Guðmundur E. Sigurðsson Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(M.Joch.) Kæri góði bróðir, ég man vel daginn þegar þú fæddist í þennan heim. Ég man svo vel gleðina og sorgina sem ríkti heima hjá ömmu og afa á Lindargötunni. Þú fæddist langt fyrir tímann svo agnar lítill og smár. Þú varst gleðin mitt í sorginni, daginn þegar bræður hennar mömmu fórust á skipinu. Þá misstu amma og afi syni sína, eiginkona og unnusta menn sína og þrjú börn feður sína. Þú dafnaðir svo vel, svo ótrúlega vel og varst vatni ausinn og fékkst nöfnin þín mörgu, Guðmundur Elíntínus Sigurður Árni, í minningu þeirra tveggja.

Þú varst tápmikill og frískur drengur, augasteinn okkar allra. Þú fórst oft í gönguferðir með afa niður að höfn og niður í bæ. Þú lékst þér í sumarbústaðnum okkar með hinum frændsystkinum okkar, þá var líf okkar og hjarta baðað ljósi, gleði og hamingju.

En elsku Gummi minn, dagurinn rétt fyrir jólin hinn 18. desember 1947 þegar mamma dó aðeins 34 ára fer mér aldrei úr minni, þá var myrkur í hjarta okkar allra. Mamma var búin að vera lengi veik og liggja oft á sjúkrahúsum. Þú varst nýlega orðinn 9 ára, og Finni litli bróðir okkar orðinn 7 ára og ég sjálf rétt orðin 17 ára. Ég man svo vel hvað við grétum öll mikið og sárt. Ég var svo lítil í mér en ég reyndi að vera svo stór og sterk vegna ykkar Finna. Ég man jólin þegar kistan hennar mömmu stóð heima í stofunni á Njálsgötunni og þið Finni vilduð ekki yfirgefa kistuna og sofnuðuð við hana.

Mér var sagt að ég yrði að vera svo sterk og ég reyndi að vera dugleg en þetta var svo sárt. Ég veit og þekki hversu djúp og varanleg spor þetta markaði í huga og hjarta okkar allra. Sorgin okkar og söknuðurinn sameinaði okkur systkinin sterkum böndum. Pabbi var alltaf á sjónum og ég tók við heimilinu og reyndi að vera ykkur bæði móðir og systir, en svo komu ráðskonur og ég sjálf gifti mig mjög ung.

Nýlega áttum við hjónin með þér yndislega góða stund þegar þú heimsóttir okkur nú í ágúst síðastliðnum. Þú varst orðinn svo veikur og máttfarinn en þó svo duglegur og sterkur í baráttu þinni. Þú sast inni í stofu og sagðir við manninn minn: "Mummi, ég man þegar þú komst með barnapíu og varst að reyna að múta okkur Finna með súkkulaði til að fara með Sellu systur í bíó."

Og þú sem við fæðingu varst svo agnar lítill og smár stækkaðir og óxt úr grasi í fallegan, glæsilegan ungan mann. Þú fórst til vinnu í Keflavík og þar kynntist þú ungri og fallegri stúlku, henni Eygló. Þú komst með hana til okkar hjónanna og kynntir hana fyrir okkur. Ég man hvað þið voruð ung, sæt og hamingjusöm. Þið Eygló giftuð ykkur og eignuðust fimm yndisleg börn. Þú gerðist lögreglumaður og þið bjugguð fyrst í Keflavík en seinna fluttust þið til Bandaríkjanna þar sem þú starfaðir sem öryggisvörður hjá Sameinuðu þjóðunum. Leiðin til Bandaríkjanna er löng en þráðurinn milli okkar systkinanna slitnaði ekki. Þú hringdir til mín eða sendir mér kort hvar sem þú varst staddur í heiminum vegna vinnu þinnar. Þegar sorgin knúði dyra í minni fjölskyldu komst þú til landsins til að styrkja okkur í sorg okkar. Þú varst stór og sterkur maður en með svo ríkar tilfinningar og alla tíð óhræddur að sýna þær.

Við hjónin viljum þakka þér fyrir það hversu góður og kær frændi þú varst börnum okkar. Hversu góð þið hjónin voruð dætrum okkar þegar þær heimsóttu ykkur til Bandaríkjanna.

Kæri bróðir, þú háðir hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm en þú varst ekki einn því þú áttir tryggan og kærleiksríkan lífsförunaut. Elsku Eygló hefur staðið með þér og fylgt þér eftir í baráttu þinni. þú varst svo ríkur því þú naust þeirrar gæfu að vera umvafinn elsku og kærleika af eiginkonu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Ég þakka Guði fyrir það að ég fékk að eiga þig sem bróður og bið algóðan Guð að varðveita þig í faðmi sínum. Minning þín lifir, kæri bróðir. Friður sé með þér.

Elsku Eygló, Sólveig, Helga, Sonja, Guðmundur og Ásgeir, megi góður Guð blessa ykkur og styrkja í sorg ykkar. Megi hann breiða kærleiksarma sína yfir ykkur og umvefja og leiða ykkur í ljósið.

Guð geymi minningu þína, kæri bróðir, um alla eilífð.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virzt mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(S. Egilsson.) Þín systir,

Sesselja.