Guðfinna Gísladóttir Hlýir sumarvindar bjartar nætur og lykt af nýþurrkuðu heyi. Þessi tilfinning kemur upp í hugann þegar við minnumst þess tíma þegar Finna frænka kom í heimsókn til okkar í Krossgerði.

Á þessum árum gekk hún alltaf undir Finnu frænku nafninu. Við systkinin höfðum svo mikið heyrt talað um föðursystkin okkar Finnu, Möllu og Steina. Þau bjuggu öll í Reykjavík og við sáum þau þess vegna sjaldan. Mikill var spenningurinn að fá að kynnast henni Finnu frænku. Og ekki urðum við fyrir vonbrigðum. Okkur fannst hún sameina það tvennt að vera háttvís borgardama og glettin ung kona, þó var hún komin á sextugsaldur þegar við kynntumst henni. Hún ætlaði að dveljast nokkra daga hjá bróður sínum og mágkonu. Pabbi var svo ánæður að sitja á kvöldin og tala við systur sína og saman rifjuðu þau upp atvik úr bernsku sinni. Og við fundum fyrir samheldninni og væntumþykjunni á milli þeirra. Og ekki fannst okkur lítið spennandi þegar hún dró upp úr pússi sínu pakka handa hverju okkar. Það einkenndi Guðfinnu frænku alla tíð að hafa sannkallaða ánægju af því að gefa.

Seinna þegar við komum til Reykjavíkur var ekki lítis virði að eiga að þetta trausta frændfólk sem skaut yfir mann skjóli hvenær sem var. Og ekki var hún Finna eftirbátur annarra í því fremur en öðru.

Þótt hún byggi ekki í stórum íbúðum þá var alltaf pláss hjá henni. Haustið 1971 bjó ég (Kristborg) hjá henni í fimm vikur. Þá bjó hún inni í Safamýri. Það var góður tími fyrir mig. Við ræddum oft saman um lífið og tilveruna. Hún sagði mér ýmislegt frá þeim tíma sem hún var að alast upp í Krossgerði. Þá rifjaði hún gjarnan upp það sem vakti gleði og kallaði fram hlátur. Við töluðum líka um það sem hafði verið erfitt og skilið eftir ör. Mér fannst hún frænka okkar hafa einstakt lag á því að sjá það jákvæða við lífið og fólk. Og vinamörg var hún. Á þessum árum var hún í vináttusambandi við fjöldann allan að fólki, bæði Austfirðinga búandi í bænum, gamla vinnufélaga og marga aðra.

Finna frænka átti góða og samheldna fjölskyldu. Stelpurnar hennar, eins og hún kallaði þær alltaf, Stella, Þóra og Didda voru hennar fjársjóður. Þær ól hún upp ein eftir að hafa misst eiginmann sinn í sjóslysi. Tengdasynirnir reyndust henni vel svo og barnabörnin öll. Hún var svo sannarlega rík hún frænka okkar og það fannst henni líka.

Við frænkurnar, börn þeirra Krossgerðissystkina, stofnuðum saumaklúbb árið 1980 sem gengur undir nafninu frænkuklúbburinn. Í honum voru þær systur Guðfinna og Málfríður aldursforsetar ásamt Rósu, ekkju Björgvins bróður þeirra. Klúbburinn hefur orðið til þess að böndin hafa hnýst fastar en ella og samstaðan sem hefur alltaf verið mikil milli þessa frændgarðs er enn meiri. Yfir þessu gladdist Finna og fylgdist með klúbbnum þó ekki kæmist hún mikið með síðustu árin. Hún gladdist þegar hún vissi að við skemmtum okkur. Þannig var hún. Við ættingjarnir hittumst mörg í hófi sem við héldum í Sunnuhlíð í Kópavogi síðastliðið haust. Það var haldið til heiðurs Finnu og Aðalsteini sem ekki komust á ættarmótið sem við héldum í Krossgerði síðastliðið sumar. Þangað kom Finna fallega klædd með glampa í brúnum augunum, geislandi eins og alltaf. Við vottum ættingjum Guðfinnu frænku okkar dýpstu samúð okkar og þökkum Guðfinnu ógleymanlega samfylgd.

Rósa mágkona, Fjóla Margrét, Kristborg, Einar og Sigurður.