smáar hendur urðu stærri fengu þær að taka þátt í að taka í sundur mót og hreinsa undir leiðsögn þolinmóðs afa. Fljótlega tók maður eftir því að síminn hringdi eina langa og eina stutta hringingu í tíma og ótíma. Annaðhvort var um að ræða bón um athugun á virkjun einhvers staðar í bæjarlæk og oftar en ekki voru mál og athuganir til grundvallar túrbínusmíða skrifaðar á bókarkápu símaskrár eða á vegginn við símann. Eða að bjartsýnir ferðalangar sátu fastir við Ófæru og óskuðu hjálpar afa með Z-2 sem á þeim tíma var einn fárra bíla útbúnir með spil. Oftar en ekki komu þessar hjálparbeiðnir seint að kvöldi eða nóttu. Og um sláttinn færðist nú heldur betur fjör í leikinn. Afi reyndi sem mest hann gat að hjálpa við heyannir þótt búskapur hvíldi á herðum Jóns bróður hans frá því ég man eftir mér. Alloft var það svo að hann komst í teig en varð frá að hverfa vegna þess að sveitungar leituðu í smiðju með brotin heyvinnutæki af öllum gerðum. Eitt skiptið líður mér seint úr minni einn fagran dag með iðja græna töðu á velli tilbúna til hirðingar. Afi kominn í heyskap og allir sem vettlingi gátu valdið. En dýrðin stóð stutt. Það þurfti að gera við bilaðar vélar fyrir nágranna og er nær dró miðnætti voru fjórir bændur sem biðu með ónýt tæki og þrír farnir sinn veg með viðgerðar vélar. Já, stundum var vinnudagur langur og launin lítil. Og ekki var við það komandi annað en að koma í bæinn og fá hressingu hjá ömmu. Svo gestagangur gat á stundum verið mikill. En er fram liðu stundir og aldur færðist yfir tók fyrir virkjanir í þeirri mynd sem að framan greindi. Betri tími gafst fyrir lestur vísindatímarita og vangaveltur um hið óleysta. Og í því efni var fylgst með af afar mikilli elju. Hvað eina sem í athugun var á hverjum tíma var gaumgæft og gagnrýnt. Vindorka, sólarorka, rafbílar, læknisfræði, jarðfræði, skógrækt, geimferðir, geimfarartæki o.fl. Til dæmis var brugðið á það ráð að smíða tilraunalíkan af því sem hugurinn var að glíma við hverju sinni "upp' í stöð" en svo nefnist smíðaverkstæðið hans þar sem undrin urðu til. Reyndist stundum erfitt að ráða í hvað var á hönnunar- og tilraunabrautinni. En með þessu var sýnt fram á að sumt gekk upp en annað ekki. Einhverju sinni er ég var við störf við virkjanir á Tungnaársvæðinu sagði ég honum frá jarðbor sem var að afla vinnubúðum vatns. Þetta átti hug hans allan á þeim árum og var afi búinn að verða sér úti um jarðbor frá frumbernsku jarðborana á Íslandi en gripurinn reyndist ekki sem skyldi. Varð nú lærisveinninn að greina frá í smáatriðum hvernig nýmóðins tækið vann. Með þetta að leiðarljósi var farið í smiðju og borinn endurhannaður. Nú skyldi borað eftir heitu vatni í bæjargilinu. Borholan varð 43 m djúp. Og við mælingar Orkustofnunnar var þetta sú hola sem gaf bestu vísbendingar um hita á svæðinu fyrir austan Mýrdalssand og enn að ég best veit. Árið 1981 átti afi kost á því að skoða virkjanir við Tungnaá. Þetta var ólýsanleg upplifun að sjá einn af frumkvöðlum rafvæðingar á Íslandi skoða tröllaukin vatnshjól miðað við þau er urðu til í smiðju hans í mínu minni. Og eitt vakti furðu vakthafandi vélstjóra við skoðun á viðkomandi vatnshjóli. Afi benti á hönnunargalla í formi hjóls sem hann hafði eftir áralangar tilraunir breytt til betri vegar! Já, það er margs að minnast eftir langa samferð. Nú undir það síðasta var afi farinn að leita á náðir læknavísinda til að láta lagfæra eins og hann orðaði það eitt og annað sem elli kerling olli honum erfiðleikum með sem hann gat ekki lagfært sjálfur með svæðanuddi og grasalyfjum. Nú í síðust viku hringdi síminn og afi var þar kominn og bað mig að athuga með gleraugun sín sem hann gleymdi í Svínadal. Það væri svo bagalegt að geta ekki lesið meðan hann væri á sjúkrahúsinu. En nú er komið að leiðarlokum og gleraugun koma víst ekki að gagni lengur við athuganir á hinu óleysta. Afi, ­ takk fyrir allt og allt. Hvíl í friði. Páll Steinþór Bjarnason.