Elisabeth (Betty) Jóhannsson Hún tengdamóðir mín, Elizabeth Jóhannsson, er látin. Bettý, eins og hún var ávallt kölluð, var fædd í Englandi en fluttist hingað til lands ung að árum með eiginmanni sínum, Einari Jóhannsyni skipstjóra. Hér stofnuðu þau heimili og bjuggu á höfuðborgarsvæðinu í nokkur ár, en síðan fluttust þau vestur á Ísafjörð þar sem þau bjuggu til dauðadags. Einar var fengsæll og virtur togaraskipstjóri sem átti á sínum tíma drjúgan þátt í að byggja upp togaraútgerð Ísfirðinga. Hann lést árið 1984.

Bettý var dugmikil kona og henni féll sjaldan verk úr hendi. Einar var sjómaður og því oft langdvölum fjarri heimilinu. Það kom í hlut Bettýar að sjá um heimilið og börnin fimm. Það hefur eflaust ekki alltaf verið dans á rósum, hún var útlendingur og talaði ekki málið og allir hennar nánustu ættingjar voru erlendis. En hún var fljót að laga sig að aðstæðum og bjó þeim hjónum glæsilegt heimili þar sem mikil gestrisni og ástúð ríkti.

Þegar ég var svo lánsamur að tengjast þessari fjölskyldu fyrir rúmum aldarfjórðungi var mér strax tekið eins og einum úr fjölskyldunni. Við Margrét bjuggum á heimili þeirra fyrstu sumrin í okkar sambúð. Þau hjón áttu það sameiginlegt að vera hreinskiptin og einlæg og með eindæmun gestrisin. Til þeirra var gott að koma.

Eftir að börnin fóru að heiman fór Bettý að vinna við rækjuvinnslu. Hún varð fljótt vinsæll starfskraftur sem lagði metnað í starf sitt og henni fannst gaman að vinna, eins og hún sagði sjálf. Þegar barnabörnin komu í heiminn, eitt af öðru, fékk Bettý nýtt hlutverk. Amma Bettý, eins og barnabörnin kölluðu hana gjarnan, tók ömmuhlutverkið alvarlega og vildi nú sjá til þess að blessuð börnin skorti ekki neitt, enda var aldrei í kot vísað þar sem Bettý var annars vegar.

Manneskjan þroskast fyrst og fremst við það að vera samvistum við aðrar manneskjur. Ég met mikils að hafa fengið að kynnast þeim hjónum, Bettý og Einari, og er þakklátur fyrir samfylgdina og allar samverustundirnar á heimili þeirra. Blessuð sé minning þeirra.

Bettý, ég þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur Möggu og börnin. Friður veri með þér.

Öllum aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Og bleikum er blöðum þar stráð,

þau eru bjarkanna fallna lið.

Yfir lög, yfir láð

þreytir lífið sitt flug,

vísar biðlund á bug.

Og við

eigum bið

líkt og blöðin sem falla á grund.

Einnig við.

Stutta stund.

(G. Meredith) Sverrir Magnússon.