Guðfinna Gísladóttir Guðfinna Gísladóttir, móðursystir mín, lést 21. september 94 ára að aldri. Hún var södd lífdaga og óttaðist ekki dauðann.

Guðfinna varð ekkja ung að árum, 37 ára, með þrjár dætur á aldrinum 4-9 ára. Þeim kom hún upp með sóma. Auðvitað þurfti hún að taka þátt í erfiðri lífsbaráttu, meira eða minna óstudd, en einhvern veginn vill þessi einfalda staðreynd gleymast því að aldrei kvartaði Guðfinna frænka og aldrei var hún bitur. Hún var stolt, mjög stolt, og lifði ævi sína í sálarlegri reisn. Aldrei safnaði hún veraldarauði, til þess voru ekki efni, en gjafmild var hún alltaf.

Samband þeirra systra, Guðfinnu og Málfríðar, móður minnar, var alla tíð innilegt. Oft hugsuðu þær hvor til annarar. Tengsl þeirra systra við bræður sína var einnig náið. Öll komu þau af alþýðuheimili í sveit þar sem lærdómur og þroski hvers og eins var mest allra verðmæta. Áföllin í lífinu voru til að styrkja samheldnina. Eftir að Guðfinna varð ekkja urðu heimili þeirra systranna stundum næstum því ein heild. Dætur Guðfinnu, allar þrjár, urðu í félagslegri merkingu (ef það orðalag má nota) stóru systur mínar, engu minna en systkinin mín sex voru litlu systurnar og bræðurnir. Það voru forréttindi mín að standa hér mitt á milli og eiga nokkurs konar aukamóður í Guðfinnu. Ekki skemmdi fyrir að ég naut nafns en föður sinn dáði hún alla tíð og þótti vænt um. En við öll systkinin sjö, Málfríðarbörn, kölluðum Guðfinnu bara einu nafni: Frænka. Auðvitað áttum við fleiri frænkur en þessi var sérstök.

Eftir að dætur Frænku höfðu stofnað eigin heimili, bjó hún ein og sem stolt kona sem allra mest óstudd. En smám saman fór líkamsþróttur hennar þverrandi; andlegu atgervi hélt hún hins vegar vel nema skammtímaminnið fór að bregðast. Dætur hennar, sem búsettar voru á Íslandi, þær Stella (Valborg) og Þóra, studdu hana þá eins mikið og hún leyfði, og yngsta dóttirin, Didda (Elsa), kom eins oft frá Englandi til að vera hjá móður sinni og kostur var á.

Guðfinnu frænku líkaði ekki alls kostar að fara á hjúkrunarheimili fyrir tæpum þremur árum, en það segir talsvert um þá góðu umönnun sem hún fékk á Droplaugarstöðum að brátt líkaði henni dvölin þar prýðilega.

Heimsóknir mínar til Frænku á Droplaugarstöðum voru allt of fáar. En það dró dálítið úr samviskubiti mínu vegna þessarar vanrækslu að í þessi fáu skipti sem ég heimsótti hana, heyrði ég gjarnan að einhver dóttir hennar eða barnabarn hefði nýlega verið þar eða væri að koma og oft var einhver afkomandi Frænku á staðnum þegar ég kom. Alúð þeirra allra við Guðfinnu frænku held ég hreinlega að hafi verið einstök. Við minnumst nú flekklausrar konu sem erfitt líf skemmdi ekki. Guðfinnu frænku þótti vænt um fólk. Alls staðar þar sem hún fór var mildi og hlýja með í för. Ég votta dætrum Guðfinnu Gísladóttur og öllum afkomendum hennar samúð mína.

Gísli Gunnarsson.